12. apríl 2012

Hinn víðlesni maður og viðfang hans

Kápan á útgáfunni minni á Lolitu.
Þetta er sannarlega ekki það versta sem
kemur upp þegar maður myndagúglar titilinn.
Fyrir stuttu komst það í fréttir að roskinn íslenskur embættismaður hefði fyrir mörgum árum, meðan hann var sendiherra í Bandaríkjunum, skrifað ungri frænku eiginkonu sinnar kynferðisleg bréf, á bréfsefni sendiráðsins. Í einu bréfanna líkir hann sjálfum sér við hreðjamikinn „Satýrikon“ og á þar væntanlega við satýr, vætt úr grískri goðafræði. Með þessum bréfasendingum fylgdi erótíska skáldsagan In Praise of the Stepmother (Elogio de la madrastra) eftir perúska rithöfundinn Mario Vargas Llosa, en í afsökunarbeiðni sem bréfritari sendi frá sér eftir að málið komst í hámæli tekur hann sérstaklega fram að Vargas Llosa hafi fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Yfirskrift afsökunarbeiðnarinnar var á latínu („Mala domestica“ - heimilisböl). Annars staðar kemur fram að bréfritari hafi meðal annars verið „undir áhrifum af bókinni“ þegar hann skrifaði bréfin, en hún „sé listaverk“. Okkur er gert ljóst að hér er ekki um neinn hversdagslegan klámhund að ræða, heldur virtan og víðlesinn mann – diplómatabréfsefni, latínuslettur, vísanir í gríska goðafræði, skáldsaga eftir Nóbelsverðlaunahafa.

Ég er yfirleitt ekki vön að lesa skáldsögur oftar en einu sinni, en fyrir stuttu byrjaði ég aftur á skáldsögu sem ég hafði lesið áður og sem mér varð oftar en einu sinni hugsað til meðan þetta mál var til umfjöllunar í fjölmiðlum; Lolitu eftir Vladimir Nabokov. (Það var viðeigandi að hún yrði fyrir valinu til endurlesturs, því eins og kemur rækilega fram í þessum pistli Erlu var Nabokov mjög harður stuðningsmaður þess að bækur væru lesnar oftar en einu sinni.) Lolita olli töluverðu uppþoti þegar hún kom út á 6. áratug 20. aldar en hefur síðan hlotið öruggan sess í bókmenntakanónunni og í menningarlegu samhengi almennt. Þó er í rauninni erfitt að tala um ríkjandi afstöðu til Lolitu; þetta er bók sem hefur ákveðna tilhneigingu til að smjúga manni úr greipum og enn eru skiptar skoðanir um ágæti hennar, auk þess sem forsendurnar fyrir neikvæðri eða jákvæðri afstöðu fólks til bókarinnar geta verið gjörólíkar.

Sögumaður Lolitu er evrópski bókmenntafræðingurinn Humbert Humbert. Hann situr í bandarísku fangelsi og sagan er játning hans eða málsvörn, eftir því hvernig maður kýs að líta á það. Humbert er haldinn barnagirnd og laðast sérstaklega að stúlkum á aldrinum níu til fjórtán ára (ekki „frá tólf og niðrí átta“ eins og annar söng). Þessi hneigð hefur mjög sett mark sitt á líf hans. Meðan Humbert bjó í Evrópu gerði hann tilraun til að lifa hefðbundnu fjölskyldulífi og gifti sig, en þegar konan hans tók saman við annan mann söðlaði hann um og fór til Bandaríkjanna. Þar kynnist hann fyrir tilviljun konu að nafni Charlotte Haze og tólf ára dóttur hennar Dolores – Lolitu, sem hann verður heillaður af, svo vægt sé til orða tekið. Til að tryggja sér greiðan aðgang að Lolitu giftist Humbert móður hennar, og þegar sú síðarnefnda deyr í bílslysi grípur hann tækifærið og leggur af stað með stúlkuna í stefnulaust ferðalag um Bandaríkin þver og endilöng. Hún er algjörlega á hans valdi og hann misnotar hana stöðugt. Eftir mikið flakk setjast þau að í bæ þar sem Lolita fer í skóla, og þar tekst henni loks að skapa sér rými til að komast undan ægivaldi Humberts.

Það er lýsandi fyrir þá einkennilegu stöðu sem bókin hefur í vestrænni menningu að „Lolita“ – nafn tólf ára gamallar sögupersónu sem lendir í því að missa móður sína og verða í framhaldinu kynlífsþræll miðaldra stjúpföður síns – er oft notað í einhverri merkingu á borð við „kynferðislegar ungar stúlkur sem tæla til sín eldri menn“. Humbert Humbert er lymskulegur sögumaður með umtalsverðan sjarma, húmor og ljóðræna frásagnarhæfileika. Hann er rétt nógu sjálfsásakandi til að það fullkomni hina einlægu játningu hans á eigin breyskleika og mistökum. Nabokov stráir nægum vísbendingum í frásögnina um athæfi Humberts og raunverulega líðan Lolitu til að það fari ekki framhjá sæmilega meðvituðum lesanda að maðurinn er ótvíræður glæpamaður, en þó virðist sem sjálfsréttlætandi hvolpaaugu Humberts nái enn að sannfæra marga lesendur, gera iðrandi fórnarlamb úr honum en tólf ára tálkvendi úr Lolitu. Það sem er óhugnanlegt við þennan leik Nabokovs er auðvitað að hann skrifar inn í menningu sem er meira en tilbúin til að samþykkja hugmyndir Humberts um hið lævísa kynferðislega vald konunnar og varnarleysi karlmannsins andspænis því – jafnvel þótt viðkomandi kona sé varla komin á kynþroskaaldurinn og karlmaðurinn harðfullorðinn. Til dæmis sagði kanadíski rithöfundurinn Robertson Davies í alræmdri grein árið 1959 að Lolita snerist um „not the corruption of an innocent child by a cunning adult, but the exploitation of a weak adult by a corrupt child.”

Þrátt fyrir að þetta viðhorf virðist enn tíðkast má vera nokkuð ljóst af textanum að Nabokov heldur öruggri fjarlægð milli sín og Humberts þegar kemur að framkomu þess síðarnefnda gagnvart Lolitu. Humbert „misstígur“ sig reglulega í frásögninni og við sjáum skýrt hin raunverulegu valdahlutföll í samskiptum þeirra; hvernig hún er bara krakki sem fyrir djöfullega tilviljun lendir í klónum á Humbert og þráhyggju hans, hvernig henni finnst þetta fyrst dálítið spennandi, áður en allur hinn skelfilegi sannleikur málsins kemur í ljós, og hvernig hún beitir síðan öllum brögðum til að lifa af við mannskemmandi aðstæður. Textinn er oft fyndinn – kímnigáfan er hluti af úrkynjuðum persónutöfrum sögumannsins – en í grunninn er bókin tragedía.

Stúlkan Lolita er algjört viðfang sögumannsins. Það er ekki einungis líkami hennar sem Humbert hefur á valdi sínu og fer með eins og honum hentar heldur talar hann líka niður til hennar sem manneskju. Það sýnir aftur hversu sjúk afstaða hans til hennar er; hún er bara grunnskólakrakki, en hann nýtur þess samt að gnæfa yfir hana vitsmunalega á sama hátt og hann hæddist að tilgerðarlegri og vankunnandi frönskunotkun móður hennar, Charlotte. Humbert er holdgervingur hins menntaða Evrópumanns; slettir frönsku, beitir hálærðum bókmenntatilvísunum og fellir harða dóma um smekkleysi og neysluhyggju hins ameríska almúga: Lolitu. Hún hefur gaman af glingri, Hollywoodmyndum, fötum, sælgæti, innihaldslausu djönki. Humbert tekur þátt í þessari neyslumenningu þegar hann kaupir hlýðni Lolitu með kjólum og nammi, en lætur það ekki stöðva sig í löngum, íronískum einræðum um grunnhyggni bandarísks samfélags og stúlkubarna þess. Hefði Lolita verið skrifuð nokkrum árum síðar hefði titilpersónan eflaust dregið kvalara sinn með sér í Disneyland og hann gengið þar um í lærðu ofurraunveruleikarúsi meðan hið kynferðislega viðfang færi nokkra hringi í Mikka mús-hringekjunni í skiptum fyrir tott um kvöldið.

Humbert Humbert setur ást sína á Lolitu, sem og allt sitt líf, ávallt í samhengi við sögu menningar og fagurra lista. Frásögnin er svo hlaðin af bókmenntalegum tilvísunum að íslenskur meðallesandi árið 2012 áttar sig ekki á nema brotabroti af þeim. Hann neimdroppar. Hann spinnur ljóðrænan texta. Hann fitjar upp á nefið yfir lágkúrulegum hvötum og einfeldni annarra. Hann er, augljóslega, hokinn af menningarlegu auðmagni. Hann réttlætir ofbeldið sem hann beitir Lolitu með eigin góða smekk; fegrar það, í bókstaflegri merkingu. Hann er nefnilega ekki neinn hversdagslegur klámhundur, heldur virtur og víðlesinn maður (og mun djöfullegri en svo að hann hefði látið hanka sig á þessu með satýrinn).

Eins og önnur viðföng ástar og girndar virtra og víðlesinna manna er stúlkan Lolita svo að segja algjörlega raddlaus persóna í bókinni sem ber nafn hennar (eða réttara sagt það nafn sem Humbert Humbert gaf henni; upphaflega heitir hún Dolores, það má nú lesa vísanir út úr því). Fleiri en einn rithöfundur hafa síðar tekið sig til og ljáð Lolitu rödd með því að skrifa söguna upp á nýtt frá hennar sjónarhorni, til dæmis Emily Prager með skáldsögunni Roger Fishbite. Ég hef ekki lesið neina af þessum bókum en höfundarnir fá kredit fyrir hugrekki – hið menningarlega auðmagn Vladimirs Nabokov er ekkert sem maður leikur sér að því að skora á hólm.

Það kemur skýrt fram í bókinni að sögupersónan Lolita er algjörlega á líkamlegu og frásagnarlegu valdi hins mikla fagurkera og barnaníðings Humberts Humbert. Valdahlutföllin milli Lolitu, hins raunverulega, menntaða evrópska sögumanns, Vladimirs Nabokov, og þeirra lesenda sem bókin var skrifuð fyrir, koma hins vegar ágætlega í ljós í þessu myndbandi. Hér ræða þrír reykjandi karlmenn um hið raunverulega eðli sambands Lolitu og Humberts, og sitthvað fleira.

32 ummæli:

  1. Frábær grein! Þegar ég loksins druslaðist til að lesa Lolitu fyrir einhverjum árum var það einmitt algjör opinberun að uppgötva að bók sem hefur verið notuð sem einhvers konar flatterandi spegill á "sambönd" miðaldra barnagirndarkarla og ungra stúlkna (lesist: misnotkun og valdbeiting) er í raun frásögn af firringu slíks karls. Skólabókardæmi um hinn ótraustverðuga sögumann. Og Humbert Humbert leynist sannarlega víða.

    SvaraEyða
  2. Frábær grein! Ég hef lesið Lolitu tvisvar og á örugglega eftir að gera það aftur. Mér finnst hins vegar alltaf skrítið að gera kvikmyndir eftir bókinni því í þeim tveimur sem ég hef séð er Lolita alltaf gerð tælandi - áhorfandinn sér hana með augum Humberts og hann sem óáreiðanlegur sögumaður hættir eiginlega að vera til...myndirnar voru um margt fínar en ég sé ekki hvernig hægt er að koma þessari tvöfeldni til skila á tjaldinu...

    SvaraEyða
  3. Haldiði nokkuð að Nabokov sé að móralisera?

    SvaraEyða
  4. Til að bæta aðeins við umræðuna þá eru hér tveir linkar á síður sem fjalla um kápuhönnunina á bókinni.

    http://www.dezimmer.net/Covering%20Lolita/LoCov.html
    Þetta er safn af nánast öllum kápum sem hafa verið gerðar fyrir bókina og hér má greinilega sjá hvernig Lolita er sýnd sem tálkvendi eða jafnvel verra. Þetta varð sérstaklega áberandi á sjöunda áratugnum.

    http://imprint.printmag.com/illustration/recovering-lolita/
    Þetta er síðan grein um prójekt þar sem ýmsir hönnuðir reyndu að koma með nýstárlegar tillögur að kápuhönnun fyrir bókina. Spurning hvað fólki finnist um þessar tillögur?

    SvaraEyða
  5. Takk fyrir áhugaverða hlekki, Svanur! Athyglisverður flötur á Lolitu-ímyndinni.

    Og eins og Maríanna bendir á þá flaska kvikmyndaútgáfurnar á því að í bókinni er það rödd sögumannsins og hans sjónarhorn sem við áttum okkur smám saman á því hvað er brenglað; maður fattar (vonandi) að maður er að lesa ótrúlega twisted útgáfu af raunveruleikanum og að upplifun er alltaf huglæg. Það verður að grilla í eitthvað miklu óþægilegra á bak við frásögnina hans Humberts Humberts, sem gerist sérstaklega í seinasta þriðjungi bókarinnar. Ég veit ekki hvernig væri hægt að koma því til skila í kvikmyndarformi, það væri a.m.k. miklu erfiðara, en það væri sennilega hægt með einhverjum trixum.

    Salka

    SvaraEyða
  6. Kristinn segir:

    Ég er dálítið hissa á festunni í umræðunni hér. Ég er sammála því að Lolíta hafi verið allt of mikið tálkvendi í Jeremy Irons myndinni, en það eru samt margir punktar í bókinni sem benda til þess að hún hafi verið dálítið bráðþroska kynferðislega. T.d. átti hún að hafa stundað kynlíf í heimavistarskólanum 12 ára gömul og var því ekki óspjölluð þegar Humbert fékk loks vilja sínum framgengt.

    Ég fæ ekki betur séð en að maður þurfi að gefa sér t.d. að kynlíf hennar í heimavistarskólanum sé uppspuni til að það gangi upp að hafna svona algerlega tálkvendis-vinklinum - þótt það megi nú á milli vera hversu daðurgjörn hún á að vera.

    Auðvitað segir atvikið í skólanum okkur þó ekki bókstaflega að hún hafi að einhverju marki verið tálkvendi, en það bendir til þess að hafa eigi í huga stúlku sem hafi þá skapgerð að vera mjög ung farin að stunda kynlíf. Nema eins og áður segir að það sé álitið vera blekking Humberts.

    Samskipti þeirra í blálokin þykja mér þó ekki benda til þess að hann sé að skálda atburðarásina, heldur bara með fáránlega rósrauða sýn á hana.

    Að lokum þykir mér samtal karlanna þriggja í vídeóklippunni ekki gefa tilefni til að ætla að ekkert sé að marka lýsingar Humberts, og sagan því sumpart um hvað tilveran getur verið twisted en ekki bara um hvað sýn hans á tilveruna er twisted.

    SvaraEyða
  7. Takk fyrir þessa tengla, Svanur, það er gaman að skoða þetta.

    Kristinn: Ég skil ekki alveg af hverju þér finnst það skipta máli þótt Lolita hafi verið bráðþroska kynferðislega, og mér finnst mjög einkennilegt að kalla tólf ára gamla stúlku tálkvendi þótt hún sé byrjuð að stunda kynlíf.

    SvaraEyða
  8. Kristinn: Ég skil ekki hvað felst í þeirri "skapgerð að vera mjög ung farin að stunda kynlíf" og hvort það hefur eitthvað með það að gera að vera tálkvendi. Það að hafa hugsanlega girnst og sofið hjá jafnaldra sínum þegar maður er 12 ára er töluvert langt frá því að girnast og vilja sofa hjá skvapholda manni á miðjum aldri sem gegnir í raun hlutverki fangavarðar þíns.

    Eða áttu við að eftir að stelpa missir meydóminn þá geti hún ekki lengur verið misnotuð?

    SvaraEyða
  9. Sæl Kristín og takk fyrir svarið.

    Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort þú sért haldin svo miklum vilja til að sjá hana ekki sem einhverskonar tálkvendi að sá möguleiki komi ekki til greina fyrir þér.

    Auðvitað er ég ekki að segja neitt eins frámunalega heimskulegt eins og að það sé ekki hægt að misnota stúlku sem ekki er óspjölluð. Ég er bara að benda á að stúlkan hafi verið óvenju lítið kynferðislega saklaus alveg óháð Humbert sem passar vel við þá hugmynd að hún hafi að einhverju marki GETA verið dálítð daðurgjörn og meðvitað eða ómeðvitað með kynferðislega hegðun.

    Ég er vitaskuld algerlega sammála því að það eigi almennt ekki að tala um litlar stelur sem annað en litlar stelpur, en bókin fjallar jú um þann siðferðilega árekstur og höfundur lýsir henni sem óvenjulegri týpu sem mögulega daðraði hreinlega við hann og var þannig dálítið tálkvendi í einhverjum skilningi.

    Spurning mín er: ef hún einfaldlega var tálkvendi, ætlum við þá samt að útiloka þann möguleika af því að hann ertir siðgæðishugmyndir okkar?

    Erum við ekki frekar hallærislegir bókarýnar ef við útilokum þann möguleika - og er ég þá heldur ekki útiloka þína túlkun, nota bene.

    SvaraEyða
  10. Mín skoðun er sú að túlkunin - í þessari frábærlega skrifuðu grein - standist ekki og gæti varla staðist nema ef Nabokov væri móralisti, sem hann var ekki. Bókin er brútal. Allar túlkanir hafa tilhneigingu til að dúða brútalítetið sagði mæt manneskja. Sögumaður er að minni hyggju hvorki með öllu sjálfsafhjúpandi né heldur eru dregnar fram skýrar línur um valdaveikleika Lolitu. Kveðja, Hermann

    SvaraEyða
  11. Nja, ég get nú ekki sett samasemmerki á milli þess að Nabokov sé að móralísera og að hann sé að fjalla um eitthvað ljótt og óþægilegt. Það er enginn að halda því fram að Lolita sé einhvers konar varnaðarrit gegn barnagirnd, en réttlætingin á gjörðum Humberts Humberts er ekki sett fram sem skothelt og trúverðugt argjúment heldur afhjúpar frásögnin hvað eftir annað ótrúverðugleikann í túlkun hans.

    Salka

    SvaraEyða
  12. Ég skal eiga þrettándu athugasemd föstudaginn þrettánda. Þetta er að mínu viti eiginlega varnarrit af því óþægilega tagi sem er ekki eiginleg vörn heldur tilraun til að sletta drullunni á alla aðra en sjálfan sig. Lesandinn spennir auðvitað upp regnhlíf en af því að bókin er vel heppnuð þá kemur samt á hann drulla. Annars væri bókin ekki heppnuð. Það er nú svo. Um þetta má deila endalaust. Kveðja, Hermann

    SvaraEyða
  13. Takk aftur fyrir gott bókablogg (og fyrir að gefa mér þessa bók á þarsíðustu jólum!). Mér finnst túlkun þín mjög sannfærandi, að minnsta kosti upplifði ég textann á svipaðan hátt.

    Mér finnst myndbandið annars ótrúlega skemmtilegt, ég veit ekki hvort ég get nokkurn tímann lesið Nabokov aftur án þess að heyra þessa hljómmiklu rödd hans í hausnum á mér!

    SvaraEyða
  14. Frábær grein og frábær síða, ég hafði ekki hugmynd um hana. Ég á eftir að fylgjast með hér. Kv., Ása Sigurlaug Harðardóttir

    SvaraEyða
  15. Ég held að Hermann hafi skilið bókina eins og ég gerði framan af. Í alvöru, framan af var maður alveg samsekur með gaurnum, en svo allt í einu kom eitthvað sem setti mann aftur á réttan stað. Ég man alveg hvernig ég upplifði það, sat í strætó og leið eins og bjána. Móralisti, Nabokov? Já, ég held að hann hafi verið að sýna fram á að gamlir karlar eiga ekkert með að eiga í „ástarsambandi“ við litlar stelpur.

    SvaraEyða
  16. Já, ég hef verið á eitthvað svipuðum slóðum og þú, Kristín, en þarf að lesa bókina aftur. Eins og ég man það var það óþægilega við hana einmitt að hún sýndi ekki (eða allavega ekki nógu skýrt) fram á að gamlir karlar eiga ekkert með að eiga í „ástarsambandi“ við litlar stelpur, þótt maður hinsvegar viti upp á hár að þannig er það, gamlir karlar eiga nákvæmlega ekkert með að eiga í „ástarsambandi“ við litlar stelpur. Ég þyrfti að skoða þetta eitthvað betur og endurlesa ef það ætti að vera einhver vitræn samræða af minni hálfu. Llosa bókina hef ég svo ekki lesið og væri gaman ef Kristín Svava þekkir hana og getur sagt frá henni. Að mínu viti væri ágætt að taka bara þann höfund sem mest úr þessu samhengi og standa fast á því að Llosa sé fyrst og síðast góður skáldsagnahöfundur sem getur ekki gert að því hvað gerist í heiminum. Stjórnmálamenn eiga ekki bókmenntir. HS

    SvaraEyða
  17. Allar tilvitnanir í Nabokov um Lolitu sem ég hef lesið ganga út á að hann sé ekki að móralísera, að það séu engin siðferðisleg skilaboð í bókinni. Með því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum í þessum pistli er ég auðvitað ekki síður að leggja áherslu á mína eigin afstöðu en Nabokovs, en eins og athugasemdir Kristins sýna er ekki vanþörf á því. Ég ítreka líka það sem ég segi í greininni; þær vísbendingar sem Nabokov stráir í frásögnina eru frekar afgerandi.

    En bókin er alls ekki ópróblematísk og ég er sammála því að það væri einföldun að taka Nabokov bara sem hinum fjarlæga höfundi sem dundar sig við að afhjúpa barnaperrann Humbert. Eins og ég gef í skyn - eða vildi gefa í skyn - í síðustu efnisgreinunum þá renna þeir stundum saman, þessir evrópsku menntamenn, Nabokov og Humbert, og það er ekki hægt að líta framhjá þeirri karlamenningu sem bókin er skrifuð í og inn í.

    Bók Llosa hef ég ekki lesið og veit ekkert um hana; það var fyrst og fremst það hvernig Jón Baldvin beitti henni fyrir sig sem vakti áhuga minn.

    SvaraEyða
  18. Ég bæti kannski við þeirri spurningu hversu miklu máli opinber afstaða höfundarins hefur (eða á að hafa) á lestur manns sjálfs á bók, og tengi á grein Sigfríðar um Doris Lessing: http://bokvit.blogspot.pt/2012/04/doris-lessing-og-feministarnir-ea.html

    SvaraEyða
  19. Hvað sýna athugasemdir Kristins, Kristín Svava?

    Það fer einmitt eftir túlkun hvort þú sér að kalla hlutina sínum "réttu" nöfnum. Auðvitað er Humbert níðingur og glæpamaður - það er gefið, en það eru lagaleg og siðferðileg sjónarmið. Ef eitthvað er að marka frásögnina er hann líka ýmislegt annað, og þau bæði gagnvart hvoru öðru sem er illa lýst með þeirri smættun.

    Það má þó vera að það sé rétt túlkun að allt annað sé ímyndun Humberts. En sú túlkun þykir mér alls ekki blasa við nema að litlu leyti. Mér finnst því áhugavert að stokkið sé á hana af svona mikilli ákveðni - að því gefnu að ég sé ekki að oftúlka þig.

    SvaraEyða
  20. Athugasemdir Kristins sýna að enn eru til karlar sem finnst alveg sjálfsagt að líta á 12 ára stelpu sem tálkvendi. Það er frekar óhugnanlegt.
    Og já, ég er harðákveðin í að hafa þessa bók með mér í sumarfríið. Og takk kærlega nafna, fyrir frábæran pistil.

    SvaraEyða
  21. Þessu fyrra svaraði Kristín fyrir mig, takk.

    Svo segir: "Ef eitthvað er að marka frásögnina er hann líka ýmislegt annað, og þau bæði gagnvart hvoru öðru sem er illa lýst með þeirri smættun." Ég neita því að það sé smættun á efni bókarinnar að líta svo á að Humbert Humbert hafi verið jafn mikill barnaníðingur og aðrir sem misnota tólf ára gamla krakka, jafnvel þótt hann hafi ýmislegt annað til síns ágætis. Fyrst þú setur þetta svona upp - við vitum alveg hvað Lolita er fyrir Humbert, en hvað heldur þú að Humbert hafi verið fyrir Lolitu?

    SvaraEyða
  22. "Athugasemdir Kristins sýna að enn eru til karlar sem finnst alveg sjálfsagt að líta á 12 ára stelpu sem tálkvendi"

    Rosalega er þetta ómerkilegt, Kristín. Mér finnst alls ekki sjálfsagt að líta 12 ára stelpu sem tálkvendi, nema t.d. þegar um skáldsögu er að ræða þar sem 12 ára stelpu er lýst sem dálitlu tálkvendi. Þá virðist það vera gefinn möguleiki, alveg óháð því sem mér finnst.

    Það eru til 12 ára börn sem eru allur fjárinn. T.d. morðingjar. Ef einhver myndi skrifa bók um 12 ára dreng sem er morðingi, mynduð þið þá gefa ykkur að það sé blekking því það eigi ekki að líta á börn sem morðingja (eða eitthvað annað ósiðlegt og vont)?

    Ég skil bókina reyndar ekki þannig að hún sé beinlínis tálkvendi (sem er loðið orð), en mér finnst þó ekki hægt að útiloka þann möguleika af því einu að það hentar ekki siðgæðishugmyndum mínum að hún sé það. Það þykir mér einkennileg meðhöndlun á skáldsögu.

    SvaraEyða
  23. Kristín Svava

    Þú spyrð: "Fyrst þú setur þetta svona upp - við vitum alveg hvað Lolita er fyrir Humbert, en hvað heldur þú að Humbert hafi verið fyrir Lolitu?"

    Ég held að Lolitu hafi í fyrstu haft gaman af botnlausri aðdáun/girnd hans á henni og þótt þetta vera dálítið ævintýri sem síðan snérist upp á ömurlega úrkynjað og mannskemmandi samband þar sem hann var allt í senn "elskhugi" hennar, fangavörður og foreldri. Þá hafi hún farið að vinna í því að komast í burt.

    Samskipti þeirra í restina þykja mér sýna að henni finnst hann óttalegur vesalingur og að hún óttast hann ekki, þótt hún sé ekki haldin ranghugmyndum hans um að samband þeirra hafi á neinum tímapunkti verið góð eða eðlileg hugmynd.

    Það er hinsvegar mjög áhugavert að setja þitt módel á söguna. Mér finnst það bara ekki ganga sérlega vel upp - en ég útiloka það þó ekki.

    SvaraEyða
  24. Við gætum verið að tala í kross hérna. Það er ekkert athugavert við að tólf ára krakkar séu að prófa sig áfram sem kynverur og máta sig við það. Humbert lýsir því til dæmis hvernig Lolita segir og gerir hluti eins og hún hefur séð í Hollywoodbíómyndum. Það hvort Lolita hafi daðrað við Humbert skiptir hins vegar bara engu máli. Tálkvendi er mjög gildishlaðið orð sem gefur til kynna að ábyrgðin hafi legið hjá henni.

    Með þessari krípí línu lýsir Humbert því þegar þau sofa í fyrsta sinn í sama rúmi: "While eager to impress me with the world of tough kids, she was not quite prepared for certain discrepancies between a kid's life and mine."

    SvaraEyða
  25. Er fólk sem skrifar undir heitinu "Nafnlaus" ekki til í að ídentifera sig með tölustöfum eða einhverju ef það vill ekki gefa upp raunverulegt nafn sitt? Eða bara velja sér eitthvert handhægt dulnefni? Það er afar ruglingslegt að sjá allar þessar athugasemdir frá Nafnlausum sem virðast samt ekki allar vera frá sama aðila.

    Ég átta mig ekki á notkun orðsins 'tálkvendi' hér. Reyndar finnst mér merking þess frekar óljós, svona í nútímasamfélagi. Það er talað um að draga einhvern á tálar og þá átt við að ginna einhvern til að stunda með sér kynlíf og láta í það skína að maður hafi alvarlegt samband í huga en vilja svo þegar upp er staðið ekkert meira en bara þessar bólfarir. Þetta þótti eiga betur við í gamla daga þegar blettir komu á æru fólks ef það stundaði kynlíf utan hjónabands o.s.frv. (sem ég þarf vonandi ekki að rekja). Þá var talað um tálkvendi og flagara. Ef Lolita var tálkvendi, var hún þá að ginna hinn saklausa og óreynda Humbert til þess að sofa hjá sér og sveik hann svo í tryggðum? Sorrí, ég bara skil þetta ekki.

    Ég tek fram að ég hef ekki lesið bókina þ.a. ég er ekkert dómbær á neina túlkun hennar umfram aðra. Það eina sem ég veit er að mér býður við Lolituhæpi dægurmenningarinnar.

    SvaraEyða
  26. Klassísk spurning, Kristín Svava, og ég veit að sjálfsögðu ekki svarið en það væri allavega auðvitað ódýrt að afskrifa athuganir höfunda alfarið og ákveða að bókmenntafræðingarnir hafi að lögmáli rétt fyrir sér í einu og öllu gagnvart rithöfundunum í því eilífa þusi sem ríkir á milli þessara ættbálka.

    Svo er hitt, ég man ekki til þess að það hafi komið fram almennt að Llosa er í dag hægrimaður í stjórnmálum, ekki bara hægrimaður heldur gallharður frálshyggjumaður. Yfirlýsingar hans og alhæfingar í dagblöðum hafa farið ansi mikið í taugarnar á mér, prívat. Sem breytir því ekki að hann skrifar ansi fínan texta og ansi góðar skáldsögur, enda er bókin alltaf gáfaðri en höfundurinn og svo framvegis, allt það ladída sem fræðimennirnir viðhafa þegar kunna ekki alveg við að segja rithöfundum að þeir séu fábjánar, sem þeir náttúrulega eru. HS

    SvaraEyða
  27. Það eru þessar áhyggjur af ábyrgðinni sem ég held að sé inntak þinnar túlkunnar, Kristín Svava.

    Hversu langt sem ég mun ganga í að fullyrða að lagalega og siðferðilega og félagslega sé ábyrgðin Humberts og hann sé fíflið og skepnan, þá virðist það stinga í augu þín ef gefið er til kynna að Lolita hafi í einhverjum skilningi og að einhverju marki verið þátttakandi en ekki bara fórnarlamb - en það er samt sterklega gefið til kynna í sögunni. Það er hvernig hún dansar á þeirri línu sem truflar fólk og gerir hana eftirminnilega.

    Humbert var ekki á nokkurn hátt saklaus eða óreyndur þótt Dolores hafi mögulega verið örlítið "tálkvendi" - þar sem orðið er notað um kynþokka og daður óháð ábyrgð á afleiðingum.

    Mér finnst hinsvegar umræðan um ábyrgð ekkert sérlega merkileg, því hún liggur svo augljóslega hjá honum, hvað sem við kjósum að segja um Lolitu. Þegar það er frá er um tragíska sögu að ræða um allskyns mannlega breyskleika sem ekki endilega falla vel ofan í kassa lagalegra skilgreininga.

    Kristinn

    SvaraEyða
  28. Þessi notkun á orðinu 'tálkvendi' kemur mér á óvart, ég hef vanist því að það sé notað um konur sem beita græskulausa karla einhvers konar blekkingum, enda merkir 'tál' u.þ.b. það sama og blekking. Það að kona (eða stelpukrakki) sýni karli (eða konu) kynferðislegan áhuga eða virkni og/eða daðri við hann gerir hana ekki að tálkvendi. Ég fór að reyna að finna orð sem gætu átt við en átti erfitt með að finna nokkuð sem ekki er gildishlaðið. 'Daðurdrós' og 'lauslætisdrós' geta átt við, þar er ekki gefið til kynna að viðkomandi sé að beita blekkingum, en eru samt óþægilega gildishlaðin.

    Það er velþekkt að þolendur ýmiss konar misnotkunar og kúgunar séu þátttakendur í ýmsum athöfnum sem henni tengjast og það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Það gerir þá ekkert að minni þolendum eða fórnarlömbum, ég tala nú ekki um ef um börn er að ræða. Ég skildi Kristínu alls ekki þannig að hún hefði neitað því að Dolores hefði nokkurn tímann undir neinum kringumstæðum sýnt Humbert kynferðislega tilburði en væntanlega er betra að hún svari því sjálf.

    SvaraEyða
  29. Salka segir þetta í raun ágætlega, barn er ekki kvendi og þ.a.l. er kannski ekki bókstaflega átt við að Lolita sé tálkvendi þegar orðið er notað um hana.

    Hinsvegar var það greinarhöfundur sem notaði orðið um hana og síðan Svanur hér að ofan sem kemst svo að orði að bókakápurnar gefi jafnvel til kynna að um tálkvendi eða "eitthvað verra" sé að ræða. Ef hægt er að segja það um barn með sólgleraugu og sleikjó er orðið kannski ekki eins innihaldsríkt og hér er látið.

    Mig grunar að "tálkvendi" sé í huga flestra einhver sem tælir eða er tælandi og gerir sér það að leik eða til að blekkja. Dolores er dálítið lýst eins og hún leiki sér á köflum að girnd Humberts - sé tælandi eða að tæla - sem gengur þó bara of langt af því HANN er skemmdur einstaklingur.

    Túlki maður bókina þannig að stúlkan hafi að einhverju marki verið að tæla og stríða Humbert framan af er dálítið kynferðisleg kápa ekkert svo óeðlileg. Í mínum huga var það þó að mestu ímyndun Humberts, en ég get vel skilið að einhverjir taki þessu bókstaflega eins og mér þótti gert í seinni kvikmyndinni (hef ekki séð Kubrick myndina).

    Nöfnurnar hér _virðast mér_ þó vera tilbúnar að hneykslast ógurlega á þessari túlkun, sem er áhugavert.

    Kristinn

    SvaraEyða
  30. Fwiw, þá finnst mér þetta mjög góð grein hjá þér Kristín Svava. (En umræður í kjölfarið um orðsifjar orðsins kvendi og ekki kvendi er eins viðeigandi hér og um hverja aðra bók).

    Nabakov var heilmikill Sherlock Holmes í sér og þótti snillingur að grafa undan sögumönnum sínum, í Lolítu er það augljóst frá fyrst blaðsíðu. Hann gefur meir að segja í skyn (fancy prose = murderer) að lesandinn þurfi að vera vakandi og á varðbergi. En að Nabakov hafi ætlað að setja saman ,,mannlega mynd" af Humbert er það eina sem er ,,út í hött" í þessu samhengi, ef maður les bókina út til enda að lokaorðum Humberts. Ég þakka samt Evu Hauks fyrir kontróversið, annars hafði ég ekki ratað á greinina, þótt ég komi hérna oft á d&d. Takk fyrir greinina.

    kveðja, Valur

    SvaraEyða