1. október 2011

Gleðilegir endurfundir á bókamarkaði



Játning: Ég er alltaf að reyna að draga úr bókakaupum, en er á síðustu árum orðin afskaplega gjörn á að kaupa barnabækur til að eiga uppi í hillu eftir svo og svo mörg ár ... ýmist hugsa ég með mér að mín stórkostlega litla frænka geti notið þeirra eftir nokkur ár eða jafnvel að hugsanleg, möguleg framtíðarafkvæmi mín muni hafa gaman af þeim. Það er sumsé ekki nóg með að ég fylli allt af bókum fyrir sjálfa mig hér og nú, heldur hlaðast líka upp bækur til lestrar í ókominni framtíð.

Slík kaup gerði ég einmitt í gær, þegar ég leit við á lagersölu Forlagsins með það að markmiði að kaupa tvær afmælisgjafir. Ah, hvílík sjálfblekking - eins og ég hefði einhvern tíma látið staðar numið við það. Ég missti mig reyndar ekkert svakalega en festi þó kaup á nokkrum góðum, t.d. enn einu eintaki af Lífið framundan eftir Romain Gary sem ég hef gefið ófáum vinum í gegnum árin. En ég rakst líka á eina af mínum uppáhalds eftir Astrid Lindgren; bók sem merkilega margir hafa aldrei heyrt á minnst. Þetta er hin stórskemmtilega Rasmus fer á flakk, í þýðingu Lindgren-þýðandans mikla Sigrúnar Árnadóttur, en bókin kom fyrst út á íslensku árið 1987, rúmum þrjátíu árum eftir að hún var skrifuð.
Mig minnir að ég hafi fengið hana frá foreldrum mínum á 7 ára afmælisdaginn og ég á afar góðar minningar um að hlusta á pabba lesa ævintýri Rasmusar upphátt fyrir mig á kvöldin (það á nefnilega ekki að hætta að lesa fyrir börn þótt þau séu orðin læs, eða það finnst undirritaðri a.m.k. ekki!).

Rasmus er munaðarleysingi eins og óheyrilega margar persónur í barnabókum. Hvað er þetta með munaðarleysingjana? Sjálfri fannst mér fátt skemmtilegra en að lesa um umkomulaus börn á mínum aldri, helst með tilheyrandi eymd sem síðan snerist upp í lukku og hamingju í bókarlok. Það eru örugglega til einhverjar sálfræðistúdíur á þessu. Rasmus býr á kuldalegu upptökuheimili ásamt öðrum drengjum. Forstöðukonan hefur óbeit á Rasmusi og ávítar hann stöðugt fyrir að vera óhreinasti drengurinn á öllu heimilinu, en á móti segir Lindgren: "Rasmus var kannski í sjálfu sér ekkert latari en aðrir níu ára krakkar. Hann hafði bara eins og aðrir krakkar á hans reki eðlilega óbeit á öllu sem aftraði honum frá því að klifra í trjánum, baða sig í ánni eða slást í ræningjahóp með hinum strákunum og fela sig á bak við kartöflugeymsluna til að gera stelpunni fyrirsát sem send var eftir kartöflunum." Börn eiga sumsé að fá að vera börn, en það er ekki í boði á ríkisreknu upptökuheimili sem þarf að afla tekna með eggja- og grænmetissölu. Þetta er sennilega fyrsta dæmið í bókinni af mýmörgum um ádeilu á efnahagslega misskiptingu í sænsku samfélagi upp úr aldamótunum 1900. Þrátt fyrir að auðvitað sé sagan fyrst og fremst skemmtileg, skondin og hjartnæm frásögn af ferðalagi strokudrengsins Rasmusar er undirtónninn samfélagslegs eðlis; Astrid Lindgren stendur með þeim sem ekki falla að viðmiðum þjóðfélagsins og skera sig úr að einhverju leyti, þeim sem verða undir og er ekki gefið færi á að lifa á eigin forsendum.

Hin aðalpersónan í bókinni er flakkarinn Óskar, sem Rasmus kynnist eftir að hann strýkur í fússi af munaðarleysingjahælinu. Óskar er ein af mínum eftirlætispersónum í Astrid Lindgren-bókunum. Hann er svo afskaplega breyskur og ófullkominn, en svo lífsglaður og góðhjartaður að mann langar samstundis að fara á flakk með þeim félögum. Óskar er sannarlega enginn betri borgari; eins og í bókunum um Línu langsokk gefur Lindgren þeim langt nef sem aðhyllast stíft, borgaralegt líferni og fordæma alla aðra hegðun. Að mörgu leyti eru þeir Rasmus og Óskar í sömu stöðu - þeir eru "lágt settir" og þeim er þar af leiðandi ekki trúað. Í bókinni flækjast þeir fram og til baka um Smálöndin, lenda í gríðarlegum hasar og flækjast jafnvel inn í glæpamál, en það sem mestu skiptir eru þó alltaf samskipti þeirra tveggja og það sem þeir læra hvor af öðrum.

Mér finnst eins og það hafi verið sjónvarpsþættir gerðir upp úr bókinni og sýndir á Rúv fyrir margt löngu - man einhver eftir því?

Ég vissi ekki að Rasmus væri fáanleg enn þann dag í dag, en rakst semsagt á hana í kiljuútgáfu á 490 kr. á lagersölunni. Þótt sú innbundna sem ég fékk árið 1988 (og býr heima hjá m&p) sé vissulega fallegri er þessi fín til síns brúks. Ég festi kaup á henni með það í huga að litla frænka yrði tilbúin í hana eftir svona fjögur ár. Sumir kaupa hlutabréf, ég kaupi bækur.

4 ummæli:

  1. Oh, ég elskaði Rasmus fer á flakk! Og Óskar, þvílík hetja í bernsku minni. Verð að endurnýja kynni mín við þá bráðlega.

    SvaraEyða
  2. Ég hef alltaf litið á þetta með munaðarleysingjana sem pjúra frásagnarfræðilegt tannhjól. Það er örugglega ekki eins gott rými fyrir ævintýralega atburði ef mamma og pabbi skikka mann heim í kvöldmat og banna manni að fara út aftur! Og ef foreldrarnir eru eftirgefanleg og veita svigrúm fyrir ævintýramennsku þá myndi sagan sjálfsagt alveg drukkna í vandlætingafullum umvöndunum!

    Annars er pistillinn frábær og ég styð heilshugar framtíðarfjárfestingar í bókum!

    SvaraEyða
  3. Já, það er góður punktur - foreldraleysið losar sannarlega um böndin og leyfir frásögninni að fara á staði sem annars væru vafasamir!

    Annars byrjaði ég auðvitað að glugga í bókina meðan ég skrifaði pistilinn, og er núna komin með hana á náttborðið.

    SvaraEyða
  4. Ég hef lengi vitað að ef ég hefði verið munaðarlaus eða vanrækt, væri ég áreiðanlega frægur rithöfundur í dag. Ein af þessum frægu hér í Frakklandi horfði á pabba sinn skjóta mömmu hennar (eða var það öfugt). Hjá mér lék alltaf allt í (fjandans) lyndi og það vantar allt fútt í mig. Og þið sjáið að kenningin mín virkar, allt þetta munaðarlausa fólk er heimsfrægt og það í gegnum margar kynslóðir lesenda. Kristín bullar frá París.

    SvaraEyða