19. nóvember 2011

Kellíngabækur í Gerðubergi - MYNDIR

Ragnheiður Gestsdóttir les úr Gegnum glerveginn
Í dag lásu margir og ólíkir kvenhöfundar upp úr verkum sínum í Gerðubergi undir yfirskriftinni „Kellíngabækur“. Upplestrarnir fóru fram á þremur stöðum samtímis (sal A, sal B og á bókasafninu) þannig að maður var frá upphafi dæmdur til að missa af mörgu áhugaverðu. Ég náði þó nokkrum upplestrum og birti myndir af þeim hér fyrir neðan. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki viss um að ég kæmist nokkurn tímann í Gerðuberg. Ég rata ekkert í Breiðholtinu, var ógeðslega þreytt (eftir druslubókakokkteil gærkvöldsins) og sólin skein mjög agressíft í augun á mér þannig að ég beygði á einhverjum tímapunkti inn ranga götu og keyrði eftir það stefnulaust um Breiðholtið. Það sem bjargaði mér var það að víðsvegar í Breiðholtinu eru skilti sem vísa manni leiðina að Gerðubergi - það var aðeins þeim að þakka að komst á slaginu eitt í þangað, þar sem ég hitti druslubókadömuna Sölku Guðmundsdóttur sem leiddi mig inn í sal A. Þar náðum við upplestri nokkurra barna- og unglingabókahöfunda. (Afsakið, margar myndanna eru pínu blörraðar.)


Játningar mjólkurfernuskálds - Arndís Þórarinsdóttir les úr bók sinni
Fólk hlustar - kósý
Jónína Leósdóttir les úr Upp á líf og dauða
Margrét Örnólfsdóttir les úr bók sinni Með heiminn í vasanum

Þá drifum við okkur í sal B, enda stutt í upplestur Kristínar Svövu. Þarna varð áberandi hversu ólíkir höfundar voru settir saman. Það var að mörgu leyti áhugavert, annars hefði ég líklega aldrei heyrt Ásdísi Jóelsdóttur kynna bók sína um fatasaum, sem virtist afskaplega vel gerð.

Ásdís Jóelsdóttir kynnir bókina Fatasaumur - Saumtækni í máli og myndum
Sigríður Víðis Jónsdóttir les úr Ríkisfang: Ekkert
Kristín Svava les úr Skrælingjasýningunni

Það var kósý í bókasafninu, hér fyrir neðan er Halla Þórlaug Óskarsdóttir að lesa úr bókinni Agnar Smári - Tilþrif í tónlistarskólanum



Ég þurfti að hlaupa eftir lesturinn hennar Kristínar Svövu, aðallega vegna þess að hún á afmæli á morgun og ég átti eftir að kaupa gjöf (hint: lífsstílsbók Tískubloggsins og nóg af bleikum bríser). Á leiðinni út kíkti ég á bækur sem voru til sölu og á málverk sem voru til sýnis á safninu.

Háskólaútgáfan: Styrmir Goðason og Olga Guðrún Árnadóttir selja bækur
Myndir Vigdísar Grímsdóttur

Engin ummæli:

Skrifa ummæli