24. desember 2011

Bráðskemmtileg barnabók um dauðann

Vandræðalega lítið hefur nú verið lesið af jólabókunum á þessum bæ vegna anna – en þó eru einhverjar undantekningar þar á. Þegar svona lítið svigrúm var til yndislesturs lá barna og unglingabókin Minni líkur – meiri von eftir Marjolijn Hof kannski ekki beint við sem hin útvalda en einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég las hana – og sá ekki eftir því.

Þetta er óvenjuleg bók – hún fjallar um Bíbí sem býr með mömmu sinni, pabba og gamla, síprumpandi hundræksninu Mónu í borg í Hollandi. Pabbi Bíbíar er læknir og fer reglulega til stríðshrjáðra landa til að starfa sem einhvers konar læknir-án-landamæra og þegar hann fer í enn einn túrinn eru Bíbí og mamma auðvitað ansi kvíðnar um að eitthvað komi fyrir hann. Eftir samtal við mömmu um hversu litlar líkur séu í raun á að eitthvað komi fyrir pabba verður Bíbí gríðarlega upptekin af „líkum“ og hvernig megi minnka þær eða auka. Það eru litlar líkur á því að barn eigi dáinn pabba – en það eru enn minni líkur á því að barn eigi bæði dáinn pabba og dána mús – og næstum því útilokað að eiga dáinn pabba, dána mús OG dáinn hund. Bíbí ákveður að reyna að minnka líkurnar á því að eitthvað komi fyrir pabba og um það snýst eiginlega þessi saga.



Ef efnið – mögulegur dauði föður og vangaveltur um dauða ýmissa - dýra hljómar dálítið morbid fyrir barnabók þá tek ég stax fram að þótt efnið sé óvenjulegt er framsetningin frábær. Bókin er mjög skemmtileg, spennandi og oft hreinlega fyndin. Stíllinn er léttur og eðlilegur (sem skrifast væntanlega að heilmiklu leyti á góða þýðingu Jónu Dóru Óskarsdóttur). Það er líka dásamlega hressandi að lesa um aðalpersónu sem sem er passlega ófullkomin. Það er mjög auðvelt að setja sig í spor Bíbíar og skilja af hverju hún segir það sem hún segir og gerir það sem hún gerir – en hún gerir ekki allt rétt – frekar en nokkuð barn – eða nokkur fullorðinn ef út í það er farið. Hinn göfugi læknis-pabbi er heldur ekki fullkominn og það er alveg rætt í bókinni að þótt hann sé vissulega góður og fórnfús maður þá er náttúrulega heilmikið lagt á fjölskyldu hans að hann skuli hverfa reglulega til hættulegra átakasvæða. Hvorki Bíbí, mamma, pabbi né amma (sem er mjög pirruð á syni sínum lækninum) eru fullkomin – en þau eru öll sannfærandi og einhvern veginn mjög heiðarlega skrifaðar persónur.

Minni líkur – meiri von er bók sem tekst á við alvarleg og raunveruleg málefni, áhyggjur, veikindi og dauða og hvernig í ósköpunum barn (og í raun fullorðnir líka) eigi að tækla þessi stóru mál sem í grunninn við ráðum yfirleitt litlu um. Það besta við bókina er þó mögulega að hún býður ekki upp á neinar einfaldar lausnir – hún er ekki með svörin en hún er með mjög góðar spurningar sem hverju barni og foreldri er hollt að velta fyrir sér. En allt þetta væri auðvitað fullkomlega tilgangslaust ef hún væri ekki skemmtilega skrifuð, með sannfærandi persónum, góðu plotti og fyndnum atburðum – en allt þetta uppfyllir hún með glans!

Það er alltof sjaldan sem hollenskar bækur rekur á fjörur manns og þess vegna sérstakt gleðiefni að fá þessa ljómandi fínu bók í hendur. Enda má lesa á kápu að bókin hafi hlotið tvær Gylltar gulur, virtustu barnabókaverðlaun Hollands. Aðra frá faglegri dómnefnd og hina frá dómnefnd skipaðri börnum og unglingum. Betri verða meðmælin varla.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli