8. apríl 2012

Lífsins metafórur

Tíðahvörf – nýr kafli í lífi konunnar hefst.
Í bók sinni, Metaphors We Live By, fjalla George Lakoff og Mark Johnson um líkingar; um það hvernig líkingar gegnsýra alla skynjun okkar og skilning á heiminum. Metafórur eru því ekki bara eitthvað sem skáld, stjórnmálamenn og sérvitringar nota, heldur notum við þær öll en erum yfirleitt alls ekki meðvituð um það. Þeir Lakoff og Johnson greina ólíkar tegundir líkinga, en þær eiga það þó sammerkt að vera aðferð til að skilja eitt fyrirbæri í ljósi annars – til dæmis hugsum við oft um deilur eins og stríð, tímann sem fyrirbæri á hreyfingu, ást eins og sjúkdóm, lífið eins og sögu, ástarsambönd eins og ferðalög, og svo framvegis og svo framvegis. Það hvernig við hugsum hefur áhrif á gjörðir okkar og tungumálið (og öfugt).

Það er gaman að myndagúgla.
Bókin kom fyrst út árið 1980. Síðan
þá hafa þeir L&J skrifað mjög mikið
annað um metafórur.
Eitt einkenni líkinga er að eitthvað áþreifanlegt er notað til að varpa ljósi á eitthvað óhlutbundið. Hið óáþreifanlega er afmarkað með líkingu, eins og til að negla það niður og gera það viðráðanlegra. Í dag sagði ég til dæmis vini mínum að ég vildi koma frá mér hugsunum mínum um Metaphors We Live By, en þá talaði ég eins og þessar hugsanir væru áþreifanlegar og ég vildi ýta þeim frá mér eins og bók sem ég nenni ekki að lesa lengur eða tómum kaffibolla. Mér leið eins og ég gæti fært hugsanirnar í orð (sem stæðu þá á blaði full af merkingu, eins og bollinn stendur á borðinu þegar ég helli í hann kaffi) og þið gætuð drukkið merkinguna í ykkur, innbyrt hana. Ef við lítum algjörlega hlutlaust á kaffibollann og orðin (yeah right, eins og við getum það eitthvað) þá er kannski ekkert líkt með þessu tvennu – ég sé samt hliðstæðu, hún verður til í skilningi mínum á þessum fyrirbærum. Hliðstæður einkenna þankagang okkar, þess vegna er okkur tamt að hugsa í líkingum.

Það væri fáránlegt að reyna að gera bókinni almennileg skil í stuttri bloggfærslu, en mér finnst gaman að velta því fyrir mér hvaða áhrif hún hafði á mig á meðan á lestrinum stóð. Fyrir utan það að maður verður afskaplega meðvitaður um líkingar sem fólkið í kringum mann notar (ein vinkona mín sem hefur gaman af tölvuleikjum talaði t.d. um að komast í næsta borð og að vinna endakallinn þegar hún var að skýra fyrir mér hvernig háskólakennari fengi prófessorsstöðu), þá varð ég oft mjög æst á meðan ég las. Mér leið eins og ég hefði uppgötvað stórkostlegt leyndarmál og skildi allt í einu heiminn, en á sama tíma fannst mér þetta allt algjörlega augljóst. Þetta er áhugavert og beisikk á sama tíma. Það er bara svo mikið af skemmtilegum sannleiksmolum þarna, krakkar. Hafið þið til dæmis pælt í því að við hugsum bæði um framtíðina sem eitthvað sem er fyrir framan okkur og sem eitthvað sem kemur á eftir (eitthvað sem fylgir því sem er að gerast núna og gerðist fortíðinni)?! Og að það getur haft slæmar afleiðingar á ástarsamband ef aðilar þess hugsa það út frá ólíkum metafórum, ef annar aðilinn lítur til dæmis á það sem afdrep – skjól í stormi lífsins! – en hinn lítur á ástina sína sem stoð og styttu, félaga í lífsins ólgusjó... Það sem er þó áhugaverðast við líkingar er að þær geta mótað hugsun okkar og skoðanir, þær draga athygli okkar að ákveðnum hliðum fyrirbæra en gera lítið úr öðrum. Það hvernig hlutirnir eru orðaðir og hvernig hugtök eru notuð hefur veruleg áhrif, til dæmis í stjórnmálum. Ég skil ykkur því eftir með myndband Georg Lakoff að tala um muninn á því hvernig frjálslyndir og íhaldsmenn hugsa, það er skemmtilegt.

5 ummæli:

  1. Þetta fannst mér áhugaverð og skemmtileg grein og ég hlustaði á allt erindi Lakoffs. Veit ekki hvort ég nenni að lesa þessa bók samt. Stemmir við minn litla hugarheim að mannfólk sé gangandi klisjur, og sumir gargandi klisjur.

    En rósamyndin sem flimrar er ógeðsleg.

    SvaraEyða
  2. Já, þetta er gott. Bæði blóm og Lakoff.

    SvaraEyða
  3. Elísabet: Það þarf heldur ekkert að lesa alla bókina, en það er mjög gaman að glugga í hana. Ég varð bara að klára hana, ég er svo þrjósk að þegar ég er búin með ca. 30% af einhverri bók þá má ég ekki hætta fyrr en á síðustu síðu.

    SvaraEyða
  4. Nú langar mig smá að gerast aftur félagsmálfræðingur og lesa aftur Lakoff.

    SvaraEyða