27. desember 2011

Af tímaritinu Sögu, temynntum dreifbýlismeyjum, íbenholtlitaðri bládís, fólki með blátt blóð og fleiru sem Jakob Frímann man

Um daginn áskotnaðist mér nýtt hefti af Sögu, tímariti Sögufélags, sem er vandað og gott tímarit. Þar má lesa umfjöllun um söluna á Búnaðarbankanum og hvernig nokkrir framámenn í Framsóknarflokknum græddu stórfé með því að misnota aðstöðu sína. Í ritinu er líka enn ein umfjöllun um Sovét-Ísland, óskalandið eftir Þór Whitehead, sem ég held að sé einn nokkurra áberandi íhaldsmanna sem finnst alveg gríðarlega miður að kalda stríðinu sé lokið. Það virðist vera nóg vinna fyrir marga að hrekja bullið í þessum mönnum, sem hafa það aðallega fyrir stafni að fletta ofan af fyrrverandi kommúnistum. Það sem ég las þó fyrst í þessu hefti voru viðbrögð ýmissra við tölvupósti þar sem því er haldið fram að þrátt fyrir umtalsverðar breytingar í ævisagnaritun og breyttar áherslur síðustu árhundruð, formtilraunir og efa um gildi hefðbundinna ævisagna, séu viðhorf til þeirra enn nokkuð hefðbundin. Vel heppnuð ævisaga er sú álitin sem er traust og yfirgripsmikil, trúverðug og í samhengi bæði stórsögulega og hið innra, hún skal vera sögð í krónólógískri röð og samúð skal vera með aðalsögupersónunni svo eitthvað sé upptalið. Spurt er hvers vegna þessi hugmynd um ævisöguna standi föstum fótum og hvaða hugmyndir búi að baki skilgreiningunni. Í lok tölvupóstsins (pósturinn er lengri en það sem ég tel upp hér að ofan) er fólk svo spurt hvað ævisaga sé í huga þess. Þessu svara á annan tug manna; sagnfræðingar, bókmenntafræðingar, guðfræðingur, ævisagnaritarar, bókmenntafræðingur og fleiri. Svörin eru margskonar og margt áhugavert í þeim sem væri efni í langa bloggfærslu, og hún kemur vonandi. En efni þessarar færslu er einmitt enn ein ævisagan, sem er ein hinna hefðbundnu íslensku, Með sumt á hreinu þar sem Jakob Frímann Magnússon lítur um öxl en Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir skráir. Framan á bókinni er mynd af Jakobi og myndin sú vakti spurningu hjá vinkonu minni sem ég þurfti að hryggja með að væri ekki svarað í bókinni: Af hvaða æskubrunni hefur maðurinn drukkið? Jakob er að nálgast sextugt og hefur marga fjöruna sopið (og í þeim fjörum hafa ekki beinlínis verið tómir heilsudrykkir, það kemur skýrt fram í bókinni) en það sést ekki á honum á þessari mynd.

Jakob hefur frá mörgu að segja enda er bókin ekkert smákver heldur tæpar fjögurhundruð síður og spannar líf Jakobs og störf frá fæðingu. Allir vita örugglega hver Jakob Frímann Magnússon er, mér finnst hann allavega hafa verið mjög áberandi alla mína ævi. Það kemur líka fram í bókinni að hann er hvorki hlédrægur né nístandi sjálfsgagnrýninn, grobbsögur og sjálfshól má víða finna. Bútar í upphafi bókarinnar, þar sem lýst er bernsku Jakobs hjá ömmu og afa minntu mig á Sól í Norðurmýri, aðra endurminningabók sem Þórunn á hlutdeild í, en þegar bernskan er liðin tekur rödd aðalsöguhetjunnar við, eins og maður kannast við hana úr fjölmiðlum og bíómyndum, og að því leyti má segja að bókin sé vel heppnuð, mér fannst ég bókstaflega heyra málróm Jakobs við lesturinn.



Það er ýmislegt sem ég hefði gert athugasemdir við hefði ég verið ritstjóri þessarar bókar. Jakob Frímann hefur greinilega mikinn áhuga á hverra manna fólk er og hér og þar eru ættrakningar og upplýsingar um venslafólk samferðamanna sem mér finnst tilgangslausar og oft kjánalegar.

Þrjú dæmi:
Valli var strax dásamlegur. Sjálfsagt vegna hins góða atlætis móður sinnar, Margrétar, dóttur Árna Vilhjálmssonar útvegsbónda á Hánefsstöðum í Seyðisfirði og Guðrúnar Þorvarðardóttur frá Keflavík syðri. Valgeir er því Hánefjungur með innistæðu. Móðurforeldrar hans fluttust inn í Seyðisfjarðarkaupstað 1944 og þá varð Árni skipamælingamaður, erindreki Fiskifélags Íslands og mikilvirkur í Slysavarnarfélagi Íslands. Þau hjón voru framsæknir vormenn enda urðu móðurbræður Valla stórmenni, Þorvarður sem rak Herrahúsið og Dairy Queen, Tómas ráðherra og seðlabankastjóri og Vilhjálmur hæstaréttarlögmaður. (86)
Uppi í risi bjó móðurbróðir Þórðar, Bjarnþór Þórðarson, sterkur karakter eins og nafnið ber með sér. Guðrún var elskuleg kona og greind með afbrigðum, eins og Þórður sonur hennar, starfaði lengi á Þjóðskjalasafni Íslands. Faðir Þórðar var Árni frá Mosfelli, bróðir Óla Mos, fyrirtaks söngvara og þekktasta jólasveins Íslands. Árni vann hjá Rafveitunni, einstaklega indæll og velviljaður maður. (93)
Júlíus Agnarsson, hljóðmaður, sá um verið og útgerðina á Þursunum og síðan á Stuðmönnum. Ofboðslega duglegur náungi, flottur og skemmtilegur. Með þetta bláa blóð, Magnús Stephensen landshöfðingja í aðra ættina og Hans Petersen verslunarmann í hina. Hann var músíkant sjálfur og mikill Eric Clapton-aðdáandi, skírði son sinn Eirík eftir honum. Var á sínum tíma í hljómsveitinni Andrew, með Geira Óskars, Agli Ólafs og Andra Erni Clausen heitnum, sálfræðingi sem dó úr krabbameini, manni Elvu Óskar Ólafsdóttur, leikkonu. Júlíus er bróðir Guðrúnar Agnarsdóttur, fyrrverandi forsetaframbjóðanda og formanns Krabbameinsfélagsins. (207)

Töluvert er líka um upptalningar á nöfnum fólks, t.d. skólafélögum sem koma annars ekkert við sögu og stundum koma fyrir neimdropp sem eru í raun óskiljanleg, t.d. stendur á bls. 114 í umfjöllun um hljómsveit: „Umboðsmaður þeirra var Dee Anthony, vinur Þórdísar Helgudóttur Bachmann.“ Hvorki Þórdís þessi eða móðir hennar koma við sögu annarsstaðar í bókinni (og Dee Anthony reyndar ekki heldur) svo maður spyr sig til hvers í ósköpunum svona upplýsingum sé skellt fram.

Sem fyrr sagði nýtur tungutak Jakobs sín vel í bókinni. Hann er alinn upp af fólki sem var hátíðlegt og vildi ekki segja neina vitleysu „Í samræmi við dýrkun málsins sem var helsta stoðin við þjóðbyggingu Íslands var mikill agi á íslenskunni. Sá arfur hvílir mér enn á tungu.“ (37) Ofan á þessa máldýrkun bættist síðan að Jakob og Valgeir Guðjónsson, félagi hans, þróuðu með sér í MH að fara afar bókstaflega eftir mállöggunum, sem kemur síðan fram í máli hans, frændi minn segist hafa heyrt Jakob Frímann biðja um glóaldinsafa á kaffihúsi og ég trúi alveg þeirri sögu. Málfar er auðvitað smekksatriði en mér finnst þetta stundum tilgerðarlegt, til dæmis að kalla Herbertstrasse „breiðstræti holdlegra lystisemda“ og að tala um klavíer eða kalla píanóleik slaghörpuslátt heillar mig ekkert, en svona talar maðurinn og fínt að það endurspeglist í bókinni.

Tungutakið verður oft mjög áberandi í kvenlýsingum, en lýsingar á kvenfólki í þessari bók eru efni í langan pistil. Systur ömmu sinnar kallar hann „valinkunn piparsprund“ en konum sem hann heillast af er yfirleitt hrósað fyrir útlit og gáfur og þær eru gjarna kallaðar gyðjur, glæsimeyjar eða heilladísir og vexti þeirra lýst, til dæmis er Anna Björns með slönguvöxt.

Dæmi:
Í menntaskóla var Steinunn Þorvaldsdóttir eina gyðjan sem ég sá. Ofboðslega falleg, gáfuð, þokkafull, hávaxin og fagurlimuð, með þennan einstaka seiðandi fransk-ítalska svip sem einkennir Dungals-ættina (230).

Lýsing á vinkonu sem Jakob hittir í London minnir á kvenlýsingu í bók eftir Árna Johnsen „yndislega fegurðardís, sem er alltaf hjartahlý, góð og blíð.“ (101)

Í sögu sem í bókinni segir að megi kalla „Kviðmágar kallast á, um samruna blámanna og grámanna“(bls. 115-117) segir frá konu sem Jakob og vinur hans sváfu hjá, dansara og „unaðslega konu af afrísku kyni“ konan er líka kölluð „bládísin fagra“ og „sú íbenholtlitaða, sjálf yfirþokkagyðjan. Æðislegur hasarkroppur, með pósur og hreyfingar hins þjálfaða dansara.“

Ljótum konum er hins vegar lýst svona:
... koma aðvífandi tvær breskar og bersýnilega dreifbýlismeyjar. Önnur skjálg mjög og hin afar innskeif. Með þunnar stútvarir sem Bretar kalla að vera temynntar og eilítið skúffaðar. Þær eru fæstar augnayndi á okkar mælikvarða, þessar ensku... (102)

Í Með sumt á hreinu eru gríðarlega mörg nöfn en oft verður maður litlu nær um fólk því lýsingarnar eru einhvernveginn svo loftkenndar. Eins og kemur fram hér að ofan minntu þær mig hreinlega stundum á mannlýsingar hjá Árna Johnsen „Yndislegar konur báðar tvær“ er sagt um kunningjakonur Jakobs (bls. 329) og svo má rekast á svona frasa; „Þakka má Guði fyrir allar þær eðaltýpur sem glóa innan um sauðina“ (45) sem mér finnst rosalega Árna Johnsen-legt orðalag (ég las einu sinni  bók eftir Árna sem heitir Lífsins melódí og á erfitt með að gleyma henni). Mannlýsingar, sérstaklega á konum, verða til þess að ef ekki stendur að viðkomandi sé yndisleg manneskja, þokkagyðja, gáfuð heilladís eða eitthvað álíka þá grunar mann sterklega að Jakobi Frímanni finnist viðkomandi leiðindaherfa, en hann talar ekki illa um fólk eða gagnrýnir menn að einhverju marki (nema náttúrlega bresku dreifbýlismeyjarnar).

Í bókinni eru margar sögur af samskiptum við frægt fólk og minna frægt, Joni Mitchell og Michael Jackson koma til dæmis fyrir, en þarna er líka sagt frá dópi og fylleríum, tónlistariðkun, gleði, sorgum og leyndarmálum í fjölskyldu söguhetjunnar. Bókin er afskaplega vel unnin, fallega umbrotin og vel prófarkalesin og með nafnaskrá, myndaskrá og skrá yfir útgefið efni eftir Jakob Frímann. Hins vegar verð ég að segja að Þórunn Erlu-Valdimarsdóttur hefur skrifað miklu betri og áhugaverðari ævisögur en þessa.

2 ummæli:

  1. Þetta er ein fjölmargra bóka sem voru að fá fjögurra og fimm stjörnu dóma um jólin, en mér sýnist á þessari umfjöllun að sé í mesta lagi þriggja stjörnu bók.

    Hvaða stjörnu-gleði greip gagnrýnendur um jólin, vitið þið það?

    Annars er þetta skemmtileg umfjöllun hjá þér Þórdís.

    SvaraEyða
  2. Kannski er það þetta stjörnuflóð sem gerir suma blaðamenn að stjörnublaðamönnum.

    SvaraEyða