2. október 2011

Hinir dauðu - og hinir


Sumarið 2010 las ég bókina Land draumanna eftir norðmanninn Vidar Sundstøl og skrifaði stutta umfjöllun um hana hér á Druslubókavefinn. Núna fyrir nokkrum dögum komst ég svo í gegnum bók tvö í þessari seríu (þríleik) um norskættuðu skógarlögguna frá Minnesota, Lance Hansen. Sú nefnist Hinir dauðu og kom út hjá Undirheimum, hliðarútgáfu Uppheima fyrr á árinu.

Á bókarkápunni er varpað fram spurningunni: „verður veiðimaðurinn sjálfur bráð?“ og segja má að sú pæling einkenni söguna. Lance er þjakaður af sektarkennd yfir framgöngu sinni við að upplýsa morðmálið sem fyrri bókin lýsir, þegar ungur norskur ferðamaður er myrtur við strönd Lake Superior. Lance grunar sum sé bróður sinn Andy um morðið, en gerði engum viðvart um grunsemdir sínar og aðhafðist ekki þegar Lenny Diver, tuttugu og fimm ára gamall Ojibway indjáni var handtekinn og fangelsaður grunaður um morðið. Lenny þessi gat ekki gefið neinar trúverðugar skýringar á ferðum sínum morðkvöldið, og á vettvangi fannst blóðblettur sem við greiningu skilaði þeim niðurstöðum að sá seki væri af indjánaættum því fram kom stökkbreytt gen sem nær einungis finnst í frumbyggjum Ameríku. Lance gerir ekkert þrátt fyrir að hann viti að Andy bróðir hans segi ekki rétt frá ferðum sínum morðkvöldið, að hafnaboltakylfan sem notuð var sem morðvopn sé merkt AH – og hann komist að því í gegnum sagnfræðirannsóknir sínar að langamma þeirra bræðra, Nanette, hafi verið Ojibway indjáni, en fram að þeim tíma hafði það verið viðtekin skilningur innan fjölskyldunnar að hún hafi verið frönsk. Þarmeð var í raun síðasta hálmstrá hans varðandi sekt bróðurins farið.

Hinir dauðu fjallar að mestum hluta um veiðiferð þeirra bræðra, en þeir eru staddir útí skógi í árlegri hjartarveiðiferð. Þar verður einhverskonar hálfþögult uppgjör þeirra á milli, Lance segir Andy að hann telji hann vera morðingjann og þarmeð er fjandinn laus. Veiðmaðurinn verður bráð, bráðin veiðimaður og allt umhverfið fer að taka þátt í leiknum. Inní frásögnina af samskiptum þeirra Lance og Andy er svo fléttað sögu forföður þeirra Thormod Olson og samskiptum hans við töfralækninn Swamper Cariboo.

Þessi bók, líkt og sú fyrri, er vel skrifuð og unnin. Hún er líka ágætlega þýdd af Kristínu R. Thorlacius. Samt náði hún ekki að kveikja neitt í mér. Það sem mér fannst best gert í fyrri bókinni, eða lýsingar á mannlífi og umhverfi í norskættaðra Ameríkana í Minnesota, er ekki alveg jafn vel heppnað í þessari. Vissulega eru flottar lýsingar á hjartarveiðunum í skóginum, ísrigningunni, þeirri tilfinningu að vera eltur og villuráfandi í dimmum og draugalegum skógi, en þetta var ekki alveg að gera sig fyrir mig. Það sem mér fannst verulega vel heppnað í bókinni var saga Thormods Olson og samskipta hans við Ojibwayann Swamper Cariboo. Ég hefði verið til í að lesa mun meira um þá félaga og komast lengra með sögu Thormods og þeirra Nanette og Knúts. Kannski gerist það í þriðja hlutanum, hver veit.

Þrátt fyrir að vera svolítið svekkt yfir þessari miðbók Minnesota þríleiks Sundstøls þá ætla ég mér að lesa lokahlutann þegar hann kemur út – og vona að hann verði meira í anda fyrstu bókarinnar og nái að gera það sem maður vonaðist eftir að þessi gerði, þ.e. að vinna áfram með fjölskylduflækjurnar og hverning morðið sem framið er í fyrstu bókinni tengist inní fortíðina og fjölskylduna bæði í Noregi og á slóðum Ojibwayanna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli