3. febrúar 2012

Bókin sem breytti útgáfuheiminum

Rafbókavæðingin og það hvað hún getur þýtt fyrir bókaútgáfu hefur mikið verið rædd undanfarið. Sitt sýnist auðvitað hverjum, sumir fagna rafbókinni á meðan aðrir bölsótast og eru vissir um að hún muni ganga af forlögunum dauðum, Amazon muni erfa heiminn og allt fari til andskotans.

Amanda Hocking er nafn sem hefur verið áberandi í þessari umræðu, því hún hefur orðið einskonar tákn fyrir rafbókavæðinguna og öðruvísi útgáfulandslag.

Amanda Hocking
Amanda Hocking er tuttugu og sjö ára bandarískur rithöfundur sem skrifar yfirnáttúrulega rómansa (eða paranormal romance eins og það heitir upp á ensku). Hún hefur alltaf haft áhuga á bókmenntum og hún byrjaði mjög ung að skrifa. Hún fór fljótlega að leita sér að útgefanda en fékk neitun á neitun ofan. Þegar hún var komin með heilu skúffustæðurnar fullar af bókum og bókaflokkum og var orðin úrkula vonar um að fá útgáfusamning ákvað hún að taka málin í sínar hendur. Hún gaf bækurnar sjálf út á Amazon og verðlagði þær afar ódýrt. Ég held að fyrsta bók í seríu hafi kostað 99 sent og sú næsta 2.99 dollara. Þær seldust ekkert sérstaklega hratt í fyrstu, en Hocking dældi þeim á netið og forvitnir lesendur tóku við sér. Sex mánuðum síðar voru bækurnar hennar orðnar heitasta heitt á Amazon, hún var búin að græða sex þúsund dollara og gat hætt í vinnunni og einbeitt sér að ritstörfum. Og nú skilst mér að hún hafi selt 1,5 milljón bækur og grætt 2,5 milljónir dollara á þeim.

Forleggjarar, sem höfðu ekki sýnt henni áhuga áður, fóru að hafa samband við hana og hún þáði að lokum 2,1 milljóna dollara samning við St. Martins Press. Margir urðu hissa á að hún hefði gengið til liðs við forlag eftir að hafa gengið svona vel sjálfri, en hún sagðist vera orðin dauðþreytt á því að þurfa að gera allt sjálf. Hún kvartaði yfir því að hún ætti erfitt með að finna nógu gott frílansfólk, því bækurnar hennar voru oft morandi í villum, þrátt fyrir að hún hefði borgað fólki fyrir ritstjórn og prófarkalestur. Það fannst henni leiðinlegt, því lesendur ættu betra skilið. Hana langaði líka að bækurnar hennar væru til í bókabúðum og aðgengilegar fólki sem ætti ekki rafbókalesara.

Ég ákvað að tjékka á því hvort eitthvað væri í hana spunnið og keypti mér bókina Switched, fyrstu bókina í Trylle-trílógíunni (á kyndilinn, en ekki hvað), sem nú kostar reyndar 9 dollara en ekki lengur 99 sent, útgefin og yfirfarin af nýja forlaginu hennar og ódýra, upphaflega útgáfan löngu horfin af netinu.


Switched fjallar um stúlkuna Wendy. Hún er 17 ára og býr með bróður sínum og föðursystur, því pabbi hennar framdi sjálfsmorð þegar hún var lítil og þegar hún var sex ára sakaði mamma hennar hana um að vera skrímsli sem hafði komið í staðinn fyrir barnið sem hún eignaðist og reyndi að drepa hana með steikarhníf. Mamman var í kjölfarið lögð inn á geðveikrahæli og þrátt fyrir að bróðir hennar og frænka elski hana af öllu hjarta þá getur Wendy ekki varist þeirri tilfinningu að hún eigi ekki heima þarna í fjölskyldunni og að kannski hafi mamma hennar haft rétt fyrir sér.
Það kemur enda á daginn að Wendy kynnist Finn, afar myndarlegum strák sem segir henni að hún sé umskiptingur af tröllakyni og nú sé tímabært að snúa heim. Hann segir henni jafnframt að tröll séu ekki einsog hún haldi, heldur sé tröllakynið meira í ætt við álfa; fallegt fólk sem er í einstaklega góðum tengslum við náttúruna og kann að galdra. Wendy hikar en fer að lokum með honum, enda orðin bálskotin. Hún kynnist alvöru móður sinni sem reynist vera kuldaleg og ægifögur drottning tröllanna og Wendy kemst að því að hún er erfingi krúnunnar. Það er margt sem hún þarf að læra í þessum nýja heimi, hann er dularfullur og ýmsar ógnir steðja að, hún verður ástfangin, lendir í lífsháska og blablablabla.

Sagan er semsagt svolítið týpísk ástarsaga af prinsessu sem verður ástfangin af dularfullum manni af lægri stétt. Sögusviðið er samt ágætlega frumlegt, en fellur því miður eiginlega í skuggann af ófrumlegri og drepleiðinlegri ástarvellunni sem einhverra hluta vegna vakti engan áhuga hjá mér. Fyrir mína parta hefði barasta mátt sleppa rómansinum, mér fannst hann ótrúverðugur, klisjukenndur og leiðinlegur, en mig grunar samt að ástarsagan sé samt einmitt ástæðan fyrir því að bækur Hocking hafa verið svona vinsælar meðal unglingsstúlkna.

Samanburðurinn við Twilight er eiginlega óhjákvæmilegur, en Finn er enginn Edward Cullen (ég meina, hann glitrar ekki einusinni!) og í Twilight þá keypti ég það þó allavega að Bella væri skotin í Edward, þó hann hafi verið hálfgerður skíthæll við hana (sem er efni í aðra færslu, sem ég held að sé væntanleg frá Guðrún Elsu innan skamms). Wendy er samt skömminni skárri karakter en Bella, en mér finnst ég alltaf vera að kvarta yfir ósjálfstæði kvenpersóna (sérstaklega í barna- og unglingabókum), ég er orðin þreytt á því sjálf og ætla að hlífa okkur öllum við því núna.

Mér leiddist ekkert yfir lestrinum, þetta var alveg fínt léttmeti, en mér dettur ekki í hug að kaupa framhaldið á 9 dollara. En ef ég væri lasin eða þunn og þyrfti skyndibita fyrir sálina þá hefði ég hugsanlega keypt framhaldið á 2 dollara.

Og þó ég geti auðvitað alls ekki dæmt höfundarverk Hocking af einni bók þá grunar mig að galdurinn við hana hafi einmitt legið í því að hún seldi ódýra afþreyingu. Það verður að minnsta kosti spennandi að sjá hvort velgengnin haldi áfram eftir að hún er komin í mjúkan faðm útgáfurisa og bækurnar verða óhjákvæmilega dýrari.

En kannski er almennilegur ritstjóri bara akkúrat það sem hún þarf.

3 ummæli:

  1. Afskaplega athyglisvert! Ég hef ekkert lesið eftir þessa konu en fylgst með fréttum um hana eftir að ég einmitt las einhvern stuttan pistil á Guardian fyrir 1-2 árum, þar sem saga hennar sem sjálfsútgefanda var rakin og annars vegar bent á að hún væri dæmi um ófyrirsjáanlega, sjálfsprottna velgengni, en hins vegar að hún væri undantekningartilvik. Mig grunar einmitt það sem þú talar um, Hildur, að vinsældirnar hafi komið til af því að hún bauð upp á ódýra afþreyingu, umbúðalaust. Þá nálgast lesendahópurinn bækurnar hennar með allt öðrum formerkjum og allt aðrar væntingar í farteskinu. En ég skil hana svosem vel að hafa ekki nennt að standa í sjálfsútgáfunni lengur. Mjög athyglisvert allt saman!

    SvaraEyða
  2. Já, heyriði svo heldur hún úti bloggi líka!

    http://amandahocking.blogspot.com/

    SvaraEyða