8. janúar 2012

Sögur af Eyrinni

Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thors myndi væntanlega flokkast undir sagnasveig þar sem hér er á ferðinni safn smásagna sem þó tengjast allar. (Þetta er greinilega heitt umræðuefni þar sem Guðrún Elsa var rétt áðan að setja inn færslu um sagnasveiga hér). Sjálf var ég alltaf lítið spennt fyrir smásögum þar til ég kynntist skrifum snillingsins Alice Munro (sem ég fjalla um hér) en síðan hef ég verið svag fyrir forminu. Munro hefur nær eingöngu skrifað smásögur en eftir hana liggur þó ein skáldsaga – Lives of Girls and Women – sem mætti mögulega flokka sem sagnasveig þar sem hver kafli er að forminu til eins og sjálfstæð smásaga þótt þeir fjalli um sömu fjölskyldu. Uppáhalds sagnasveigs bókin mín er þó sennilega Olive Kitteridge eftir Elizabeth Strout (sem ég kannski lufsast til að skrifa um við tækifæri) en hún fékk Pulitzer verðlaunin árið 2009. Eins og Valeyrarvalsinn tekur hún fyrir smábæ og leyfir lesandanum að skyggnast inn í nokkur hús og kynnast íbúunum. Þetta er frábær bók sem nýtir sér einn skemmtilegasta möguleika sagnasveigsins – að segja frá sömu atburðum og manneskjum frá mismunandi sjónarhorni. Það gerir Guðmundur Andri raunar líka og leikur sér að dómhörku lesandans – oft reynist persóna sem maður var löngu búin að afgreiða hafa sitthvað sér til málsbóta.





Í Valeyrarvalsinum er þannig smám saman dregin upp mynd af smáþorpi úti á landi og saga íbúanna (sem allir tengjast auðvitað á einn eða annan máta) útlistuð frá mismunandi vinklum. Guðmundur gengur þó skrefi lengra en margir sagnasveigs höfundar þar sem hann vísar svo grimmt á milli sagna að það er á mörkunum að lesandinn geti áttað sig á einni sögu ef hann hefur ekki lesið hinar. Það borgar sig því að lesa Valeyrarvalsinn í einum rykk eins og spennusögu vilji maður halda þræði. Ég gerði þau mistök að lesa eina og eina sögu – ætlaði að drýgja þær eins og gott konfekt yfir jólin – en hefði kannski betur gúffað þær í mig því ég var aðeins farin að fara mannavillt á Valeyri – sem er synd því persónurnar þar eru eftirminnilegar og maður á svo sem ekkert að þurfa að rugla þeim saman. Margar sögurnar byrja á „hann gekk...“ eða „hún fékk sér kaffi...“ þannig að maður þarf oft að hafa aðeins fyrir því að átta sig á um hvern er verið að fjalla og rifja upp hvað hefur verið sagt um viðkomandi í fyrri sögum. Smám saman púslast veröld fólksins á Valeyri saman og úr verður lífleg mynd eins og púslin sem maður dundaði við yfir jólin sem barn; stórar og skemmtilegar þorpsmyndir þar sem óteljandi litlir hlutir gerast samtímis á fletinum og verulega notalegt er að nostra við hverja sögu fyrir sig.

Sögurnar eru auðvitað misgóðar eins og gengur og gerist – og sjálfsagt smekksatriði hverjar eru bestar. Sjálfri fannst mér t.d. viðskipta-stórlaxinn sem breytti öllu í gull en gleymdi að rækta sinn innri mann og sambandið við eiginkonuna kannski dálítið klisjukenndur en þeim mun betri sagan af Jósu sem situr á sextugsafmælinu og dundar sér við að setja gamlar myndir inn á facebook. Það er raunar áhugavert hvað bókin er í senn tímalaus og vandlega bundin nútímanum. Í aðra röndina kynnumst við persónum sem hafa verið til frá örófi alda og þegar þær líta yfir farinn veg eru það kunnugleg þemu um ástir, einsemd og glötuð tækifæri sem varða veginn – en um leið er kreppan skammt undan - sömuleiðis facebook, farsímar, tölvur og kvótakerfið. Tími og rúm eru teygjanleg hér. Sögunum vindur öllum fram á örfáum mínútum – meðan Kata kórstjóri hjólar gegnum þorpið á leið til þess að undirbúa tónleika kvöldsins sveimar vitund sögunnar milli þorpsbúa sem sumir ætla einmitt á tónleikana en aðrir hafa öðrum hnöppum að hneppa. Persónurnar fá mismikið pláss í sögunum – sumum kynnist maður bara rétt í svipinn eins og Ástu sem er gestkomandi í einu húsanna og situr hálf utanveltu í garðveislu því hún getur ekki hætt að hugsa um reimleika eða draum sem ásótti hana nóttina áður. Aðrir fá mun lengri tíma, eins og hjónin Anna og Jói og Sigga og Óli, en tilhugalífi þeirra og misdapurlegri framvindu hjónabandanna eru gerð nákvæm skil meðan Óli segir gamansögu af Dixibandi sem hann sá á youtube og síminn hringir í næsta herbergi.

Þótt Valeyrarvalsinn sé ekki fyndin á sama hátt og sumar aðrar bækur höfundar (eins og t.d. Mín káta angist sem mig minnir að ég hafi hlegið upphátt að hér um árið) þá lauma kómískar athugasemdir sér engu að síður milli örlagaþráða: „Jóa fannst það vel við hæfi að Helga tæki við fyrirtækinu þegar fram liðu stundir og ræki það eins og Lára amma hennar hafði gert, enda áttu þær það sameiginlegt að eiga duglausa eiginmenn, pabbi Jóa karlægur af drykkju áratugum saman en maður Helgu var snoppufríður knattspyrnumaður sem hafið sérhæft sig í því að detta rétt.“ (bls. 109-110)

Mikið hefur verið rætt um stílsnilld Guðmundar Andra og bókin er vissulega fallega skrifuð og sögurnar margar áhrifamiklar –en aðallega finnst mér þetta sérlega notaleg bók og ég sé alveg fram á að lesa hana aftur þegar fram líða stundir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli