Ég hata mánudaga. Ég hata súld og ég hata gargandi krákur. Og eins og það sé ekki nóg að það sé kaldur og grár mánudagur þá hef ég þurft að eyða morgninum í að reyna að setja saman ferilskrá. Fátt veit ég óréttlátara en að það sé ætlast til að maður haldi sjálfur skrá yfir hversu ómerkilegur maður sé! Nei, á svona stundum þarf maður virkilega á smá upplyftingu að halda og sem betur fer er hún innan seilingar. Ég á nefnilega í fórum mínum myndir sem ég skoða gjarnan ef ég þarf að hressa mig við. Leyfið mér að kynna ykkur fyrir sænska rithöfundinum Björn Ranelid:
Ég þarf ekki annað en að horfa á þessa mynd eitt augnablik til að vera í það minnsta farin að brosa út í annað, jafnvel hlæja upphátt. Kannski það sé leðurtöskuhúðin eða sveipurinn í englahárinu? Eða svipurinn, þetta fjarræna og gáfulega augnaráð? Sennilega er það samt aðallega sú staðreynd að Björn Ranelid er bæði í útliti og anda eins og skilgetið afkvæmi Frímanns Gunnarssonar sjónvarpsmanns og Gilderoy Lockhart úr Harry Potter bókunum.
Ef hvorug myndin er nóg til að kæta mig get ég alltaf gúgglað einhverjar tilvitnanir í Björn Ranelid til að fullkomna gleðina. Það er rétt að taka það fram að maðurinn fékk Augustpriset, virstu bókmenntaverðlaun Svía, árið 1994 svo hann virðist eiga sér að minnsta kosti jafnmarga aðdáendur og hann á aðhlæjendur. Sjálf er ég handviss um að dómnefndin hafi verið full það árið. Ég skal fúslega játa að ég hef ekki lesið heilt verk eftir Björn en árið 2009 gaf hann út bók með fleygum tilvitnunum í sig á fjórum tungumálum og þar sem hann virðist sjálfur telja að sitt helsta framlag til sænskra bókmennta sé að finna einmitt í téðum tilvitnunum leyfi ég mér að láta þær nægja til að draga mínar ályktanir. Ég hef sem sagt rannsakað málið ítarlega og skoðað frá öllum hliðum og komist að þeirri niðurstöðu að líkingamál Björns Ranelids sé svolítið eins og að gubba bleikum slaufum og glimmeri. Og til að hressa ykkur við á þessum gráa mánudegi læt ég fylgja hér með listann minn yfir þrjár hræðilegustu Ranelid tilvitnanirnar (ásamt ofurlauslegri þýðingu minni):
Í þriðja sæti: Du skall bära ditt barn som den sista droppen vatten. (Þú skalt bera barn þitt eins og síðasta vatnsdropann.)
Í öðru sæti: Min själ väger inte mer än drömmen i en fjäril, men den rymmer så mycket att Gud får ta till sin stora passare om han vill sluta den. (Sál mín vegur ekki meira en draumur fiðrildis en hún rúmar svo mikið að Guð þarf að nota stóra sirkilinn ef hann vill loka henni.)
Og í fyrsta sæti: Att leva är att simma från stranden jag till stranden du i havet vi. (Að lifa er að synda frá ströndinni ég til strandarinnar þú í hafinu við.)
Hahaha! Þetta er stórfenglegt. Frímann Gunnarsson indeed!
SvaraEyðaGoðið fær kennslustund í lítillæti (á sænsku) http://vimeo.com/18708912
SvaraEyðaHelga Ferdinands
Frímann koðnar alveg niður hjá Ranelid. Sá síðarnefndi margtoppar hann í kjánaskap.
SvaraEyða