13. október 2011

Smá ljóðahátíðarfréttir


Alþjóðlega ljóðahátíðin fór fram um síðustu helgi og mér datt í hug að setja inn fáeinar misblörraðar myndir frá hátíðinni - af Þórdísi Gísladóttur, Monicu Aasprong og Gary Barwin. Ég er rosa léleg í uppsetningu á Blogger þannig að þær koma örugglega frekar skringilega út (ég lofa að mennta mig betur í þessari tækni við fyrsta tækifæri). Ég náði ekki allri hátíðinni, var í Nýlistasafninu á upplestrum föstudagskvöldsins og fyrri part laugardagskvölds en missti af pallborðsumræðunum í Norræna húsinu á laugardaginn. Ég er því að flestu leyti frekar vonlaus fréttaritari, en það er þá hægt að bæta upp fyrir það í athugasemdum.

Það var kannski aðeins lágstemmdara yfirbragð á hátíðinni, eða þeim hluta hennar sem ég sá, en oft hefur verið á fyrirrennara hennar, alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils. Húsnæði Nýlistasafnsins fannst mér henta prýðilega, passlega stórt og næs töts (e. nice touch) að vera með tvær heyrúllur úti á miðju gólfi. Á föstudagskvöldinu fannst mér einna skemmtilegast að heyra í Elíasi Portela/Knörr, sem las á hundrað og sjö tungumálum eða þar um bil, enda hafði ég aldrei heyrt hann lesa áður. Súrir tónar S.L.Á.T.U.R.s lífguðu upp á hléið og ég veit það voru fleiri en ég sem þráðu að sjá á tölvuskjáinn sem tónlistarmennirnir störðu einbeitingarfullir á og fengu þaðan skilaboð um þá stöku tóna saxófóns og flautu sem þeir gáfu frá sér – hvað í fjandanum voru þeir að horfa á, hvernig litu þessi nótnablöð út? Ragnhildur Jóhanns var með stutt og dáleiðandi atriði – las beygingar upp úr orðabók með djúpraddaðri aðstoð svo úr varð hljóðverk.

Ég sá svo ekki mörg atriði á laugardagskvöldinu, kom seint og fór snemma og missti af báðum erlendu skáldunum - frétti þó að Anne Kawala hefði átt góðan performans með aðstoð Elíasar Portela, en náði alltént að uppgötva að Jón Bjarki Magnússon er með fallega söngrödd sem hann ætti endilega að nota oftar á ljóðaupplestrum!

Það er mín einlæg von að alþjóðlega ljóðahátíðin verði jafn langlíf og enn langlífari en alþjóðleg ljóðahátíð Nýhils. Angela Rawlings, listrænn stjórnandi hátíðarinnar í ár, á að lokum þakkir skildar fyrir alla vinnuna. Hér má hlusta á umfjöllun Víðsjár og nokkra upplestra af hátíðinni. Einnig las Anne Kawala í Kiljunni 5. október.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli