14. nóvember 2011

Vit í höfðinu, bein í nefinu og hjarta í brjóstinu: Sólarmegin, líf og störf Herdísar Egilsdóttur

Ég er alveg sannfærð um það að ekki hefði verið hægt að skrifa leiðinlega bók um æfi og störf Herdísar Egilsdóttur. Enda er það raunin með „Sólarmegin líf og störf Herdísar Egilsdóttur“ sem skráð er af Guðrúnu Pétursdóttur og Ólafi Hannibalssyni og Iðunn/Forlagið gaf út nú fyrir skemmstu. Eftirfarandi texti er settur á baksíðu bókarinnar: „Það er bjart yfir þessari bók. Af hverri síðu skín lífsgleði og jákvæðni, uppátækjasemi samfara útsjónarsemi og nægjusemi, því þótt lífið hafi ekki alltaf verið Herdísi auðvelt hefur hún ævinlega haldið sig sólarmegin.“ Svo ég taki nú það sem ég vil gagnrýna (með neikvæðum formerkjum, sem nota bene er erfitt með jafn jákvæðan efnivið) þá finnst mér þessi klausa ansi yfirborðskennd, og það er kannski svolítið það sem hrjáir bókina. Hvergi er kafað djúpt og svolítið vaðið úr einu í annað. Kveikjan að bókinni er sögð vera sú að Herdís og þau Guðrún og Ólafur hafi kynnst þegar dóttir þeirra síðarnefndu hóf skólagöngu í Ísaksskóla og að bókin sé í raun samantekt þeirra Guðrúnar og Ólafs á samtölum sem þau hafi átt við Herdísi. Við lesturinn fær maður á tilfinninguna að bókin byggi mikið til á skrifum þar sem Herdís rifjar upp ákveðna atburði og þemu úr lífi sínu, og tilfinningin er að þetta sé nokkuð milliliðalaust og óritskoðað. Það er helst að í byrjun bókar, þar sem fjallað er um æsku hennar á Húsavík að maður fái á tilfinninguna að einhver annar en hún sjálf haldi hugsanlega um penna. Skrásetjarar þvælast hvergi fyrir, mér finnst maður í raun aldrei verða var við þá, sem er bæði gott og slæmt, ef svo má segja. Fyrir vikið verður bókin aðeins stefnulaus, maður veit ekki alveg hvort maður er að fá söguna milliliðalausa eða ekki – og gerir sér þar af leiðandi ekki alveg ljóst hver ritstýringin er eða hvað er komið hvaðan.


Kannski má segja um þessar pælingar mínar, það sem maður heyrir stundum sagt um gagnrýni, að ég hafi bara viljað lesa einhverja aðra bók og sé að gagnrýna þessa útfrá þeim forsendum. Sem má alveg til sanns vegar færa. Einsog hún stendur þá finnst mér bókin alltof sundurlaus og finnst í henni efni í amk tvær aðskildar bækur, þ.e.a.s efnið um Herdísi sjálfa, ættir hennar og æfi finnst mér meira en nægilegt í langa og ítarlega æfisögu. Pælingarnar um kennslu, kennslufræði, uppeldi og skólastarf – sem að mörgu leyti eru þéttasti og besti partur þessarar bókar – eru efni í aðra bók. Þessar bækur báðar verða vonandi skrifaðar fyrr en síðar, af Herdísi sjálfri eða einhverjum öðrum með hennar liðsinni. Segja má að bók þeirra Guðrúnar og Ólafs sé góður undirbúningur undir þær.

Sjálf hef ég kannski meiri áhuga á þessari sögu en mörgum öðrum svipuðum og fyrir því eru persónulegar og sjálfhverfar ástæður. Því til útskýringar vísa ég fyrst í gamla færslu hérna á Druslubókasíðunni sem í sönnum sjálfhverfnianda nefnist Theódór og ég. Þar er ég byrjuð að setja æfisögu Theódórs Friðrikssonar, „Í verum“ í samhengi við sjálfa mig og mína fjölskyldu. Ég nefni þetta hér því ein ástæðan fyrir því að ég hafði strax mikinn áhuga á að lesa „Sólarmegin“ er einmitt sú að Theódór er sameiginlegur frændi okkar Herdísar, og frændfólk hans þau Sigurpáll og Dóróthea sem ég minnist á í færslunni voru sameiginlegir forfeður okkar. Nú er ég ekkert endilega að gera því skóna að allir lesendur þessarar sögu hafi jafn mikinn áhuga á ætterni og æsku Herdísar og ég, en tel það þó fullvíst að margir hefðu áhuga á nánari útlistunum á því úr hvaða jarðvegi þessi ótrúlega fjölhæfa, listræna og duglega kona er sprottin. Hvað var það sem mótaði hana öðru fremur og hvernig atvikaðist það að hún gekk menntaveginn, á tímum þegar slíkt var alls ekki algengt, hvað þá fyrir alþýðustúlku úr þorpi einsog Húsavík.

Það sem liggur ljóst fyrir eftir lestur bókarinnar en hinn brennandi áhugi Herdísar á uppeldi og skólastarfi. Líkt og ég nefndi hér að ofan þá eru bestu kaflar bókarinnar þeir þar sem hún ræðir um börnin, kennsluna, kennslufræðina sem segja má að hún hafi skapað og unnið eftir. Hún á dásamlega spretti þar sem hún ræðir um m.a. skólabyggingar og ríkjandi viðhorf í samfélaginu gagnvart börnum, uppeldi og skólum. Manni hlýnar um hjartarætur að það sé til svona gott og heilsteypt fólk sem hefur þaulnýtt líf sitt til að vinna okkur öllum til góðs – og er um leið glatt og skemmtilegt. Fólk sem sameinar þá grundvallarþætti sem samkvæmt Herdísi sjálfri þurfa að prýða góðan kennara, þ.e. að hafa vit í kollinum, bein í nefinu og hjarta í brjóstinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli