Aftan á danska krimmanum Líf og limir eftir Elsebeth Egholm er vitnað í glimmrandi dóm úr Jydske Vestkysten og staðhæft að hér sé um að ræða „úthugsað og vel spunnið glæpamál í andstuttri frásögn...“ Ég á nú erfitt með að skrifa undir það – bæði var bókin nú ekki svo spennandi að maður héldi niðri í sér andanum og svo finnst mér hálf undarlegt að tala um að frásögn sé andstutt (það gengur kannski í dönsku og ensku (breathless) en hæpið í íslensku...En þar með hefur Molaskrifari lokið sér af og ég get farið að mæra bókina sem var bara nokkuð góð!
Líf og limir brýtur ekki neitt blað í skandinavísku reyfarahefðinni en hins vegar er hún ágætlega skrifuð og heldur athygli manns fyrirhafnarlítið. Þar segir frá blaðakonunni Dicte Svendsen sem hefur leyst ráðgátur í fleiri bókum Egholm með góðum árangri. Hún er ágætlega skrifuð persóna – á miðjum aldri, klár, stundum fífldjörf og óskynsöm (en ekki svo að maður kasti bókinni frá sér í hneykslun á heimsku hennar) og passlega ósamkvæm sjálfri sér. Einnig fylgjumst við með lögreglumanninum John Wagner en þau Svensen snúa bökum saman við lausn málsins. Eins og virðist vera mikil stemning fyrir í skandinavískum reyfurum þessa dagana (sjá umfjöllun mína um Ófreskju hér) þá stekkur vitund frásagnarinnar milli margra persóna og sýnir okkur þannig atburðina frá ýmsum sjónarhornum og segir ólíkar sögur sem virðast jafnvel í upphafi ekki hafa neina snertifleti en fléttast saman áður en yfir lýkur. En ólíkt í Ófreskju þá tekst ágætlega til með þessa aðferð hér – aðallega af því persónurnar eru ekki of keimlíkar og yfirleitt áhugaverðar. Hér er að vanda tekið fyrir siðferðislegt álitamál sem brennur á samfélaginu – að þessu sinni líffæragjafir og hversu langt er hægt að ganga í því að nýta líkama eins til að bjarga öðrum, Einnig er drepið niður fæti í kynþáttahatri og sadó/masó kynlífi auk hinnar sígildu peningagræðgi og afleiðingum hennar. En þótt slík málefni svífi yfir vötnum yfirgnæfa þau þó aldrei frásögnina heldur eru frekar haganlega ofin inn í hana. Bókin er ansi löng – tæpar fjögurhundruð síður sem hefði nú alveg mátt skera örlítið niður – hún er aldrei langdregin en stundum missa persónur sig í almennar vangaveltur um líf sitt og tilveru sem bæta voða litlu við frásögnina – sérstaklega þar sem stíll bókarinnar er ekki beinlínis neitt orðakonfekt þótt það sé ekkert út á hann að setja heldur. En það eru fáir reyfarar yfir fjögurhundruð síður sem ekki hefðu verið aðeins betri í þrjúhundruð og fimmtíu síðum (þar með taldar Millenium bækurnar sé ég hélt annars mikið uppá).
Fékk þessa gefins fyrir jól og hún hefur hangið hér uppi í hillu og beðið eftir að einhver nennti að lesa hana. Kannski kemst hún ofar á leslistann eftir þennan dóm. ;)
SvaraEyða