23. apríl 2012

Íslensku þýðingarverðlaunin afhent - Druslubókadömur dokúmenteruðu

Nú fyrr í dag voru Íslensku þýðingarverðlaunin afhent. Druslubækur og doðrantar hafa löngum verið þekktar fyrir að sitja um Gyrði Elíasson og taka paparazzi-ljósmyndir af honum við ólíklegustu tækifæri, og útsendarar síðunnar voru því að sjálfsögðu á staðnum, enda hlaut Gyrðir sjálfur verðlaunin fyrir ljóðaþýðingar sínar sem hann birti í bókinni Tunglið braust inn í húsið.

Gyrðir hélt litla tölu sem var svo skemmtileg að ég myndi gjarnan vilja heyra hana aftur (eða fá að lesa hana) þar sem hann sagði meðal annars að það væri kannski ómögulegt að þýða ljóð, en það þýddi samt ekki að maður ætti ekki að reyna það.

Hæstvirtur menntamálaráðherra óskaði Gyrði til hamingju með því að slá hann létt á bossann.
Gyrðir að segja margt gáfulegt.
Hressir áhorfendur.
Hressari áhorfendur
Hressasta Druslubókadaman.
Þar sem verðlaunaafhendingin var á sjálfum Gljúfrasteini notuðum við að sjálfsögðu tækifærið og skoðuðum húsið. Þar var margt forvitnilegt að sjá, en skemmtilegast fannst okkur að finna bæði mammútaklám (Seið sléttunnar e. Jean M. Auel) og alþýðlega stjörnuspeki (Hvað segja stjörnurnar um þig? e. Grétar Oddsson) í bókahillum nóbelskáldsins. Þessir merku fundir voru að sjálfsögðu samviskusamlega dokúmenteraðir og ætlunin var að sýna myndirnar hér og færa þannig óyggjandi sönnur á alþýðleika skáldsins, en einhverra hluta vegna skiluðu myndirnar sér ekki í tölvuna og hurfu svo úr símanum.

Í upphafi athafnar var fullyrt að skáldið væri með okkur í anda. Kannski er anda Halldórs einfaldlega, þrátt fyrir 110 ára afmælið, enn svo umhugað um ímynd sína að hann greip til sinna ráða.

Þið verðið bara að fara uppá Gljúfrastein og kíkja sjálf í hillurnar uppi á annari hæð.

4 ummæli:

  1. Þessar myndir... Ég náði einni af Þórdísi í Gerðarsafni að gefa mér fokkjúmerki, en hún var svo óskýr að hún var ekki birtingarhæf. Ég kemst ekki yfir það.

    Annars virðist hafa ríkt mikil kátína á Gljúfrasteini í dag!

    SvaraEyða
  2. Var raðað til sætis eins og í kirkjubrúðkaupi, þ.e. konurnar öðrumegin og karlarnir hinumegin? Myndirnar gefa það til kynna.

    SvaraEyða
  3. Það lítur út fyrir að piltarnir ætli að bjóða stúlkunum upp í dans - nú, eða öfugt. Skemmtilegar myndir!

    SvaraEyða
  4. Mig grunar að barnabarn skáldssin, Auður Jónsdóttir, beri ábyrgð á þessum bókum. Ekki að það skipti máli – langaði bara að láta vita. Takk fyrir skemmtilega skýrslu.

    Þórarinn Leifsson.

    SvaraEyða