18. nóvember 2011

Sjálfhverfa, bloggskrif og finnlandssænsku bloggverðlaunin

Af augljósum ástæðum er ómögulegt að ætla að myndagúgla
„blogg“.
Einu sinni bloggaði íslenskur almenningur töluvert meira en í dag, þarna kringum 2004 var líkt og önnur hver manneskja ætti bloggsíðu. Svo runnu upp tímar Myspace og síðar Facebook og pöpullinn átti sífellt greiðari leið að fleiri miðlum til að veita vel völdum hliðum eigin sjálfs í enn beinni útsendingu. Margir skrifa auðvitað ennþá blogg, en stemningin er töluvert breytt - bloggsíða hefur ekki þetta sama ídentítetsgildi og áður fyrr, flest virkustu og mest lesnu einstaklingsbloggin eru af pólitískum toga, gjarnan skrifuð af þekktum einstaklingum úr menningar- eða fjölmiðlalífinu og svo eru sum náttúrlega stofnuð um einhver tiltekin verkefni, eins og Tískubloggið hennar Hildar, skransala Dísu og Betu eða þá Druslubókabloggið. Ef mann langar að segja umheiminum frá draumum næturinnar eða því hvað barnið manns sagði geðveikt sniðugt má alltaf statusera það eða tvíta. (Svo held ég ekki að uppgangur moggabloggsins á sínum tíma hafi gert mikið fyrir íslensku bloggsenuna, en það er önnur saga.)


Mér finnst blogg mjög skemmtilegur miðill og það rúmar miklu meira en status eða tvít (en bloggfærsla getur vel að merkja sinnt sömu fúnksjón og status eða tvít, þótt viðtökumöguleikar séu kannski annars eðlis). Blogg getur verið bókmenntaform í sjálfu sér og svo voru auðvitað gefnar út nokkrar íslenskar bloggbækur meðan bólan reis sem hæst. Ég hef dálítið skoðað finnsku bloggsenuna og svo virðist sem öll vinsælustu bloggin þar hafi mjög afmörkuð þemu; uppskriftablogg, tískublogg (hoho), af átaks/megrunarsortinni eða þá pólitísk/fréttatengd. Fer alls ekki mikið fyrir sjálfhverfum einstaklingabloggum.

Af finnlandssænsku bloggsenunni hafði ég lítið að segja fyrr en ég nú, að ég rakst á frétt í Hufvudstadsbladet um finnlandssænsku bloggverðlaunin sem verða veitt í desember, nú annað árið í röð. Dómnefnd mun velja fallegasta bloggið, skemmtilegasta bloggið, besta nýja bloggið, frumlegasta bloggið, best skrifaða bloggið og mest inspírerandi bloggið. Lesendur velja síðan vinsælasta bloggið. Rúmar þrjú þúsund síður voru tilnefndar. Þrjú þúsund! Þetta fannst mér merkilegt, ekki síst fyrir það að Finnlandssvíar eru meira að segja færri en Íslendingar! Og hafa örugglega heyrt um facebook... En svo mundi ég að finnlandssænska er engu að síður sænska og að ríkissænskunni meðtaldri er um margfalt stærra málsvæði að ræða - þótt finnlandssænsk blogg séu flokkuð sér þegar um er að ræða verðlaun í finnlandssænsku blaði, þá hljóta textarnir að kallast á við sænsk-sænsk bloggskrif og eru þannig hluti af miklu stærra samhengi og hefð en íslensk blogg nokkurntíma. En SAMT. Ég efast um að ég gæti fundið heil 50 íslensk blogg til að tilnefna sem eitthvað brjálæðislega falleg, frumleg eða skemmtileg. Þótt það geti auðvitað vel verið að helmingurinn af tilnefningunum 3000 sé drasl sem fékk eitt atkvæði hvert.

Fréttin í HBL er drasl að því leyti að nefna öll bloggin sem tilnefnd eru (þrjú í hverjum flokki, nema fimm fyrir lesendaverðlaunin) en linka ekki á neitt þeirra. Ég er að minnsta kosti of löt í svipinn til að gúgla heitið á hverju bloggi fyrir sig (sem getur þess utan verið eitthvað álíka almennt og „En gul apelsin“). Ég tékkaði samt á nokkrum úr mismunandi flokkum. Einn kandídat í fallegasta bloggið er Lundagård, blogg vísitölufjölskyldu sem hefur gert upp timburhús frá 19. öld og skrifar um hversdaginn þar, „skapandi ferli og kreatívar úrlausnir“ (hvernig þýðir maður annars skapande og kreativa innan sömu setningar...). Svo pósta þau helling af sólgylltum fótósjoppmyndum af sér og börnunum og vinnunni við húsið. Og eru með netverslun með allskonar uppgerðu skrani. Fallegt, en á frekar óspennandi hátt að mér fannst. Af skemmtilegustu tilnefndu bloggunum leitaði ég uppi Oraklet. Það er reyndar nokkuð skemmtilegt. Í nýlegri færslu lýsir höfundur eigin vonbrigðum þegar hann fékk upphringingu frá Hufvudstadsbladet á dögunum og hélt það ætti að taka viðtal við sig sem (mögulega) skemmtilegasta bloggara Sænskafinnlands, en þá var bara verið að bjóða honum áskrift... Úr hópi nýliða fann ég bloggið Kate & det underhållande eländet. Þar var hinsvegar enga færslu að sjá, en til hliðar standa eftirfarandi skilaboð (hraðsoðin þýðing mín): „Ný örlög og ævintýri bíða. Mér hefur líkað við ykkur öll. Takk fyrir athugasemdirnar, takk fyrir lesturinn, takk fyrir tilnefninguna. Þessum kafla lífs míns er lokið og þegar við sjáumst næst verð ég einhver önnur.“ Fréttin um tilnefningarnar birtist á mánudaginn og virðist sem Kate hafi brugðist snarlega við athyglinni með því að pakka saman og hverfa.

Það gæti verið áhugavert að skoða færslur á mismunandi bloggum frá því fyrir og eftir tilnefningu og sjá hvort greina megi breytingar á efnistökum eða stíl. Mér fyndist líka rosa skemmtilegt ef einhver íslenskur fjölmiðill myndi standa fyrir svona verðlaunaveitingu núna. Svoleiðis gæti kannski orðið til að blása lífi í íslensku bloggsenuna, ný blogg yrðu til og aukinn metnaður lagður í þau gömlu. En svo nennti ég ekki einusinni sjálf að velja fleiri finnlandssænsk (möguleg) verðlaunablogg til að gúgla í bili. Ekki einusinni þau best skrifuðu! Svona er lífið á föstudegi um kvöldmatarleytið.

5 ummæli:

  1. Voðalega fallegt þetta vísitölufjölskyldublogg, en mikið er ég orðin þreytt á þessu rustik-krúttí-pastelþema. Hins vegar girnist ég ýmislegt smálegt úr myndunum, og prjónakjóllinn er æði. Svo lærði ég líka að segja blogghittingur á sænsku. Vei! (Reyndar er blogghittingur hálfert skrípi sem er bannað að nota, en sem gerir það einmitt svo skemmtilegt að nota).

    SvaraEyða
  2. Þetta er svo falleg kisumynd að mér finnst hún ætti að fylgja hverri einustu færslu!

    Moggabloggið og sú hugrenningatengsl sem sköpuðust í kringum "blogg" út af æsingnum þar held ég án gríns að hafi gengið langt með að rústa íslenskri bloggmenningu. Ég las oft blogg í kringum 2001-2005, sirkabát, og sum voru mjög skemmtileg þótt margt væri ekki þess eðlis að maður nennti að heimsækja síðuna aftur. Nú virðast þemabloggin helst hafa lifað af, þ.e.a.s. þar sem fólk segir frá einhverju verkefni sem það er að vinna, áhugamáli eða sérsviði.

    Annars segi ég það sama, ég skoða sjaldan blogg núorðið nema mér sé bent á það sérstaklega. Þá er það yfirleitt bókmennta- eða pólitíkurtengt. Svo skoða ég blogg á erlendum fjölmiðlum, t.d. Guardian, sem eru samt eiginlega bara pistlar settir fram í bloggformi með kommentakerfi og svoleiðis, eins og t.d. George Monbiot og Laurie Penny.

    SvaraEyða
  3. Annars var ég aldrei sjálf með blogg - ég er svo öfugsnúin að ég fæ aldrei af mér að gera það sem "allir" eru að gera, sem er stundum bjánalegt.

    SvaraEyða
  4. Ég þekkti lengi mjög fáa með blogg (og fullt af fólki sem ég þekki er ekki á facebook), en í gegnum blogg kynntist ég mörgu af besta fólkinu sem ég þekki núna.

    SvaraEyða