26. desember 2011

Jólafixið

Eins og kunnugt er eru jólin sá tími þar sem ósentímentalasta fólk leggur sig eftir alls konar hefðum sem oft eru annað hvort væmnar eða skrítnar eða hvort tveggja. Ætli þessar hefðir séu ekki oftast tengdar mat og drykk, en sumir hafa það líka fyrir sið að lesa ákveðnar bækur eða horfa á ákveðnar bíómyndir um jólin. Einu sinni tókst mér að sögn konu nokkurrar að eyðileggja fyrir henni jólin með því að neita að lána henni eintakið af Fanny og Alexander. Ég gaf mig ekki, enda kalin á hjarta og loppin. Gott er að eiga Ríkissjónvarpið að þegar kemur að kvikmyndahefðum um jólin því það sýnir yfirleitt sömu myndirnar jól eftir jól. Hver man ekki eftir myndum á borð við Engin jól án Bassa og Jólaósk Önnu Bellu?

Eitt skemmtilegasta jólaverk sem ég þekki er smásagan / stuttmyndin The Junky´s Christmas, sem ég hef reyndar aldrei séð í Ríkissjónvarpinu. Smásagan er eftir mann sem maður hefði varla tengt við jólalega tjáningu frekar en...tjah, Bob Dylan eða Guðberg Bergsson, það er bandaríska rithöfundinn William S. Burroughs. Burroughs las söguna inn á geisladisk og þann upplestur notuðu leikstjórarnir Nick Donkin og Melodie McDaniel sem voice-over í samnefnda stuttmynd sem gerð er eftir sögunni. Í stuttmyndinni er sagan sjálf leikin með brúðum, í svarthvítu, en í upphafi og lok myndar sjáum við Burroughs sitja í hægindastól við arininn með bókina sér í hönd eins og góðlegan afa sem ætlar að lesa fyrir barnabörnin.

Sennilega myndu fáir afar þó lesa þessa jólasögu fyrir barnabörnin. Hún fjallar um fíkilinn Danny sem kemur út úr fangelsi á jóladag og örvæntingarfullar tilraunir hans til að verða sér út um næstu sprautu. Sögunni svipar mjög til sögunnar af litlu stúlkunni með eldspýturnar; Danny, rétt eins og fátæka stúlkan, er utangarðsmaður í samfélaginu og ráfar um kaldar og dimmar göturnar á hátíðisdeginum og kemur alls staðar að lokuðum dyrum meðan betur stæðar fjölskyldur skála í allsnægtum fyrir innan upplýsta glugga. Saga Dannys skilur mann þó eftir með örlítið meiri von í hjarta – H.C. Andersen reynist í þessu tilfelli grimmari en William S. Burroughs – og ég mæli með þessari (óvenju aðgengilegu) sögu Burroughs á jólunum. Smásöguna er að finna í bókinni Interzone, upplestur höfundarins var gefinn út á geisladisknum Spare Ass Annie and Other Tales og stuttmyndin er allavega í bútum á Youtube þótt flestir séu örugglega færari en ég að finna hana í betra formi.

2 ummæli:

  1. Hún var reyndar sýnd í Ríkissjónvarpinu fyrir 2 árum síðan, minnir mig.

    SvaraEyða
  2. Nú, ókei, ég hef verið í Berlín þá og misst af henni.

    SvaraEyða