Evrópusambandinu og framkvæmdastjórn þess er ekkert mannlegt óviðkomandi. Þar á bæ er veröldinni skipt niður í skipulega búta sem fjalla um allt frá tollkvótum og yfir í bókmenntaverðlaun. DG Culture (Directorate General for Culture) sem útleggst sem einhverskonar menningarmálaráðuneyti sambandsins stendur m.a. fyrir ýmiskonar verðlaunaveitingum (bókmenntir, arkitektúr, menningararfur o.fl) sem settar voru á laggirnar í gegnum nokkuð sem kallast „special action“ innan Menningaráætlunar sambandsins sem menn geta kynnt sér nánar hér
Markmiðið með Evrópsku bókmenntaverðlaununum er að setja kastljósið á alla þá sköpun og hin margbreytilegu verðmæti sem felast í evrópskum samtímabókmenntum á sviði skáldverka, auka dreifingu bókmennta innan Evrópu og vekja innan landanna áhuga á bókmenntum annarra Evrópuþjóða.
Verðlaunin eru nú veitt í þriðja sinn, en val vinningshafa fer þannig fram að í hvert sinn eru valin 11-12 lönd af þeim 35 sem taka þátt í Menningaráætlun sambandsins, í þessum löndum er sett upp valnefnd sem velur einn upprennandi skáldsagnahöfund sem vinningshafa. Til að hægt sé að tilnefna höfund til verðlaunanna þarf viðkomandi að uppfylla ýmis skilyrði m.a. þau að vera ríkisborgari einhvers þeirra 11-12 landa sem valin hafa verið, hafa gefið út 2-4 skáldverk sem þurfa að hafa komið út á síðustu fimm árum. Það eru svo Samband evrópskra bóksala (European Booksellers Federation), Rithöfundaráð Evrópu (European Writers Council) og Bandalag evrópskra bókaútgefenda (Federation of European Publishers) sem hafa yfirumsjón með því að skipa valnefndirnar og sjá um skipulag og framkvæmd verðlaunanna. Á heimasíðu verðlaunanna er hægt að lesa sér nánar til.
Löndin sem valin voru til þátttöku í ár eru: Búlgaría, Tékkland, Grikkland, Ísland, Lettland, Liechtenstein, Malta, Svartfjallaland, Serbía, Holland, Tyrkland og Bretland.
Niðurstöður dómnefnda þessara 11 landa voru svo tilkynntar í dag, 12. október, á Bókamessunni í Frankfurt. Vinningshafarnir eru:
Kalin Terziyski (Búlgaría), Tomáš Zmeškal (Tékkland), Kostas Hatziantoniou (Grikkland), Ófeigur Sigurðsson (Ísland), Inga Zolude (Lettland) Iren Nigg (Liechtenstein), Immanuel Mifsud (Malta), Andrej Nikolaidis (Svartfjallaland), Rodaan Al Galidi (Holland), Jelena Lengold (Serbía), Ciler Ilhan (Tyrkland), og Adam Foulds (Bretland).
Þau hljóta verðlaunapeninga að upphæð 5000 evrur auk tækifæra til þess að fá bækur sínar þýddar á önnur evrópsk tungumál og auka þarmeð sýnileika sinn og bókanna!
Verðlaunin verða svo afhent við formlega athöfn í Brussel þann 28. nóvember að viðstöddum fyrirmönnum úr bókageiranum auk evrópskra stjórnmálamanna og að ógelymdri hollensku prinsessunni Laurentien.
Druslubókadömur óska vinningshöfum til hamingju og hlakka til að kynna sér verk þeirra í íslenskum þýðingum.
P.S. (14.10.2011) Nú er komið nýtt efni inná heimasíðu verðlaunanna og er þar að finna skjal með lista yfir dómnefndir landanna. Í íslensku dómefndinni, sem skipulögð var af Rithöfundasambandinu, sátu eftirtaldir: Auður Aðalsteinsdóttir, Gyrðir Elíasson og Aðalsteinn Ásberg. Skjalið má nálgast hér
Hefur einhvers staðar verið gefið upp hverjir voru í íslensku nefndinni?
SvaraEyðaHér ætti það að standa en ekkert stendur samt: http://www.euprizeliterature.eu/national-juries
SvaraEyðaMaður ætti kannski að senda póst og spyrja?
Þetta er stórfróðlegt!
SvaraEyðaNefndir:
SvaraEyðahttp://www.euprizeliterature.eu/sites/www.euprizeliterature.eu/files/EUPL-Juries_List27-04-2011.pdf