14. nóvember 2011

Bookerbókin í ár


The Sense of an Ending heitir bókin sem hlaut Man Booker verðlaunin í ár og er hún eftir breska rithöfundinn Julian Barnes. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru Man Booker verðlaunin veitt árlega fyrir skáldsögu sem gefin er út í bresku samveldislöndunum svokölluðu, eða þá Írlandi eða Zimbabwe. Breska menningarpressan er iðulega voða upptekin af þessari verðlaunaafhendingu enda eru verðlaunin með þeim virtustu á heimsvísu, menn velta tilnefningum endalaust fyrir sér og stundum koma upp leiðindi og skandalar og það gerðist einmitt í ár. Dómnefndin var nefnilega gagnrýnd mjög fyrir val sitt í þetta sinn, það þótti frekar popúlískt og ómerkilegt og margir voru á því að af þeim bókum sem tilnefndar voru kæmi engin til greina nema The Sense of an Ending, það kom því ekki beinlínis á óvart að hún skyldi hljóta verðlaunin í ár. Julian Barnes var nú tilnefndur í fjórða sinn til verðlaunanna en hefur aldrei hlotið þau áður.



Sögumaður verksins, Tony Webster, er á sjötugsaldri og hefur að því er virðist lifað býsna tíðindalitlu lífi, hann er svokallaður venjulegur maður, "everyman". Ákveðinn atburður, sem ekki verður útlistaður nánar hér, verður til þess að Tony þarf að líta til baka og skoða atburði frá æskuárum sínum og þá kemur í ljós hversu erfitt það getur reynst að raða saman fortíðinni í huganum. Það kemur í ljós að Tony hefur engan veginn áttað sig á þeim áhrifum sem gjörðir hans í fortíðinni hafa haft og þarf hann því að endurmeta ýmislegt. Þetta hljómar frekar dularfullt allt saman, hér er ég að reyna að kjafta ekki frá neinu bitastæðu, eins og lesendur átta sig eflaust á. Í stuttu máli fjallar sagan um hefnd en söguhetjan Tony áttar sig hinsvegar ekki á því fyrr en líða tekur á söguna.

Það verður seint sagt að Bookerbókin í ár sé frumleg. Þegar ég las kaflana þar sem söguhetjan Tony rifjar upp skólaárin á sjötta áratugnum, og þá sérstaklega samskiptin við stelpur sem einkenndust af feimni og allskonar fyrirsjáanlegum vandræðagangi fannst mér ég hafa lesið þá margoft áður, einmitt í þessum kurteislega, fágaða og örlítið hnyttna breska stíl. En það sem vekur fyrst og fremst áhuga í þessari bók eru pælingarnar sem þar birtast um minni, minningar og tíma. Vissulega algeng bókmenntaminni og svo sem ekki verið að segja nein stórtíðindi í þeim efnum hér en það er hinsvegar athyglisvert hvernig Tony skoðar minningar sínar. Hann er aldrei viss um að hann muni rétt og af hugleiðingum hans að dæma má draga þá álytkun að í raun sé vonlaust að endurupplifa liðna tíð, það er í raun ekki hægt að gera greinarmun á því hvaða minningar eru raunverulegar og hverjar eru einfaldlega tilbúningur. Þetta kannast margir eflaust við úr eigin lífi, ég er til dæmis nokkuð viss um að mín fyrsta minning sé ekki raunveruleg, ég hugsa að hún byggist á frásögnum mömmu minnar (ekki verður sagt nánar frá þeirri minningu hér, nægir að nefna að árið er líklegast 1973, sögusviðið er Húsavík og í aðalhlutverki er Libby's tómatsósuflaska úr GLERI, ég legg ekki meira á ykkur. Afar trámatísk minning, eins og fyrstu minningar eru líklegast oft, hvort sem þær eru uppdiktaðar eða ekki).

En hér er hinsvegar ekki aðeins verið að fjalla um það hvort minningar geti í eðli sínu nokkurn tímann talist raunverulegar, hér er einnig sýnt fram á hvernig Tony hagræðir fortíðinni í minningunni, vægi atburða breytist eftir því sem árin líða til að söguhetjan geti lifað með þeim. Þetta er ekki beinlínis með ráðum gert, minnið er brigðult og sjónarhornin breytast með aldrinum.

Þessar hugmyndir sæta ekki tíðindum í sjálfu sér en í samhengi skáldsögunnar verða þær óhugnanlegar og býsna spennandi. Þó að frásögnin sé nánast óbærilega klisjukennd á köflum þá bjargast þetta með ansi hreint lunkinni uppbyggingu þar sem pælingarnar um minningar og tíma fá að njóta sín.

2 ummæli:

  1. þér tekst vel að gagnrýna bókina en láta hana samt hljóma spennandi...mig langar að lesa um þessar óhugnanlega óáreiðanlegu minningar (og reyndar líka um Libby's tómatsósuflöskuna)

    SvaraEyða
  2. Mér finnst sumar bækur Julians Barnes góðar (en sumar hef ég ekki enst í). Mig langar að lesa þessa.

    SvaraEyða