25. apríl 2012

Þar sem eru konur, þar eru karlar

Í síðustu viku kom út skáldsagan Korter, sem er fyrsta bók blaðakonunnar Sólveigar Jónsdóttur. Hún hefur vakið töluverða athygli og fengið lofsamlega dóma.

Bókin er kynnt til sögunnar sem skvísubók, en ég hef einmitt mikinn áhuga á, og ber nokkuð blendnar tilfininngar til, skvísubókaformsins. Einn af mínum uppáhaldsrithöfundum er flokkuð sem skvísubókahöfundur og margar skvísubækur eru alveg frábærar, en um leið set ég spurningarmerki við markaðssetninguna, einsleitar umbúðirnar sem þessar bækur eru oftar en ekki settar í og svo ég tali nú ekki um litavalið og myndmál á kápum (þið vitið, háir hælar, varalitir og martini-glös). Að sama skapi þá fer afskaplega í taugarnar á mér hversu margir líta niður á þetta bókmenntaform þar sem konur fjalla um raunveruleika kvenna.

Ég ákvað þess vegna að setja mig í samband við Sólveigu og fá að forvitnast svolítið um hana og nýútkomna bók hennar.

Hvað heitir þú fullu nafni, hvað ertu gömul og við hvað vinnurðu? 
Sólveig Jónsdóttir, er 29 ára og starfa sem blaðamaður.

Hefur þú lengi haft áhuga á skrifum? Þú hefur starfaði sem blaðamaður, en hefurðu skrifað mikið af skáldskap líka? 
Mér hefur þótt skemmtilegt að skrifa alveg frá því ég var í grunnskóla og hef skrifað töluvert af skáldskap þó svo að hann hafi að mestu verið fyrir skúffuna. Reyndar fékk framhaldssagan um einkaspæjarann Sly Cunningham að koma fyrir sjónir almennings þegar ég bjó úti í Edinborg.

Bókin er kynnt undir formerkjum "chick lit" eða skvísubókmennta. Nú hafa sumir skvísubókahöfundar (t.d. Marian Keyes) talað um að þeim sé ekki sérstaklega vel við skvísubókastimpilinn og segja hann raunar gera lítið úr áhugamálum og reynsluheimi kvenna (t.d. með því að nota styttinguna lit., sem gefi til kynna að þetta sé ekki alvöru litteratúr). Og að sama skapi sé gert lítið úr alvarlegum umfjöllunarefnum með því að skella varalit, hælaskóm eða bleikri kápu á bækurnar. Hvernig líður þér með "skvísubókastimpilinn"? 
Ég get að sumu leyti tekið undir þetta. Þetta hefur með þá tilhneigingu að gera að þurfa að setja bækur í flokka en bækur innan „skvísubókmenntaflokksins“ geta verið jafn misjafnar og þær eru margar, alveg eins og krimma-bækur eru ólíkar þó svo að þær eigi það sameiginlegt að snúast um glæpi. Konur sem hafa áhuga á pólitík, listum og menningu mega líka hafa áhuga á háum hælum og varalit án þess að það sé verið að gera lítið úr neinu af þessu. Bókin er fyrst og fremst saga um fólk þó svo að ég vissi að ég kæmi til með að eiga auðveldara með að setja mig inn í hugarheim kvenna en karla og þær séu því í forgrunni. En þar sem eru konur þar eru karlar, þar sem eru karlar eru konur og sagan er því fyrst og fremst um samskipti fólks.


Myndir þú segja að þú værir að skrifa inn í íslenska skvísubókahefð, eða er hún yfirhöfuð til hér í íslensku útgáfulandslagi? Hvernig myndir þú staðsetja þig og bókina í íslensku samhengi? 
Það var ekki meðvituð ákvörðun að skrifa bók sem ætti að flokkast sem skvísubók og falla í þann flokk. Ég hef ekki lesið þær bækur sem oftast eru nefndar sem íslenskar skvísubókmenntir sem þó vissulega virðast hafa skapað sér sess í hérlendri útgáfu þrátt fyrir að samanstanda ekki af mörgun verkum. Mér finnst kannski aðeins of snemmt að staðsetja mig í bókaheiminum þar sem bókin sem ég er að vinna að núna er töluvert öðruvísi en Korter.

Ég sá í viðtali að þú sagðir að bókin væri mikil Reykjavíkursaga og persónurnar lifðu og hrærðust í borginni. Við Druslubókadömur vorum einmitt að ræða það um daginn hvað borgin virðist oft vera mikil forsenda skvísubókmenntagreinarinnar og ein af okkur velti því upp hvort það væri hægt að skrifa skvísubók sem gerðist á Rifi. Heldur þú að það sé hægt, eða er neyslumenningin í borginni of miðlæg í bókmenntagreininni til þess að það gangi upp? 
Ég held að það sé ekkert því til fyrirstöðu að skrifa sögur um ungt fólk sem er að fóta sig í lífinu hvort sem það býr á Drangsnesi eða í New York. Þú getur verið eyðslukló á báðum stöðum eða þú getur verið að rembast við að ná endum saman. Borgin er ennþá svolítið „spennandi“, sérstaklega fyrir þá sem flytjast þangað eftir að hafa alist upp annars staðar á landinu, nokkuð sem ég þekki af eigin raun. Hver einasti maður þekkir þig ekki með nafni eða veit hverjir foreldrar þínir og systkini eru og hvað þú gerðir af þér á einhverju balli þegar þú varst 17 ára. Þrátt fyrir stærðina fer fólk að tengjast á beinan eða óbeinan hátt og það var svolítið út frá þeirri hugsun sem ég skrifaði bókina.

Var eitthvað í skriftar- eða útgáfuferlinu sem kom þér sérstaklega á óvart? 
Já, í útgáfuferlinu. Þar kom mér eiginlega allt á óvart. Ég vissi svosem ekki hvernig svona lagað gengi fyrir sig áður en ég hafði samband við Forlagið en svo fékk ég mjög góða hjálp frá þeim og lærði mikið. Það er nokkuð sem ég bý að við vinnsluna á næstu bók.

Nú ertu menntuð í sérstökum fræðum sem ekki margir Íslendingar hafa lagt fyrir sig. Geturðu sagt okkur aðeins frá náminu og hvernig það hefur haft áhrif á þig sem höfund, blaðamann eða manneskju? 
Ég lauk MSc í Nationalism Studies frá Edinborgarháskóla, sem snerist um þjóðernishyggju og þjóðernisátök. Þjóðernishyggja er magnað fyrirbæri. Hún stjórnast af svo stórum hluta af tilfinningum fólks og getur verið allt frá því að vera ljóðræn og rómantísk yfir í að orsaka hræðileg grimmdarverk. Eftir að hafa farið yfir helstu kenningar og fræðimenn greinarinnar sérhæfðum við okkur nokkuð snemma í náminu og ég horfði til þeirrar hliðar þjóðernishyggju sem verður ofbeldisfull og brýst út í þjóðernishreinsunum eða þjóðarmorðum. Ég skal viðurkenna að þetta var nokkuð átakanlegt námsefni. Í fyrra námi var ég yfirleitt með smá rútínu þar sem ég tók glósur eða greinar með mér upp í rúm áður en ég fór að sofa og renndi yfir þær fyrir næsta dag. Ég gat ekki gert það með þetta námsefni. En þetta málefni er nokkuð sem er svo þarft að kynna sér, hugsa um og vekja athygli á því ofbeldisfull átök undir formerkjum þjóðernishyggju koma upp aftur og aftur. Balkanskaginn er sérlega eldfimur þegar kemur að þessum málum og ég ákvað að fara til Bosníu núna í byrjun sumars til þess að sjá sjálf og skrifa um hvernig lífi fólkið lifir í dag. Mig langar að kanna hvort samfélagið hefur náð að gróa að einhverju leyti, og þá hvernig, eftir borgarastyrjöldina.

Lest þú mikið sjálf? 
Ekki nógu mikið en mig langar til þess að lesa óskaplega margar bækur. Ég er að vinna mig í gegnum listann, hægt og bítandi.

Hverjir eru uppáhaldshöfundarnir þínir eða uppáhaldsbækur? 
Mér finnst Nick Hornby mjög skemmtilegur, High Fidelity náði mér gjörsamlega. Bækur Ólafs Jóhanns Ólafssonar eru líka í miklu uppáhaldi, Sakleysingjarnir sérstaklega. The Stone Fields eftir Courtney Angela Brkic er líka ein af mínum eftirlætisbókum.

Ef þú mættir velja einn íslenskan rithöfund til þess að deila kampavínsflösku með, hvern myndir þú velja og hvers vegna? 
Af samtímafólki eru þeir nokkrir sem ég hefði mikinn áhuga á að sitja að nettu sumbli með og fá góð ráð hjá. Helst af öllu hefði ég samt viljað hafa haft tækifæri til þess að hitta Þórberg Þórðarson, með eða án kampavíns. Það er hægt að læra svo óendanlega mikið af hugmyndaríku, frumlegu og svolítið sérstöku fólki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli