Ég þekki ekki söguna en einhvern tíma hefur sá siður komist á að ritdómarar í fjölmiðlum gefi bókum einkunnir, gjarnan á stjörnuformi. Hið sama tíðkast í umfjöllun um kvikmyndir, leiksýningar og hljómplötur. Kannski megum við eiga von á stjörnugjöf fyrir myndlistarsýningar innan tíðar, eða kannski tíðkast slíkt einhvers staðar nú þegar án þess að ég hafi rekist á það. Hvaða grundvöllur er fyrir stjörnugjöf í listum?
Stjörnur eru gjarnan notaðar til að gefa til kynna gæði af einhverju tagi. Til dæmis eru stjörnur notaðar til að tákna þjónustustig gistihúsa. Þriggja stjörnu hótel veitir einhverja tiltekna þjónustu sem einnar stjörnu hótel veitir ekki og það hefur í sjálfu sér ekkert með það að
Eiginlega finnst mér það að gefa einkunnir það alversta við að kenna en lít á það sem illskástu leiðina til að leggja mat á frammistöðu nemenda. Mér sýnist tilgangur þess að gefa einkunnir í háskólanámi helst vera sá að hafa einhvern mælikvarða til að gefa til kynna hverjir eigi helst erindi í framhaldsnám. Einkunn sem slík, hvort sem hún er tölustafur eða bókstafur, gefur frekar litlar upplýsingar um það hvað nemandinn hafi fengið út úr námskeiðinu, hverjir séu hans helstu styrkleikar og veikleikar o.s.frv. Sæmilega ítarleg skrifleg umsögn segir margfalt meira en einkunn. Það getur verið þrælerfitt að komast að niðurstöðu um einkunn í hugvísindanámi en kennarar reyna eftir bestu getu að leggja mat á tiltekin atriði sem ætlast er til að nemendur hafi á valdi sínu, eins og hve vel þeir sýni þekkingu og skilning á námsefninu, hvort framsetning sé skýr og skiljanleg, hvort nemandinn sýni vott af sjálfstæðri hugsun um námsefnið og hvort vandað sé til verka við að vísa í heimildir.
Ég á bágt með að átta mig á hvaða hlutlægu mælikvarða megi nota við að leggja mat á skáldverk í því skyni að gefa þeim stjörnur. Vissulega má leggja mat á málfar og önnur atriði í textagerð eða það hvort plottið sé frumlegt eða persónusköpunin sannfærandi. En þessir þættir tryggja það ekki að gagnrýnandanum líki bókin. Sumt efni höfðar betur til manns en annað og það sama gildir um ritstíl þannig að ýmis smekksatriði geta haft áhrif á það hvernig manni líkar skáldverk. Er sanngjarnt að láta slíkt hafa áhrif á stjörnugjöf? Með öðrum orðum þá held ég að það að gefa skáldverki einkunn, hvort sem hún er túlkuð með tölum, bókstöfum, stjörnum eða kökusneiðum, sé óhjákvæmilega erfiðara og duttlungaháðara en að gefa nemanda einkunn í námskeiði, sem er alveg nógu slæmt. Þar að auki er einkunnagjöf mjög takmarkaður og óspennandi mælikvarði sem gefur litlar upplýsingar. Því spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum er verið að leggja alla þessa áherslu á stjörnugjöf fyrir bækur?
Tilhneigingin er að veita stjörnunum meiri athygli en þeim skrifum sem fylgja þeim, jafnvel þótt hinn skrifaði pistill veiti miklu meiri upplýsingar en stjörnufjöldinn. Þetta sést til dæmis á auglýsingum bókaforlaga þar sem við fáum að vita hve margar stjörnur þessi eða hinn ritdómarinn hafi gefið viðkomandi bók og svo fylgir setning eða setningarbrot úr dómnum, kannski úr öllu samhengi við afganginn af textanum. „Bráðskemmtileg mannlífslýsing, fimm stjörnur“. Ekki er endilega fylgst með því hvað býr að baki stjörnugjöfinni eða á hverju gagnrýnendur byggja hana. Sjálf hef ég til dæmis stundum rekist á auglýsingar bókaforlaga þar sem vísað er í dóma sem ég hef lesið og hreinlega dregið í efa að gagnrýnandinn hafi lesið bókina (þetta er þó engan veginn ásökun um að algengt sé að gagnrýnendur dæmi ólesnar bækur). Þetta getur vissulega verið tímasparandi; í stað þess að hafa fyrir að lesa allt sem gagnrýnandinn hefur að segja um bókina er nóg að athuga hve margar stjörnurnar eru. Ef þær eru færri en fjórar tekur því ekki að lesa bókina en ef þær eru fjórar eða fimm má bera sig eftir því að lesa hana eða kaupa hana til að gefa í jólagjöf. Þannig má segja að stjörnugjöfin sé eins og meðmælastimpill. Fjórar eða fimm stjörnur jafngilda því að gagnrýnandinn mæli með bókinni, þrjár stjörnur eru rétt ylvolg meðmæli og ein eða tvær jafngilda viðvörun.
Sem sagt tengist stjörnugjöfin leti í hugsun. Í stað þess að lesa hugleiðingar gagnrýnandans um bókina og velta fyrir mér út frá þeim hvort þetta sé bók sem mig langar til að lesa, svona út frá því hvernig bókum ég hef áhuga á eða því sem mér finnst mikilvægt við bækur, þá læt ég gagnrýnandann um að mæla með ákveðnum bókum. Gleymum því svo ekki að út frá eðli hins íslenska jólabókaflóðs er nokkuð líklegt að viðkomandi gagnrýnandi sitji við stóran bókastafla sem hann rennir í gegnum í akkorði og hafi takmarkaðan tíma til að velta fyrir sér eða melta. Stjörnugjöfin tengist líka tilhneigingu okkar til að mæla allt og staðla. Í stað þess að þurfa að leggja í margvíða lýsingu á bókinni, sem felur kannski í sér að bókin hafi bæði kosti og galla, eða hafi eiginileika sem falla sumum í geð en öðrum ekki, er hægt að stimpla bókina með tölu: „Þetta er fjögurra stjörnu bók, sem gerir hana óhjákvæmilega betri en bókina við hliðina sem er bara þriggja stjörnu.“
Æ, hvers vegna þarf alltaf að klína gæðastöðlum á allt? Á umfjöllun um bækur endilega alltaf að snúast um að gæðameta þær?
Ég sé mér ekki fært að gefa þessum pistli nema þrjár stjörnur.
SvaraEyðaÞarna var fínn punktur: Hver munurinn sé á stjörnugjöf og einkunnagjöf. Er ekki einmitt alþjóðleg tilhneiging til verðbólgu í einkunnum á öllum skólastigum? Ástæðan er meðal annars sú að skólar fá fé á grundvelli nemendafjölda og pressan verður því mikil að halda í nemendur og húrra vel upp á þá svo féð fari ekki í súginn, svo ekki sé talað um pressuna að skólinn komist í top-hundred sæti á alþjóðavettvangi. Á sama hátt eru fúlgur lagðar í batterí til að byggja upp metsöluhöfunda eins og Yrsu og pressa sett á fjölmiðla að klappa svo það fé fari ekki forgörðum og miðlarnir þurfa að veita stjörnur, sem eru það eina sem blaðalesendur nenna orðið að lesa, og enn bætir í pressuna þegar Ísland á að vera enn meira topp bókmenntaland en háskólaland. Kannski er þetta ósköp svipuð uppgjöf gagnvart ósköp svipuðum bestsellerisma þegar upp er staðið?
SvaraEyða