19. október 2011

Káputextar og kjölfræðingar

Nokkrar glænýjar bækur
Í desember 1998 skrifaði Þröstur Helgason grein í Lesbókina þar sem hann sagði káputexta sennilega mest lesnu bókmenntir í heimi. Í greininni segir hann káputextana sérstakt bókmenntalegt form sem hafi sín stíllegu og efnislegu einkenni og geti jafnvel haft sammannlegt og listrænt gildi eins og góður skáldskapur. Svo tekur Þröstur dæmi af lýrískum káputexta sem birtist aftan á þá nýútkominni bók og hljóðar svo:
Sumar þúfur er auðvelt að hoppa yfir ­ aðrar ummyndast í ókleif fjöll, ekki síst á ljúfsárum brotaárum þegar mikið er í húfi og leitin að fótfestu í lífinu stendur sem hæst. [...] með örlitlu braki í gólffjöl, sætum ilmi eftirvæntingarinnar, sektarkennd svikarans, uppgjöf fyrir ofurefli og sælukennd sigursins má skynja bæði neistaflug gleðinnar og hyldýpi örvæntingarinnar.
Ég hef ekki hugmynd um af hvaða bók þetta er en hins vegar hef ég dálítinn áhuga á káputextum og kápumyndum. Orðið kjölfræðingur var töluvert notað einu sinni um ákveðna menn, sem þóttust hafa lesið bækur sem þeir höfðu í raun bara lesið káputextana á, ég veit ekki hvort það hugtak er dottið uppfyrir.



Af bakhlið bókarinnar Að kvöldi, eftir Þorbjörn Björnsson
frá Geitaskarði
Stundum geta káputextar verið óttalegar klisjur: „Perla í hillu heimsbókmenntanna“ er  dæmigerð svoleiðis setning sem ég man að er á ágætisbók sem ég á uppi í hillu.

Tilgangur bókakápa hlýtur að vera að selja bókina og þess vegna þurfa bókakápur að vera lokkandi. Kápurnar eiga líka væntanlega að gefa raunsanna mynd af innihaldinu, en það er nú svona upp og ofan með það. Hér hjá mér er ég t.d. með ævisögu og á kápunni stendur „Tilfinningalegur rússíbani“, en mér finnst þetta nú svona heldur sterkt til orða tekið, ég upplifði allavega ekki beinlínis þá rússíbanaferð við lesturinn.

Á kápum ljóðabóka er oft birt eitt ljóð eða bútur úr ljóði sem er í bókinni, eitthvað sem álitið er dæmigert fyrir innihaldið, og það á oft ágætlega við. Á glæpasögum er þráðurinn oft rakinn, stundum er sagt of mikið og það fer vitaskuld í taugarnar á mörgum, og stundum er hreinlega eins og sá sem samdi káputextann hafi ekki lesið bókina – og því er auðvitað oft þannig farið (það er kannski svona álíka og þegar ég vann á auglýsingastofu og samdi auglýsingar fyrir bíla sem ég hafði ekki hugmynd um hvernig litu út, hvað þá að ég hefði prófað að aka þeim). Oft eru æviatriði höfundar rakin lauslega og gjarna er sagt að höfundur hafi „vakið verðskuldaða athygli fyrir fyrri verk sín“ eins og á einmitt við um nýja bók sem ég er með á borðinu hjá mér. „... er meðal fremstu rithöfunda af sinni kynslóð“ má lesa á annarri nýútkominni bók sem er í staflanum og stundum eru skrifaðar (oft stuðlaðar) setningar sem vísa í raunveruleika nútímans og væntanlegra lesenda: „... grípandi saga beint úr blæðandi íslenskum samtíma“ stendur t.d. á einni í nýjubókabunkanum (ofannefnd dæmi eru af bókum sem fjallað verður um á þessari síðu á næstu vikum og mánuðum).

Í gær skrifaði bókmenntagagnrýnandinn Lotta Olsson grein í Dagens Nyheter þar sem hún fjallar um bókakápur og segir sænska káputexta fjölbreytta. Henni finnst stundum of mikið sagt á bókakápum og pirrar sig á því þegar menn gera ekki greinarmun á annars vegar fjöldamorðingjum og hins vegar raðmorðingjum. Myndskreytingar á kápum eru svo annar handleggur, glæpasögur eru alveg sér á parti með sín draugalegu eyðibýli, dimma skóga, auða vegi og landslag í rökkri.

Það er misjafnt hvort höfundar láta sig káputexta og kápumyndir verka sinna varða, en J.D.Salinger hafði ákveðnar skoðanir í þeim efnum og vildi víst ekkert skraut á sínar bækur og enga káputexta nema bókarheiti og höfundarnafn.

4 ummæli:

  1. þetta er sígilt og mjög skemmtilegt efni - ég er mjög spennt fyrir káputextum - sérstaklega afburða lélegum sem jafnvel innihalda staðreynda- og/eða stafsetningavillur!
    Var ekki Erna einmitt að tala um káputextann á einhverjum reyfara þar sem rangt var farið með nöfn aðalsöguhetjanna?

    SvaraEyða
  2. Aðstandendur Heilaspunaspilsins hafa einmitt nýtt sér dásemdir káputextanna svo um munar. Uppáhaldsreiturinn minn í spilinu!

    Í einhverri af Andra-bókunum hans PG segir um káputexta eitthvað á þá leið að höfundurinn "hafi skipað sér á bekk með fremstu rithöfundum þjóðarinnar, en sá bekkur hlýtur annað hvort að vera sá lengsti á landinu eða höfundarnir sitja hver undir öðrum".

    SvaraEyða
  3. Skemmtilegt. Mér finnst smart að sleppa bara káputexta. Minnir að Bragi Ólafsson hafi gert það stundum.

    SvaraEyða
  4. Ég les káputexta bara eftir á - káputextar eru búnir að eyðileggja aðeins of margar bækur fyrir mér á seinni árum! Annars tek ég undir þetta, þeir eru stórkostleg bókmenntagrein. Sérstaklega þegar eitthvað kemur fram á kápu sem gerist svo aldrei í bókinni og maður bíður allan tímann.

    SvaraEyða