11. apríl 2012

Listalíf í Reykjavík snemma á síðustu öld

Í öðru tölublaði Listviða kemur fram
Gunnar Bohman, frægasti
Bellman-söngvari Svía sé á Íslandi
 og syngi fyrir fullu húsi.
Hafi ég einhverntíma haldið að fásinni hafi verið í Reykjavík fyrir 50-100 árum þá er allavega langt síðan ég hélt það. Fólk sem hefur til dæmis lesið bækur Þórbergs, endurminningar Kristínar Dahlstedt og Sigurðar Thoroddsen og skoðað gömul blöð á timarit.is, veit að Reykjavík var líflegur staður á fyrri hluta síðustu aldar, ég hef reyndar oft á tilfinningunni að hún hafi verið mun líflegri og skemmtilegri fyrir tíma sjónvarpsins en eftir. Innlendir og erlendir lista- og fræðimenn héldu fyrirlestra og tónleika, settar voru upp fjölsóttar leiksýningar, miðbærinn virðist hafa verið fullur af búðum og allskonar búllum og fyrir 1920 var flutt tónlist til miðnættis á Kaffihúsinu Fjallkonunni á Laugavegi.

Í Reykjavík voru líka gefin út allskonar blöð og tímarit. Í fyrradag rakst ég á eitt sem ég hef aldrei séð áður. Það heitir Listviðir og af því komu út þrjú eintök vorið 1932. Þetta skammlífa tímarit hafði að eigin sögn að markmiði að: vekja athygli á allskonar list, eins og hún kemur fram í bókmentum - leiklist - kvikmyndum - dansi - líkamsmenningu - hljómlist - málaralist - höggmyndalist - húsbúnaði - blómagörðum - garðrækt - heimilisiðnaði - iðnaði - verzlun - vörusýningum - og auk þessa listinni að lifa.




Ritstjóri Listviða var Olga Hejnæs, systir Önnu, konu Ólafs Friðrikssonar, en Olga stóð líka fyrir skemmtun í Iðnó og setti upp Kabarett á Hótel Skjaldbreið 1924. Hún stofnaði og átti verslunina Ninon í Austurstæti (sem seldi kjóla og annan sparilegan kvenfatnað frá árinu 1929 og eitthvað fram á 4. áratuginn allavega) og hana má sjá á mynd úr stuðpartýi hjá Ólafi Friðrikssyni og Önnu árið 1927 (myndin birtist með grein í Mogganum eftir Pétur Pétursson árið 1992).

Úr gleðskap hjá Önnu og Ólafi Friðrikssyni árið 1927.  Þarna er ritstjóri Listviða, Olga Hejnæs (náfrænka hennar Maríönnu Clöru), með hressu fólki.

Í tímaritinu Listviðum birtist m.a. kvikmyndagagnrýni, langar greinar um íslenska og erlenda leikara af báðum kynjum, umfjöllun um allskonar listir, smásögur, umfjöllun um hvernig best sé að njóta tónlistar og grein um uppeldi og innréttingar í barnaherbergjum, rúmbu-tónlist og hvernig menn geti búið sér til ódýr húsgögn svo eitthvað sé nefnt.


Það vakti athygli mína hvað konum er gert hátt undir höfði í þessu skammlífa tímariti frá 1932, en mér finnst að allir sem áhuga hafa á sögu menningar í Reykjavík ættu að skoða tímaritið Listviði á vefnum timarit.is (og svo ættu þeir sem standa að timarit.is að fá einhver risastór og mögnuð heiðursverðlaun).






Stutt umfjöllun um Vicki Baum sem sumir segja fyrsta metsöluhöfund heims.
Bókin sem nefnd er, Grand hótel, kom út á íslensku og einnig fleiri bækur
eftir Vicki Baum.



4 ummæli:

  1. Takk fyrir þessa ábendingu! Listviðir sýnist mér ákaflega áhugavert blað.

    Það sló mig dálítið líka, þegar ég fyrst fór að hanga á timarit.is mér til skemmtunar, hve mikið var í gangi í gömlu Reykjavík, meira jafnvel en í dag. En ég held að einhverju leiti það sé út af því að í gamla daga var betur haldið utan um svona í fjölmiðlum. Ég heyri alltaf um fullt af frábærum viðburði, sem fóru alveg framhjá mér af því að það er engin staður þar sem maður getur tékkað á því hvað sé að gerast á Höfuðborgarsvæðinu.

    SvaraEyða
  2. Þetta er einmitt fortíð sem ég var langt fram eftir aldri viss um að væri ótrúlega óáhugaverð og þunglyndisleg. Núna finnst mér ógurlega spennandi að lesa um borgarlífið á þessum tíma, kannski líka af því að það tengir mann við kynslóðir sem er ekki svo langt í - í mínu tilfelli afa minn og ömmu sem fæddust 1918.

    SvaraEyða
  3. Mér finnst líka mjög gaman að skoða myndir úr Reykjavík frá því snemma á síðustu öld og fram yfir miðja öldina, það er oft svo mikið mannlif á götunum.

    SvaraEyða