Svokallaðar jólabækur eru farnar að streyma í búðir fyrir allnokkru. Ég er farin að sulla aðeins í flóðinu en áður en ég sting mér á kaf finnst mér ástæða til að minna á að bækur geta lifað lengur en milli jólavertíða og því verður hér fjallað um tvær ótengdar bækur frá fyrra ári: Geislaþræði eftir Sigríði Pétursdóttur og Hringnum lokað eftir Michael Ridpath. (Kannski spilar líka inn í að ég vil gjarnan hreinsa til á skrifborðinu (í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu) og skila einhverju af mér um bækur sem ég sagðist ætla að skrifa um fyrir löngu en það er aukaatriði; hinn tilgangurinn er augljóslega göfugri og er því tilgreindur utan sviga.)
Geislaþræðir
Það er merkilegt hversu lítið ber almennt á tölvupósti og netinu í bókmenntum, þrátt fyrir að þetta sé fyrirferðarmikið í lífi flestra nú til dags og drjúgur hluti margra af samskiptum við annað fólk sé orðinn rafrænn. Tölvupóstur o.þ.h. hefur reyndar verið notað þónokkuð í ýmsum unglingabókum síðustu árin en miklu minna í fullorðinsbókum. Það er svosem hefð fyrir því að ýmis grundvallaratriði í daglegu lífi séu lítt áberandi í bókmenntum – klósettferðir eru kannski augljósasta dæmið – en samskiptatæki eins og tölvupóstur bjóða upp á fleiri möguleika við skáldskaparskrif en mörg önnur hversdagsleg fyrirbæri og athafnir.
Bréfaformið er aldagömul frásagnaraðferð í skáldskap og mér finnst það ógurlega skemmtilegt þegar vel tekst til. Tölvupósturinn er góður grundvöllur til að endurlífga þessa frásagnaraðferð og hann nýtir Sigríður Pétursdóttir sér í Geislaþráðum, bók með smásögum sem allar eru í tölvubréfaformi. Í nær öllum tilfellum þekktist fólkið lítið eða ekkert áður en það fór að skrifast á og sögurnar sýna m.a. hversu vel fólk getur kynnst á netinu og hversu innihaldsrík samskiptin geta orðið. Sjálf hef ég kynnst ýmsu fólki á netinu, þar á meðal Sigríði (þar með er sá fyrirvari kominn fram) og gleðst reglulega yfir því að geta reglulega, jafnvel daglega, átt þar orðastað við fjölmargt skemmtilegt fólk sem ég hefði annars sjaldan hitt og jafnvel aldrei kynnst.
Í fyrsta skeytinu í fyrstu sögunni í Geislaþráðum verður strax skýrt hvað nánd getur verið afstæð, landfræðileg staða þarf ekki að skipta neinu í því samhengi og þar birtast persónur sem hafa smollið saman strax í byrjun, þrátt fyrir aldursmun og ólíka hnattstöðu. Í annarri sögunni er nokkuð stirt milli fólksins framan af en á því verður smám saman breyting og það ferli er skemmtilega unnið. Þróun mála er semsagt með ýmsu móti og ástæðurnar fyrir því að fólkið byrjar að skrifast á líka. Í öllum tilfellum ganga samskiptin þó í meginatriðum vel. Meiri fjölbreytileiki í þeim efnum hefði kannski ekki komið að sök. Hver kannast t.d. ekki við misskilning eða togstreitu sem getur komið upp í tölvupósti vegna þess að sá tónn sem ætlunin var að nota skilar sér ekki alltaf í rituðu máli? Það ber lítið á slíku í þessum sögum þótt í síðustu sögunni, „Koma svo!“ sé reyndar ágætlega unnið dæmi um að annar aðilinn hafi augun ekki opin fyrir því sem hinn reynir að segja. „Blúndur og búsáhöld“ er líka stórskemmtileg saga um manneskjur sem eru ekki á sömu bylgjulengd: hressa föndurkonan Kidda og hin stífa Gunnhildur skrifast á til að ræða undirbúning fyrir brúðkaup barna þeirra og ég skemmti mér mikið yfir því hvernig Kidda tekur ekki til sín á nokkrun hátt ítrekaðar en óbeinar tilraunir Gunnhildar til að draga smekk hennar í efa.
Þrátt fyrir ólíka lífssýn Kiddu og Gunnhildar ná þær ágætlega saman að ýmsu leyti og almennt skilur fólk hvert annað afar vel í sögum Sigríðar – þ.e. fólkið sem skrifast á. Samskiptin sem sögurnar fjalla um eru þó ekki bundin við bréfritarana. Bréfin birta oft lifandi mynd af sambandi þeirra við sína nánustu og oft kemur fram að þar er ekki allt snurðulaust. Í sögunum er því dregið fram hversu fjölbreytileg tengsl fólks geta verið og að góð og gefandi samskipti byggjast ekki endilega á áþreifanlegri nánd í raunheimum.
Bréfaformið getur verið góður grunnur að því að gefa hverri persónu afgerandi rödd. Þennan möguleika nýtir Sigríður sér rækilega og persónusköpunin er vandlega unnin. Persónurnar eru skemmtilega fjölbreyttar og úthugsaðar sem birtist m.a. í alls konar skemmtilegum smáatriðum. Oft var spennandi að sjá hvaða stefnu sögurnar myndu taka, það var líka gaman að ýmsum punktum um íslenskt samfélag sem birtust í framhjáhlaupi og ánægjulegt að fá í hendurnar heila bók sem byggist á tölvupósti en persónugalleríið er það allra besta við bókina.
Hringnum lokað
Magnús, lögreglumaður í Boston, þarf að fela sig fyrir forhertum glæpamönnum í upphafi bókarinnar Hringnum lokað eftir Michael Ridpath og sá kostur er tekinn að senda hann til Íslands. Þar hafði Magnús fæðst og alist upp fyrstu árin en hann hafði flutt til Bandaríkjanna tólf ára gamall. Á Íslandi á Magnús að veita lögreglunni ráðgjöf og það reynist strax þörf fyrir krafta hans.
Hringnum lokað er að ýmsu leyti sniðug saga. Möguleikarnir sem felast í því að Magnús er hvorki fyllilega innangarðs né utangarðs á Íslandi eru ágætlega nýttir til að ræða samfélagið og ýmsar persónurnar eru forvitnilegar. Sá hluti bókarinnar sem snýst um íslenskar miðaldabókmenntir og Hringadróttinssögu er oft snjall og ágætlega unninn; það er fín hugmynd að nýta Gauks sögu Trandilssonar, sem vitað er að var til en hefur ekki varðveist, láta handrit að henni vera á kreiki og spinna upp tengsl Hringadróttinssögu við það. Þegar farið er að blanda áþreifanlegum hring í málið verður dæmið fullyfirdrifið fyrir minn smekk en það versta er þó að þrátt fyrir ýmiss konar hasar fannst mér sagan aldrei sérlega spennandi.
Ég hef ekki lesið Sigríði - og sé einmitt ekki af hverju tölvupóstur ætti ekki að geta nýst eins og bréfaformið til að skrifa bók, hefði ekki Les Liasions Dangereuses verið skemmtileg tölvupóstabók? það hefði kannski allt komist upp þegar pósturinn var sendur á vitlaust netfang í Alþingislegu klúðri.
SvaraEyðaAftur á móti er ég enn með óbragð í munninum eftir arfaslæman reyfara sem var í þessu formi og þýddur, af einhverjum hvötum, yfir á íslensku. Nú man ég ekki lengur hvað hann heitir en hann var suðuramerískur - frá Costa Rica? - og kom út fyrir nokkrum árum.
-Kristín Svava
Úff já, þú hlýtur að eiga við Hjarta Voltaires eftir Luis López Nieves (sem er frá Puerto Rico) - mér fannst það einmitt óbærilega leiðinleg bók.
SvaraEyðaEn tölvupósturinn býður upp á alls konar möguleika og ég fæ fiðring við tilhugsunina um vitlaust netfang í þessu samhengi. Breti sem heitir Matt Beaumont hefur skrifað býsna skemmtilegar bækur í tölvupóstformi (og í nýjustu bókinni notar hann ýmislegt net-dót í bland), þær gerast á auglýsingastofu og þar er einmitt eitthvað um þetta ef ég man rétt.
Hjarta Voltaires, that´s it! Mikið svakalega var hún leiðinleg.
SvaraEyða-kst
Mæli með að þetta verður fastur þáttur þegar fer að hausta - þ.e. minna á góðar bækur frá síðasta ári, sem náðu ekki að vekja eins mikla athygli og þær söluhæstu og mest umtöluðu. Þetta minnti mig á Geislaþræði. Búin að lesa tvær sögur og líkar vel.
SvaraEyðasigr.stef.
Ég opnaði þessa bók, Hringnum lokað, fyrir algera tilviljun í bókabúð í síðustu viku. Ég lokaði henni hins vegar strax á annarri blaðsíðu þegar ég rakst þar á „nakinn og fullkominn líkama Andreu, ballettdansara og þriðja árs nema í bókmenntafræði“.
SvaraEyðaRagnhildur.
Ballettdansar eiga það alveg til að læra bókmenntafræði.
SvaraEyðaHjarta Voltaires var vond, mjög vond. Ég les yfirleitt "jólabækurnar" löngu eftir að þær koma út, þ.e.a.s. ég les þær sem ég fæ í jólagjöf (sem eru yfirleitt þær sem ég er spenntust fyrir) en finnst alveg eins gaman að lesa aðrar aðeins seinna. Það er svo mikil bókaumfjöllun á haustin og aðventunni að hún hefur stundum þveröfug áhrif á mig og ég fer að lesa eitthvað allt annað á meðan mesta flóðið gengur yfir. Kannski er það bara formið á umfjölluninni, þessi fjárans stjörnugjöf og það allt saman.
SvaraEyðaKomment Ragnhildar fékk mig annars til að skella upp úr ... held ég þurfi ekki að lesa þessa bók!
SvaraEyðaÉg "þjáist" af sama syndrómi og Salka, þ.e. þessi áhersla á "jólabækurnar" gerir það að verkum að ég vil helst lesa og skrifa um eitthvað allt annað.
SvaraEyða