26. apríl 2012

Jane Eyre í blómahafi? Onei!

Einu sinni bjó ég í næsta húsi við blokk með íbúðum fyrir eldri borgara úti á Granda. Veturinn sem ég bjó þar var ég ólétt, bíllaus og sjónvarpslaus, sem kallaði oft á að ég hreiðraði um mig með eitthvert léttmeti, bæði til að narta í og til að lesa. Því var einkar heppilegt að í elliblokkinni var bæði að finna litla verslun og útibú frá Borgarbókasafninu. Úrvalið á safninu samanstóð mikið til af ævisögum og þjóðlegum fróðleik, og svo auðvitað ástarsögum í röðum. Oft urðu því ástarsögur fyrir valinu hjá mér til lestrar þennan vetur og það verður að segjast eins og er að ég virðist hafa tekið út minn skammt af slíkum bókmenntum þetta ár; ég hef ekki nennt að lesa fjöldaframleiddar ástarsögur síðan. Það verður að hafa það ef einhverjum finnst ég snobbuð fyrir vikið en ég vil meina að í þessum flokki bókmennta eigi hver sagan það til að líkjast annarri og hafi maður lesið nokkrar verður nokkuð fyrirsjáanlegt eftir fyrstu blaðsíðurnar hvernig sögunni muni lykta. Sumar bækur eru skrifaðar eftir nokkuð einfaldri formúlu, persónurnar flatar og söguþráðurinn fyrirsjáanlegur og í þennan flokk set ég það sem er skilgreint sem ástarsögur. Þær geta vissulega haft prýðilegt afþreyingargildi fyrir þá sem smekk hafa fyrir þeim, og eru ekkert verri en hver önnur fánýt afþreying sem við stundum sjálfsagt flest á einn eða annan hátt, en sé maður í leit að einhverju sem segir manni eitthvað nýtt eða vekur mann til umhugsunar þá held ég að vænlegra sé að róa á önnur mið.


Ástæða þess að ég segi frá þessu er að ég á erfitt með að flokka Táknmál blómanna eftir Vanessu Diffenbaugh öðruvísi en sem ástarsögu af fyrrgreindri gerð. Bókin er nýkomin út í íslenskri þýðingu en kom út í Bandaríkjunum á síðasta ári undir heitinu The Language of Flowers. Hún hlaut umfjöllun í ekki ómerkari ritum en New York Times, The San Francisco Chronicle, The Wall Street JournalThe Washington Post,  The Independent og í National Public Radio. Dómarnir virðast flestir vera lofsamlegir og í San Francisco Chronicle er bókin meira að segja kölluð Jane Eyre ársins 2011. Gagnrýnandi Wall Street Journal nefnir reyndar að sagan sé fyrirsjáanleg og gagnrýnandi The Scotsman gefur ekki mikið fyrir söguþráðinn („the plot is cheese“) en að öðru leyti virðast báðir ánægðir með bókina.

Ekki geri ég ráð fyrir að ritdómarar þessara virðulegu fjölmiðla fjalli almennt um formúluframleiddar ástarsögur og því vekur lofið sem þessi bók hlýtur furðu mína. Það sem þykir merkilegast við bókina er að hún þykir gefa djúpa innsýn í líf fósturbarna, en höfundurinn hefur einmitt sjálf alið upp fósturbörn og lætur sér annt um hag barna sem eru í þeim sporum. Ég er ekki sannfærð. Bókin fjallar um Victoriu, sem hefur frá fæðingu verið skjólstæðingur ríkisins og flakkað milli fósturforeldra og barnaheimila þar sem hún hefur hlotið misjafna meðferð. Sagan hefst á 18 ára afmælisdegi hennar þegar hún verður lögráða, flytur út af síðasta barnaheimilinu og þarf að byrja að sjá fyrir sér sjálf. Victoria er full vantrausts bæði gagnvart öðru fólki og eigin hæfileikum til að mynda tengsl við annað fólk og það eina sem hún hefur lagt sig eftir að læra er táknmál blómanna frá Viktoríutímanum, þar sem fólk notaði hinar ýmsu blómategundir til að tjá tilfinningar sem ekki þótti viðeigandi að orða. Með kunnáttu sinni og hæfileikum í þessu blómatáknmáli verður Victoria, sem byrjar með tvær hendur tómar á götunni, fljótt umsetin af öllum ríkustu brúðhjónum á svæðinu sem vilja ólm fá hana til að sjá um skreytingar fyrir sig og hún nær endurfundum við fólk úr fortíð sinni. Með því að kunna þetta tilbúna viktoríanska blómatáknmál verður Victoria, 18 ára gömul og í vandræðum með að fóta sig í samskiptum við annað fólk, einnig helsti ráðgjafi fólks á miðjum aldri í samskiptum þess við ástvini sína. Við fáum að fylgjast með sálarhremmingum hennar gegnum bókina en allt fer vel að lokum og auðvitað finnur hún bæði ástina og eignast móður.

Ég veit ekki hvað öðrum finnst en dettur einhverjum í hug að þetta sé raunsönn lýsing á lífi 18 ára stelpu í San Francisco sem er tætt og margsvikin eftir líf sem fósturbarn, á engan að og hvergi höfði sínu að halla? Og hvað greinir þessa sögu frá formúlukenndri rauðri ástarsögu? Ég veit ekki betur en að munaðarleysingjar séu vinsæll efniviður í slíkum bókum.

Sem sagt finnst mér sagan bæði fyrirsjáanleg og ósannfærandi og persónurnar lítið spennandi. (Mikið óskaplega er hann eitthvað algóður og þolinmóður, ungi maðurinn sem söguhetjan kynnist.) Textinn og uppbygging sögunnar eru hins vegar ekkert slæm og sagan rennur þannig séð ágætlega áfram. Íslenska þýðingin er líka svo til hnökralaus þó að ég hafi reyndar hnotið um orðalagið „þú ert eina fjölskyldan sem ég á“ á einum stað, sem mér fannst hljóma helst til enskulega. Lýsingar á blómum og litum koma oft fyrir og eru prýðilegar og gæða frásögnina lífi. Satt að segja er ég á því að þessi saga gæti verið efni í fallega og hugljúfa bíómynd, fulla af blómum og fallegu fólki, því hún er mjög myndræn. En djúp er hún ekki og eiginlega hljóta einhverjir markaðssetningartöfrar að búa að baki því að hún hafi ekki verið gefin út sem sjoppukilja og að hún skuli hafa hlotið alla þessa athygli. Og ekki er þetta nein Jane Eyre.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli