|
Bækurnar hafa fengið nýtt lúkk í tilefni af sjónvarpsþáttunum |
Meðal krimmahöfunda eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Ég hef verið ákafur reyfaralesandi frá því ég kynntist Agöthu Christie í páskafríinu þegar ég var 13 ára - einhver besta lestrarminning bernskunnar er að liggja uppi í sófa, maula páskaegg og gleypa í mig hverja Agöthuna á fætur annarri. Síðan hef ég lesið ógrynnin öll af glæpasögum og m.a.s. þýtt nokkrar. Hins vegar er ég nokkuð kræsin á krimma (eins og bókmenntir yfirhöfuð) og hef t.d. tekið eftir því að breskar og evrópskar glæpasögur höfða yfirleitt meira til mín en bandarískar. Eins er ég lítið spennt fyrir hasarbókmenntum þar sem mikið fer fyrir byssum, sprengjum og bílaeltingaleikjum. Rómantískar spennusögur eru ekki flokkur sem ég sækist í, né heldur bækur með dulrænu ívafi, nema þær séu sérstaklega góðar. Ég er spenntust fyrir góðri fléttu, persónusköpun sem er ekki alveg marflöt, og ekki er verra ef einhvers slags þjóðfélagsádeila er með í för. Eftirlætishöfundurinn minn - í heiminum, ekki bara í glæpasagnageiranum - er hin breska Kate Atkinson, sem hefur náð alveg nýju tvisti á glæpasöguna en einnig skrifað annars konar bækur. Í uppáhaldi núna er líka Shardlake-flokkurinn eftir C. J. Sansom, en
Maríanna Clara druslubókadama fjallaði um hann fyrr á árinu.
|
Peter Robinson |
Síðasta árið hef ég lesið þónokkrar bækur úr Inspector Banks-bókaflokknum eftir Peter Robinson, en heimasíðu hans má finna
hér.
Robinson hefur verið lengi að og skrifað tæplega tuttugu skáldsögur um Banks og félaga hans, auk smásagna. Hann hefur aldrei náð að verða einn af allrafrægustu reyfarahöfundunum - hann er enginn Rankin eða Mankell - en nýtur þó talsverðra vinsælda, ekki síst í Bretlandi. Robinson er sjálfur Breti en hefur raunar búið í Kanada í einhverja áratugi. Það er ef til vill þess vegna sem maður kannast ekki alltaf alveg við það Bretland sem birtist í skrifum hans; það einkennist að vissu leyti af nostalgíu en höfundurinn tekst samt skemmtilega á við það með því að láta Banks lögreglufulltrúa, aðalpersónu bókanna, vera týpu sem passar ekkert voðalega vel inn í samtíma sinn og á sín bestu ár að baki.
Eins og vera ber í reyfurum (og getur orðið afskaplega þreytandi hjá sumum höfundum) er Banks fremur ógæfulegur í einkalífinu. Hann vinnur hjá rannsóknarlögreglunni í dölum Yorkshire en þangað fluttist hann eftir stormasaman skilnað og upplausn fjölskyldunnar. Þrátt fyrir ýmiss konar erfiðleika er persónan samt ekki jafnþunglyndisleg og t.d. hin óþolandi Annika Bengtzon eða Erlendur úr bókum Arnaldar Indriðasonar - gvuði sé lof fyrir það.
|
Eins gott að vera ekki einn á ferli að nóttu til í Jórvíkurskíri |
Ég hef ansi gaman af bókunum hans Robinsons þótt þær séu ekkert stórbrotnasti skáldskapur sem á fjörur mínar hefur rekið. Stíllinn er fínn og flétturnar spennandi, og hann er prýðisgóður sögumaður. Persónurnar eru margar hverjar skemmtilegar og það er skemmtilegt að fylgjast með persónulegri sögu hvers og eins í bókunum. Þarna er fastur kjarni lögreglufólks sem leikur misstórt hlutverk í hverri bók. Annie Cabbot lögreglukona á í haltu-mér-slepptu-mér-sambandi við Banks og verður sjálf fyrir afar óhugnanlegri reynslu snemma í bókaflokknum sem litar viðbrögð hennar sem og samskiptin við Banks. Kev Templeton er sjálfselskur, kvenhatandi hrokagikkur sem dansar á mjög vafasamri línu og er eins konar ógn að innan. Eftirlætispersónan mín er þó Winsome Jackman lögreglukona sem kemur frá Jamaíku og stingur ansi mikið í stúf við fremur einsleita þjóðfélagssamsetningu smábyggðanna í Jórvíkurskíri. Staða kvenna innan lögreglunnar og valdakerfa þjóðfélagsins er Robinson greinilega hugleikin. Stundum finnst mér kvenpersónurnar hans of mikil fórnarlömb (gegnumgangandi vandamál í glæpasögum reyndar) en það er samt eitthvað mjög töff við það hvernig hann á lúmskan máta dregur fram ójafna valdastöðu, jafnvel frá óvæntum sjónarhornum.
Bókin sem ég lauk við í gær heitir
Strange Affair. Í henni tekst Banks á við mál sem meðal annars tengist bróður hans, vafasama kaupsýslumanninum Roy. Fortíðin bankar gjarnan upp á hjá Banks, sem ólst upp í Peterborough og á fremur stirt samband við foreldra sína. Í
The Summer that Never Was þarf hann t.d. að leysa mál sem tengist hvarfi æskuvinar hans og neyðist til þess að róta í fortíðinni sem fellur illa í kramið hjá foreldrunum og því samfélagi sem þau búa í. Í enn einni bók,
Piece of my Heart, er svo flakkað á milli nútímans og ársins 1969 til að leysa morðmál á hippatónlistarhátíð. Óvenjulegasta bókin og að mínu mati sú besta er eflaust
Aftermath, þar sem Banks, Annie og félagar fást ekki beinlínis við lausn máls heldur úrvinnslu á staðreyndum þess. Bókin hefst með skelfilegu útkalli þar sem upp kemst um fjöldamorð og hrylling, og bókin fjallar síðan um tilraunir lögreglunnar til að skilja málið, orsakir þess og afleiðingar.
Nú í haust sá ég svo sjónvarpsþátt upp úr einni Banks-bókinni á DR1. Þátturinn, sem framleiddur er af ITV í Bretlandi, var bara nokkuð góður. ITV ku hafa pantað þrjár tveggja parta myndir til viðbótar við þá seríu sem þegar er komin, svo að á leiðinni er sex þátta röð. Glæpastuð!
Hefurðu lesið Benjamin Black?
SvaraEyðaÞað er krimmadulnefnið hans John Banville.
Hann er búinn að skrifa fimm bækur núna, þar af fjórar um Dr. Quirke, drykkfelldan krufningarlækni í '50s Dublin sem flækist inn í morðmál og kirkjuskandala. Mæli með þeim.
Þetta eru svona fagur-krimmar, ekki tryllingslega spennandi kannski en mikið betri bækur en flestir krimmar. Hægt að lesa þetta án þess að finnast manni hafa verið nauðgað í spennugatið.
Heyrðu, ég hef einmitt lesið Christine Falls og fannst hún dúndurgóð. Vissi ekki að það væru komnar fleiri. Hér með er þeim bætt á leslistann - takk takk!
SvaraEyðaPabbi minn kom einu sinni heim af einhverjum flugvelli með bók eftir þennan höfund, og næsta árið eða svo reyndi ég að finna fleiri en tókst ekki, ekki einu sinni á erlendum flugvöllum. Er eitthvað eftir hann selt í íslenskum bókabúðum núna, eða þarf ég að leggja mig fram um að millilenda í London næst þegar ég fer til útlanda?
SvaraEyðaRagnhildur.
Ég sá tvær bækur eftir hann í Iðu í dag, fyrir tilviljun! Mig minnir líka að ég hafi séð eitthvað í Eymundsson í Austurstræti í vetur. Annars hef ég fengið hann á Borgarbókasafninu.
SvaraEyðaÞessi pistill talar beint til mín;) Þarf að drífa mig í að lesa þessar DCI Banks bækur, hef séð einn eða tvo þætti í sjónvarpinu og fundist þeir ágætir. Gott að geta bætt nýjum höfundi í breska krimmablætið!
SvaraEyða