Svo er kápan líka undurfalleg, enda eftir höfundinn. |
Eins og vanalega er þungur undirtónn hjá Tove vinkonu minni; sagan gerist í finnlandssænskum smábæ sem kúrir sig undir snjóbreiðu á dimmum vetri. Aðalpersónurnar eru tvær, unga stúlkan Katri Kling og hin miðaldra Anna Aemelin sem býr í svokölluðu "kanínuhúsi", umkringd húsgögnum og eigum látinna foreldra sinna. Anna er teiknari - teiknar aldrei annað en skógarmyndir með nokkrum rósóttum kanínum. Katri hefur einnig misst foreldra sína og býr með yngri bróðurnum Mats; hann á sér þann draum að eignast sinn eigin bát og róa til fiskjar. Katri er ólíkindatól og einfari. Hún gengur um bæinn með rauða húfu á höfði og stóra hundinn sinn sem hegðar sér ekki eins og aðrir hundar, er ekki látinn leika kúnstir eða hlýða skipunum. Katri hefur einsett sér að flytja inn í hús Önnu og láta draum Mats rætast. Hún ætlar sér hins vegar hvorki að ljúga né stela - með heiðarleika að vopni ætlar hún að ná sjálfmiðuðum markmiðum sínum og koma því svo fyrir að þau systkinin eignist heimili í kanínuhúsinu.
Þær Anna og Katri eru miklar andstæður. Anna hefur ekki tamið sér að tortryggja fólk; hún gefur eftir frekar en að taka slaginn og leyfir fólki jafnvel að ganga sér alltof nærri, svo fremi sem hún fái haldið friðinn. Katri treystir hins vegar engum nema sjálfri sér og vill hafa hlutina svart á hvítu, enda er hún sérlega elsk að tölum og reiknikúnstum; tölurnar ljúga ekki og bjóða ekki upp á margræðni. Þegar Katri tekur það svo upp hjá sjálfri sér að leiða Önnu fyrir sjónir hversu óheiðarlegt og ótraustverðugt samferðafólk þeirra sé brestur eitthvað í Önnu, það hriktir í stoðum vanafastrar tilveru. Á móti kemur að Katri, sem alltaf hefur séð tilveruna í svarthvítu, uppgötvar að hlutirnir eru ekki svo einfaldir og að stundum er sjálfsblekkingin nauðsynleg brynja. Sjálf er hún ekki endilega heiðarleg í ásetningi sínum, þrátt fyrir að hún vilji telja sér trú um það.
Sjáið bara hvað Tove var töff! |
Ég mæli sumsé eindregið með bókinni. Hana er að sjálfsögðu hægt að lesa á sænsku, hún er til á finnsku fyrir þá sem finnsku kunna, og svo er hún víst til í enskri þýðingu. Ég hef ekki séð hana í íslenskri þýðingu en ef einhver veit til þess að hún hafi verið gerð væri gaman að heyra af því.
Mér finnst þetta líka ágæt bók og eins og á við um "fullorðinsbækur" Tove Jansson almennt þá er "múmínálfastemning" í henni. Hún hefur pottþétt aldrei verið þýdd á íslensku.
SvaraEyðaÉg er því miður ekki læs á sænsku en hef lesið það af "ekki-múmín"-bókum hennar sem hefur komið út á ensku. Þessi var ágæt, en uppáhaldið mitt til þessa heitir Rent spel á frummálinu, Fair Play í þýðingunni. Það er virkilega flottur skáldskapur.
SvaraEyðaÉg las Sumarbókina í sumar (á ensku) og fannst hún frábær. Nú sé ég að ég verð að kíkja á þessa líka.
SvaraEyðaÉg þarf greinilega að rölta í Norræna húsið við tækifæri og fá mér Rent spel, takk fyrir ábendinguna. Ég fer ekki nógu oft í Norræna húsið eftir að kaffiterían gamla og góða breyttist í fansí veitingastað (sem er örugglega mjög fínn, en býður ekki upp á notalegt hangs yfir flatköku og kaffibolla með norrænt dagblað í hendi).
SvaraEyðaÉg skal bráðum skrifa um Bildhuggarens dotter og Stenåkern, þ.e.a.s. þegar jólabókavertíðinni lýkur.
SvaraEyðaFrábært, Þórdís!
SvaraEyða