1. janúar 2012

Bókasöfn á gististöðum, 11. þáttur: Singapúr og Saigon

Á ferðalögum gefst mismikill tími til lestrar. Stundum er druslubókadama einfaldlega of upptekin við að skoða mannlífið í Saigon og skemmta sér við að fara yfir götu þar eða borða ferskan ananas á bát á Mekong-fljótinu, svo fátt eitt sé nefnt.

Þess háttar röskun á hversdagsleikanum gefur þó færi á að bæta við greinaflokkinn um bókasöfn á gististöðum.

Á tveimur af fjórum gististöðum sem undirrituð druslubókadama hefur dvalið á undanfarna viku hefur mátt finna bókahillur, býsna ólíkar.

Á Fernloft City (Chinatown) hostelinu í Singapúr var aðallega að finna ferðahandbækur sem fólk hefur ekki talið sig þarfnast lengur. Ef einhverjar ályktanir má draga af hlutfallinu þar (reistar á veikum grunni vegna bókarfæðar) lítur út fyrir að hátt hlutfall gesta hafi verið á leið frá Ástralíu því tvær af bókunum fjalla um hana. Balí, Thaíland og Indland eiga líka fulltrúa í hillunni. Ekki kemur á óvart að sjá Dan Brown á svæðinu, bækur eftir hann hljóta að vera meðal þeirra sem oftast eru skildar einhvers staðar eftir. Svo er þarna ein bók á hollensku, eitthvert andlegt dót og örlítið í viðbót.

Bókahillurnar á Đức Vượng hótelinu í Saigon - eða Ho Chi Minh borg eins og hún heitir opinberlega - eru töluvert fjölbreytilegri. Svona líta þær út:

Ef þaer eru skoðaðar nánar (sbr. myndirnar fyrir neðan) kemur fljótt í ljós að á hótelinu hefur greinilega gist slatti af Norðurlandabúum, ekki síst Svíum því þarna má finna Stúlkuna sem lék sér að eldinum eftir Stieg Larsson á frummálinu, Den amerikanska flickan eftir Moniku Fagerholm, tvær bækur eftir Håkan Nesser o.fl. Fulltrúi Norðmanna er Anne B. Ragde og bókin Berlínaraspirnar - en reyndar í danskri þýðingu. Á dönsku er þarna líka stórbók Elsebeth Egholm og eins og sjá má ef þið smellið á myndirnar til að fá stærri útgáfu eru líka finnskar bækur í hillunni.

Tungumálaúrvalið er býsna fjölbreytilegt: kínverska, franska, þýska, kóreska (held ég) o.fl., þar með talin enska og að sjálfsögðu er fyrrnefndur Dan Brown þar á meðal. Mér finnst eiginlega synd að hafa ekki í farteskinu neina íslenska bók til að bæta í safnið. Ætti ég kannski að senda hótelinu lítinn pakka þegar ég kem heim? Annars skildi ég eina bók eftir þarna, þid megið giska á hver hún er.

Gamlárskvöld hér í Saigon verður annars ógleymanlegt. Fyrir tilviljun rölti ég í rólegheitum (sem betur fer lá mér ekki á) um miðja borg þegar nokkrir klukkutímar voru til áramóta og þar gaf heldur betur á að líta. Umferðin var verulega mikið meiri en almennt gerist (þótt varla sé á bætandi) og þar af leiðandi ennþá meira bíó en venjulega. Þegar við bættist ógrynni af ljósaskreytingum var ævintýraheimurinn fullkomnaður.

Gleðilegt ár!

5 ummæli:

  1. Ég er alveg viss um að þú hafir ekki verið með bók eftir Jack Higgins með þér. Finnst þú hinsvegar líklegt til að hafa verið að lesa Kate Atkinsson.
    Steinunn Þóra

    SvaraEyða
  2. Danielle Steel! Nei, ég giska líka á Kate Atkinson, þótt mér finnist merkilegt að þú hafir nennt að bera svona fyrirferðarmikla bók með þér til útlanda.

    Gleðilegt ár!

    -Kristín Svava

    SvaraEyða
  3. Ég giska líka á Atkinson! Nema þú sért brjálæðingurinn sem dröslaði A Fine Balance með sér til Víetnam?

    SvaraEyða
  4. Gleðilegt ár, Erna!

    Þetta er heldur ekkert hvaða finnska bók sem er þarna! Sjö bræður eftir Aleksis Kivi, hún er svona Sjálfstætt fólk Finnlands.

    SvaraEyða
  5. Thad hefur alveg farist fyrir hja mer ad svara. Thid hafid ad sjalfsogdu rett fyrir ykkur med Atkinson. Hvad vardar thetta med fyrirferdarmiklu bokina, tha tharf madur nu ad lesa eitthvad (thott eg se reyndar buin ad gera faranlega litid af thvi) og Atkinson var reyndar areidanlega lettari en Moby Dick sem eg hafdi lika med mer og er ad lesa nuna. Annars er eitt af prinsippunum i thessarri fer ad stunda thyngdarjofnun a farangri og losa sig vid baekur jafnodum.

    Erla, takk fyrir finnsku upplysingarnar; mer fannst eins og thad hefdi verid fleiri en ein finnst bok tharna en nenni ekki ad ryna i myndirnar. Gott ad sja ad thad eru merkilegar bokmenntir tharna i bland vid ymislegt annad.

    SvaraEyða