9. apríl 2012

Gotlandsklám

Ég hef lengi haft þann sið að lesa glæpasögur frá viðkomandi landi þegar ég er á ferðalögum. Skemmtilegast af öllu er að lesa bók sem gerist akkúrat í þeirri borg eða á því svæði sem maður er staddur á en það er auðvitað ekki alltaf sem það tekst. Þannig hef ég lesið Elizabeth George í London, Ian Rankin í Edinborg og þegar ég dvaldi í viku í sumarhúsi á Gotlandi byrgði ég mig að sjálfsögðu upp af seríu Mari Jungstedt um lögregluparið Anders Knutas og Karin Jacobsson og blaðamanninn Johan Berg.

Mari Jungstedt á Gotlandi
Það er auðvitað ekki bara í mínum huga sem ferðamennska og bókmenntir eru tengd. Skáldskapur er almennt frábær leið til að kynnast framandi slóðum. En skáldskapur er líka frábær leið til að markaðssetja framandi slóðir – og framandi slóðir eru frábær leið til að markaðssetja bækur. Glæpasögur Mari Jungstedt eru gott dæmi um þetta. Sögurnar gerast sem sagt á Gotlandi, sænskri eyju í Eystrasaltinu. Þar sem eyjan er nokkuð afskekkt (þangað er um þriggja tíma sigling) hefur tungumál hennar, bygginarstíll, búskaparhættir og menning löngum þróast án stórkostlegra áhrifa frá meginlandinu. Á eynni má til að mynda finna bæði sérstakan fjárstofn og smáhestakyn, þar er töluð áberandi mállýska auk þess sem hvít steinhús leysa þar hin erkitýpísku falurauðu timburhús algjörlega af hólmi enda lítill skógur á eynni en undirlag hennar allt úr kalksteini. Gotland er líka ríkt af fornminjum og frægastur er varnarmúrinn sem umlykur gamla bæjarkjarnann í höfuðstaðnum Visby. Fólkið, náttúran og menning – allt hefur þetta löngum þótt meira „ekta“ en annars staðar í Svíþjóð og gott ef það var ekki ein af skýringum Ingmars Bergmans á óbilandi kærleika sínum til Fårö (sem er lítil eyja við suðausturströnd Gotlands, gjarnan talin einn afskekktasti hluti þess). Bergman er þó ekki sá eini sem hefur heillast af andrúmslofti eyjunnar því vinsældir hennar hafa farið stöðugt vaxandi undanfarna áratugi og í dag er hún jafnþekkt sem sumarparadís forríkra meginlandsbúa og fyrir menningarauðinn. Þessi nýja hlið Gotlands nær hámarki í svokallaðri Stokkhólmsviku en þá yfirtaka ofdekruð Östermalms-ungmenni Visby, dansa við europopp og „vaska“ kampavín (að vaska kampavín er einfaldlega að panta dýrustu kampavínsflöskuna sem skemmtistaðirnir bjóða upp á og biðja þjóninn að hella henni í vaskinn – allt eftir að sett var bann við að sprauta kampavíni yfir innréttingar og gesti á skemmtistöðum sem fram að því hafði verið helsta iðja sama hóps). Það er sem sagt sama út frá hvaða sjónarhorni Gotland er skoðað, það er kjörlendi markaðssetningar þar sem það er ekki bara framandi í augum umheimsins heldur líka þorra Svía.


Varnarmúrinn í Visby er frá 13. öld
Og þetta allt hefur Mari Jungstedt nýtt sér. Bækurnar hennar eru orðnar níu talsins og á afrekaskránni hingað til er meðal annars eitt morð í kalksteinsnámunum í Slite, eitt á náttúruverndarsvæðinu Gotska sandön, eitt í tengslum við listamannabústaðinn Villa Muramaris, eitt í samhengi við fornleifauppgröft og einn maður hangandi í snöru niður úr varnarmúrnum í Visby. Það er ekki bara að Gotlendingar virðist óvenjuútsettir fyrir voveiflegum dauðdögum heldur virðast þeir staðir þar sem útsýnið er stórbrotið eða rætur menningarinnar djúpar vera þeim sérstaklega hættulegir. Ef eitthvað er hafa þessir ferðamannavænu eiginleikar seríunnar stigmagnast í nýjust bókunum. Sú sjöunda gerist til dæmis á árlegri Bergmanviku á Fårö og persónurnar læðast í kringum leyndardómsfullt heimili hins nýlátna leikstjóra. Áttunda bókin gerist að mestu á glæsihótelinu Furillen sem er staðsett á samnefndum tanga á austurströnd Gotlands. Hótelið er í uppgerðu verksmiðjuhúsnæði og hefur verið til umfjöllunar í hverju glanstímaritinu á fætur öðru þar sem það er mært fyrir smekklegar og sérlega gotlenskar innréttingar og stemmningu. Ef heimasíða hótelsins er skoðuð er bók Jungstedt það fyrsta sem sést undir flipanum „press“. Og fyrst minnst er á gotlenska stemmningu og innréttingar þá er vert að nefna að Mari Jungstedt hefur stundum verið legið á hálsi fyrir að eyða of miklu púðri í að „gotlandsklæmast“, þ.e.a.s. að vera stöðugt að beina sjónum lesandans að því hvernig gæruskinni er slengt yfir sófa, að eldhúsbekkjum úr flauelsmjúkum kalksteini, þæfðri ull, keramikskálum eða öðrum ekta gotlenskum munum.

Tíunda bókin sem kemur út í maí
Þrátt fyrir gotlandsklámið eru þetta samt ágætisbækur. Morðgáturnar eru að vísu misspennandi, voru betri í fyrri bókunum en virðast hafa orðið þynnri eftir því sem herðist á auglýsingaróðrinum. En hversdagssagan sem er ofin með föstu persónunum er nokkuð vel heppnuð. Á meðan smábörn og uppeldi eru til dæmis áberandi hjá Camillu Läckberg virðist Mari Jungstedt höfða til aðeins þroskaðri lesendahóps með endurteknu stefi um freistingar utan hjónabands og framhjáhöld. Margt er þar vel heppnað og henni tekst að koma sálarangist, samviskubiti og öðrum erfiðum tilfinningum til skila án þess að mála þessi umfjöllunarefni eingöngu í svörtu og hvítu. Ef miðað er við velgengni Camillu Läckberg til dæmis finnst mér oft undarlegt hvað Mari Jungstedt hefur verið lítið áberandi á alþjóðlegum markaði þrátt fyrir að vera að minnsta kosti í sama gæðaflokki. Að vísu hafa verið gerðar þýskar sjónvarpsmyndir eftir bókaflokknum þar sem okkar eigin Sólveig Arnarsdóttir fer meira að segja með eitt aðalhlutverkanna. En enn hefur ekki verið sótt á Íslandsmið, hvað þá Bandaríkjamarkað hvar Läckberg hefur til dæmis verið að gera það gott að undanförnu. Nei, maður spyr sig hvort gæruskinn og þæfð ull séu kannski ekki alveg eins heit söluvara og Mari Jungstedt og túristamiðstöðvarnar á Gotlandi virðast trúa.

Hvað um það, ég var rétt í þessu að sjá á heimasíðu Mari Jungstedt að tíunda bókin er væntanleg í maí. Bókin heitir Den sista akten (Síðasti þátturinn) og á kápunni má sjá líflausan líkama liggja undir rómverskum súlum. Án þess að hafa nokkrar frekari upplýsingar þori ég að veðja að hún fjallar um morð í Romaleikhúsinu, útileikhúsi í gömlum klausturrústum rétt fyrir utan bæinn Roma þar sem um árabil hefur sýnt eitt Shakespearverk á hverju sumri. Það væri alla vega gott klám.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli