„Víti í Vestmannaeyjum“ er fótboltabók. Hún er samt líka bók um ýmislegt annað en fótbolta. Fótboltakrökkum finnst hún skemmtileg og fótboltamömmur komast vel í gegnum hana og hafa bara nokkra ánægju af.
Á baksíðu bókarinnar kemur fram að hún sé fimmta bók Gunnars Helgasonar. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið neina þeirra og hefði væntanlega ekkert lagt í þessa heldur nema af því að dóttir mín, sem er næstum 11 ára fótboltastelpa, mælti sérstaklega með henni. Hennar dómur var að þetta væri frábær bók, ja allavega fyrir þá sem hefðu gaman af fótbolta ... kannski ekki alveg eins fyrir hina ... kannski svolítið mikið af „og hann hleypur upp kantinn og gefur á Ívar sem sendir á Kalla sem skorar glæsilegt mark.“ Sem er auðvitað æðislegt fyrir þá sem lifa fyrir fótbolta ....
En sagan snýst ekkert eingöngu um æsispennandi leikjalýsingar og skoruð mörk. Inní hana er fléttað sögu um heimilisofbeldi og flókin samskipti barna við foreldra sína og nærumhverfi. Hvað gerist þegar maður úr litlu sjávarplássi, sem hefur verið fótboltahetja, spilað í landsliðinu og gert garðinn frægan, verður bitur drykkjumaður sem terroriserar fjölskylduna sína og gengur í skrokk á syni sínum? Ekki mikið, sérstaklega ekki ef tvíburabróðir hans er lögga í plássinu. Þessum pælingum er velt upp í sögunni, söguþráðurinn verður svolítið einsog í spennusögu, Jón Jónsson aðalsöguhetja og Þróttari, verður nokkurskonar leynilögga meðfram fótboltaspileríinu og hann og félagar hans ná að koma Ívari ÍBV-ara (og þarmeð andstæðingi/mótherja) til hjálpar.
„Víti í Vestmannaeyjum“ er fín barnabók. Hún er ágætlega skrifuð og plottið rennur vel áfram. Orðfæri og málfar þannig að manni finnst það vel ganga upp miðað við þann aldur sem bókin lýsir og höfðar til. Flesta frasana og orðatiltækin fannst mér ég kannast við, en á einstaka stað varð ég að játa mig sigraða, svo sem einsog þegar sögnin „að slæma“ var notuð, því bara náði ég engan veginn. Höfundurinn hefur líka sett sig vel inní stemminguna sem ríkir á fótboltamótum yngri flokka, hann hefur meira að segja kynnt sér all rækilega þær reglur sem gilda á mótunum, m.a. um úrslit leikja og stigagjöf o.s.frv., sem fyrir óinnvígða er ansi flókið! Sagan af Ívari og pabba hans og því hvernig tekið er á þeirra vandamálum er vel unnin finnst mér – eineltistilburðir fá líka sína umfjöllun, kannski ekki viðamikla eða sérlega djúpa en samt þannig að vel er að málum staðið. Það sem má aðeins finna að er persónusköpunin, hún er kannski svona full grunn, kannski sérstaklega þegar kemur að kvenpersónum einsog mömmu Jóns Jónssonar. En kemur svosem ekki að sök þannig séð.
Ég er allavega viss um að flestir krakkar muni hafa gaman af að lesa bókina, og foreldrar þeirra líka.
Engin ummæli:
Ný ummæli eru ekki leyfð.