29. nóvember 2011

Töfrandi óhugnaður?

„Dáleiðandi, draumkennd og algerlega mögnuð“, „gimsteinn“, „best skrifaða skáldsaga síðustu ára”... umsagnirnar um Trúir þú á töfra? eftir Vigdísi Grímsdóttur eru svo sannarlega hástemmdar og ritdómarar virðast vera í einhverri keppni um sætustu lofrulluna. Í einhverjum tilvikum veltir maður því reyndar fyrir sér hvort ritdómarinn hafi lesið bókina. Þá er ég alls ekki að gefa í skyn að þeir sem skrifa fallega um þessa bók geti ekki hafa lesið hana. En þegar farið er rangt með nafn aðalpersónunnar og nánast ekkert sagt um efni bókarinnar nema það sem stendur aftan á kápunni eða er á fyrstu blaðsíðunni þá leitar á mann ákveðinn efi. Alla vega vil ég beina því til þeirra sem sjá um að auglýsa bókina hjá Forlaginu að huga aðeins betur að því hvað er verið að vitna í hér.

Það er margt gott við Trúir þú á töfra? Stíllinn skýr og góður og frásögnin rennur vel. Persónusköpunin fannst mér sannfærandi. Aðalsöguhetjan er 12 ára stúlka, Nína Björk Hauksdóttir (já, Hauksdóttir! Föðurnafn hennar kemur margoft fram í bókinni!) sem nefnd hefur verið í höfuðið á skáldkonunni Nínu Björk Árnadóttur. Hún býr í þorpi sem einangrað er með múr og glerkúpli og einhverjir ónefndir dularfullir harðstjórar ráða ríkjum. Þorpið er á einhverjum ónefndum stað á Íslandi og á að hafa verið sett á laggirnar kringum fjármálahrunið, að því er mér virðist. Það er kynnt sem einhvers konar tilraunaverkefni en jafnframt notað sem fangabúðir og reynist vera dystópískt í meira lagi. Lífið í þorpinu er allsherjaræfing fyrir leikrit og hver hefur sitt hlutverk. Hlutverk Nínu Bjarkar felst meðal annars í því að fara með ljóð nöfnu sinnar fyrir aðra þorpsbúa.


Lýsingarnar á lífinu í þorpinu fundust mér mikið til svipaðar hinum ýmsu lýsingum á öðrum dystópíum úr fantasíubókmenntum. Sennilega eru takmörk fyrir því hvaða nýbreytni er hægt að brydda upp á í slíkum lýsingum. Stíll Vigdísar er þó ljóðrænni en venjan er og er að því leyti frábrugðinn venjulegum fantasíustíl. Annað sem gerir bók Vigdísar sérstaka er að hún svarar ekki öllum spurningum lesandans. Þetta finnst mér bæði kostur og galli. Það er kostur að því leyti að örva hugsun lesandans, sumu eigum við að geta svarað sjálf og það er óþarfi að tyggja allt ofan í okkur. Og stundum er gott að skilja eitthvað eftir handa ímyndunaraflinu. Að þessu leyti verður bókin dýpri fyrir vikið, með því að krefjast einhvers af lesandanum. Hins vegar pirraði ég mig talsvert á því að finnast ég eiga erfitt með að skilja ýmislegt í bókinni. Ég held að ég sé ekkert sérstaklega tornæm eða illa að mér, alla vega ekki vitlausari en meðallesandinn, en við lestur bókarinnar upplifði ég mig oft sem heimska. Í gegnum bókina fannst mér að þorpið og allt sem því fylgdi ætti að vera einhvers konar allegóría fyrir samfélag okkar eins og það er, en oft náði ég alls ekki hvað hinir ýmsu hlutir ættu að tákna eða hvers þeir ættu að vísa til. Mér leið iðulega eins og ég ætti að skammast mín fyrir að fatta ekki einhverjar augljósar líkingar sem allir aðrir hlytu að átta sig á eins og skot. Kannski liggur vandinn í einhverjum komplexum hjá mér, eða kannski geri ég óeðlilegar kröfur til merkingarbærni þess sem skrifað er. Það er ekki það að mér finnist helsti tilgangurinn með lestri vera sá að upplifa sjálfa mig sem einstaklega klára og gáfaða en alla vega finnst mér óþægilegt þegar bók skilur mig eftir með þá tilfinningu að ég hljóti að vera tregari en gengur og gerist. Og fyrir vikið fannst mér ég ekki ná almennilegu sambandi við bókina. Endinn skildi ég ekki, hvort hann átti að vera raunverulegur atburður eða ímyndun söguhetjunnar. Kannski átti það ekki að skipta máli, en þá er ég aftur komin í þá stöðu að finnast ég vera vitlaus.

Þetta með að bókin sé uppfull af töfrum, sem sumir ritdómarar virðast ekki geta lýst með nógsamlega hástemmdum hætti, er nokkuð sem ég vil aðeins staldra við. Vissulega eru margar af lýsingunum ljóðrænar og ríkar af myndmáli og söguhetjan Nína Björk er hrífandi persóna sem fer ótroðnar slóðir í hugsun sinni. En mér finnst samfélagið sem bókin fjallar um, sem og meðferðin á fólkinu í þorpinu, svo ógeðfellt að það hlýtur að vera afar villandi að tala um einhverja töfra í því sambandi, eins og það sé eitthvað ljúft og heillandi við þetta allt saman. Bókin fjallar um fólk sem lifir ömurlegu lífi sem og margt af því ljótasta í fari manneskjunnar, þótt vissulega sé líka sýnd fegurð.

Þegar á heildina er litið vil ég segja að Trúir þú á töfra? sé prýðilega góð bók sem full ástæða er til að lesa, þótt ég sé ekki tilbúin að slást í hópinn með æstustu lofsöngvurunum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli