30. nóvember 2011

Rökkurhæðir - Rústirnar

Bókabeitan er nýtt, og að því er virðist afar metnaðarfullt, forlag. Stofnendur þess, Marta Hlín og Birgitta Elín, eru nýútskrifaðar úr kennslufræði með íslensku og íslenskukennslu sem sérgrein. Þær skrifuðu meistaraverkefni um að meira mætti nota barna- og unglingabækur við íslenskukennslu en ráku sig á að það er ekki nægilega mikið framboð af bókum fyrir unglinga. Þær segja sjálfar í kynningarefni: "Þar sem lítið hjálpar að tuða og bölsótast ákváðum við að bæta um betur og stofna bókaútgáfu. Bókabeitan hefur það að yfirlýstu markmiði að efla bóklestur barna og unglinga með útgáfu á gæðaefni fyrir þennan hóp."

Bókabeitan gefur nú fyrir jólin út tvær bækur, þær Marta Hlín og Birgitta Elín skrifa hvor sína bókina, en báðar gerast þær í Rökkurhæðum, sem er ímyndað hverfi í ímyndaðri borg á Íslandi. Þær segja: "Hugmyndin var að skapa heim þar sem jafn ólikir rithöfundar og við tvær gætum skrifað sögur sem tengdust án þess að þurfa að skrifa bækurnar saman. Við ákváðum einnig að sögurnar ættu ekki að vera í beinu framhaldi hver af annarri heldur tengjast í gegnum hverfið."

Mér sýnist því á öllu að hér sé mögulega byrjunin á viðamiklum bókaflokki um Rökkurhæðir komin, enda er orðið Rökkurhæðir á forsíðu miklu meira áberandi en eiginlegur titill bókarinnar sem ég las.


Bókin heitir Rústirnar og er eftir Birgittu Elínu Hassell. Hún fjallar um stúlkuna Önnu Þóru sem er 14 ára og afar önnum kafin. Hún stundar íþróttir, sinnir félagslífinu og hittir vini sína, sem verður til þess að hún hefur lítinn sem engan tíma eftir til að sinna heimanáminu. Eitthvað verður undan að láta, en Anna Þóra vill helst ekki sleppa neinu, nema náttúrulega lærdómnum. Kvöld eitt rekst hún svo á undarlega stelpu og "finnur allt í einu löngun til að segja þessari stelpu frá því sem var að brjótast í henni" varðandi tímaskortinn (s. 11).

Stelpan gerir henni þá tilboð sem hún getur ekki hafnað: Hún skuli taka að sér heimanámið fyrir hana bara ef Anna Þóra gerir við hana svolítinn samning. En hann felur í sér að Anna Þóra þurfi að giska á rétt nafn stelpunnar fyrir vorið og þá hverfi hún á braut, ef það tekst ekki þá hverfi Anna Þóra úr lífi hennar. Anna Þóra tekur auðvitað tilboðinu og allt gengur vel í fyrstu, þangað til að hún kemst að því að stelpan er ekki öll þar sem hún er séð og hefur smátt og smátt sölsað undir sig tilveru Önnu Þóru, sem er orðin utanveltu í eigin lífi. Anna Þóra verður að grípa til sinna ráða og komast að réttu nafni stelpunnar (sem er auðvitað engin stelpa) áður en allt er um seinan.

Þetta er náttúrulega sígilt þema, að semja af sér við ókunnuga manneskju (eða ekkimanneskju) sem gerir söguhetju tilboð sem er of gott til að vera satt, en það gerir þemað ekkert verra fyrir vikið. Það sem truflaði mig var að stelpan var afar óhugnaleg strax við fyrstu kynni þeirra. Það var nákvæmlega ekkert meinleysislegt við hana, og ef ég hefði verið Anna Þóra og mætt svona krípi krakka á myrku kvöldi þá hefði ég ábyggilega pissað í mig eða eitthvað verra. Þessvegna fannst mér hæpið að hún skyldi vera svona fljót að taka tilboði stelpunnar.

En þetta er svosem sparðatíningur í mér, sögur og ævintýri krefjast þess eðli málsins samkvæmt iðulega að söguhetjurnar komi sér útí eitthvert bölvað klandur og vitleysu, annars væri engin saga að segja frá. Og þó mér hafi fundist það pínu galli á söguþræðinum hvað stelpan var óhugnaleg, þá má ég samt til með að hrósa höfundi fyrir það hvernig hún gerir hana óhugnalega, því lýsingin á stelpunni er barasta svolítið mögnuð.

Bókin er reyndar öll ljómandi vel skrifuð. Hún er stutt, með stóru letri og auðlesin (sem hentar vonandi öllum þessum unglingum sem eiga víst erfitt með lestur og maður heyrir hálfgerðar horror-sögur af í fréttum), en þrátt fyrir að síðurnar séu fáar og textinn hnitmiðaður (og á köflum jafnvel knappur), þá sá ég söguna ljóslifandi fyrir mér og höfundi tekst að gæða persónurnar lífi. Ég þóttist koma auga á allskonar vísanir hingað og þangað: í íslenskar þjóðsögur, sögur af umskiptingum og eitthvað minnti mig á söguna af Coraline eftir Neil Gaiman (sem ég bloggið nýverið um hér) en það helgast kannski bara af því að ég er svo nýbúin að lesa hana. Maður sér líka glitta í allskonar spennandi leyndardóma og þræði sem verða væntanlega efniviður í næstu bækur í flokknum.

Anna Þóra lærir sína lexíu og þroskast, einsog vera ber, en ég játa að það kom mér svolítið á óvart hvað lexían var dýrkeypt. Mér fannst það samt eiginlega bara hressandi, því maður er orðinn svo vanur því í barnabókum að allar söguhetjur sleppi alltaf heilar á húfi hvað sem gengur á, eða það komi einhver guð úr vélinni og sá sem maður hélt að væri týndur/dáinn/dauðvona bjargast á endanum á einhvern ótrúlegan hátt. Það er ekki raunin hér (nema ótrúlegi hátturinn sem tiltekin sögupersóna bjargast á birtist í næstu bók?).

Bókin lítur vel út, mér finnst kápan flott, útgáfan er vönduð og frágangur góður. Ég nefni það sérstaklega þó það ætti náttúrulega að vera normið, en það er það bara því miður alls ekki, sérstaklega ekki hjá nýjum forlögum þar sem höfundar gefa út eigin bækur.

Yfirlýst markmið Bókabeitunnar er að gefa út gæðaefni fyrir börn og unglinga. Mér sýnist það nú bara hafa tekist alveg hreint prýðilega.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli