2. apríl 2012

Langdregið Nafn rósarinnar

Nýverið lauk ég við The Name of the Rose eftir Umberto Eco – ég tek fram að ég hafi lokið við hana þar sem það var nú eiginlega tvísýnt um það á tímabili. Bókin er um 500 síður sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi og ég hef lesið margar mun lengri EN ég hef ekki lesið svona langa og langdregna bók síðan ég byrjaði í fæðingarorlofi og það verður að viðurkennast að það er ekki alveg jafn mikill tími fyrir yndislestur þessa dagana. Þess þá heldur er lesefnið valið af mikilli kostgæfni og mætti segja að margir væru til kallaðir en fáir útvaldir.


Connery og Slater með feitum, látnum bróður
Ron Perlman hefur sérhæft sig í að leika afkáralega menn, oft með gervinef




Nafn Rósarinnar (eins og hún heitir í íslenskri þýðingu) er raunar bæði spennandi og skemmtileg – á köflum. Sögusviðið er Ítalía árið 1327 og stærstur hluti bókarinnar gerist í klaustri þar sem aðalsöguhetjurnar bróðir William og lærlingurinn Adso reyna að leysa dularfulla ráðgátu um bókasafn klaustursins á meðan að munkarnir í kringum þá falla í valinn einn af öðrum á skelfilegan máta. Adso hinn ungi er í sjálfu sér ekki mjög áhugaverð týpa – það er hann sem segir söguna orðinn gamall maður. Það er raunar ekkert nýtt að sögumenn í ævintýralegum sögum séu sjálfir mjög venjulegir – sérhver lesandi á jú að geta speglað sig í þeim en ég vil nú samt meina að Adso sé óvenjulega óspennandi (meira að segja kynlífssena með vændiskonu úr þorpinu (NB eina konan í sögunni) verður óbærilega leiðinleg í endursögn hans). Læirmeistari hans, bróðir William, er öllu áhugaverðari – nokkurs konar Sherlock Holmes kristninnar (eða forrennari bróður Cadfael sem dyggir áhorfendur rúv muna kannski eftir en þar fór hinn dásamlegi Derec Jacobi með hlutverk munksins ráðagóða). Bróðir William beitir afleiðslu (deduction) eins og Holmes í gríð og erg á meðan Adso (Watson) fylgist andagtugur með.

Slater í örmum nafnlausu portkonunnar
Munkarnir í klaustrinu eru upp til hópa skrítnar skrúfur, öfgakenndar persónur í útliti, albínóar, ævafornir, akfeitir, blindir eða á annan hátt sérkennilegir – þess þá heldur er undarlegt að þeir eru eiginlega ekki mjög eftirminnilegir. Kannski stafar þetta af því þeir eru allir svo skrítnir að enginn verður sérstakur – en kannski af því sérkenni þeirra rista almennt ekki mjög djúpt heldur eru aðallega á yfirborðinu. Þeir eru allir mikið í því að birtast óvænt út úr skuggum klaustursins og hvísla eitthvað órætt að söguhetjunum áður en þeir líta flóttalegir um öxl og skjögra eða haltra á brott. Þegar félagarnir ætla svo að spyrja þá nánar út í orðin óræðu eru þeir undantekningalítið dánir.

Þótt persónusköpun sé dálítið ábóta(hohoho)vant var það hvimleiðasta við bókina þó án efa trúarrökræðurnar sem munkarnir eiga sín á milli og við bróður William. Eco er greinilega mjög vel að sér í hinum ýmsu ólíku trúarhópum kristninnar sem blómstruðu á miðöldum sem eru allir meira eða minna útskýrðir í smáatriðum auk þess sem það veður á William þegar hann veltir heimspekilegum vöngum um lífið og tilveruna blaðsíðu eftir blaðsíðu. Segja má að rökræðurnar hverfist mestmegnis um tvennt – annars vegar löngu glataða bók Aristótelesar um kómedíuna (nokkurs konar framhald Skáldskaparlistarinnar sem segir aðallega frá harmleiknum) og í framhaldi af því hvort hlátur sé guði þóknanlegur og hvort Jesú hafi hlegið. Þessi armur umræðnanna er skömminni skárri en hinn sem snýr að mismunandi hinum trúarreglum sem tókust á á miðöldum – þær sem boðuðu fátækt og þær sem studdu eignarhald. Grunnspurningin er í sjálfu sér áhugaverð – boðaði Kristur fátækt og ef svo er, var hann á móti eignarrétti? En það væri synd að segja að umræður munkanna um málið hafi haldið mér heljartökum. Til að byrja með þrautlas ég alla þessa kafla en eftir svona 300 fyrstu blaðsíðurnar fór áhugi minn á muninum á Benediktareglunni, Fransiskureglunni, Fraticellireglunni og fylgismönnum Fra Dolcino (og svona mætti lengi telja) og sögulegum afleiðingum deilna þeirra alla við páfann, keisarann og hvern annan aðeins að dofna. Formið á þessum rökræðum öllum kallast (ég ætla ekki að segja skemmtilega) á við lærlings/meistara samræðurnar sem er að finna í svo mörgum heimspekiritum fornaldar og er það auðvitað ekki tilviljun að heimspekingurinn Eco setur efnið þannig upp.

Það sem bókin gerir hins vegar mjög vel er annars vegar að leggja upp spennandi ráðgátu sem hverfist um dularfullt bókasafn og hins vegar að gera miðaldir lifandi og skemmtilegar. Ég er veik fyrir góðum, sögulegum reyfurum og þessi kemur sterkur inn en herre gud hvað hann hefði mátt vera 200 blaðsíðum og nokkrum trúarlegum rökræðum styttri fyrir minn smekk...(Fyrir þá sem ekki nenna að lesa bókina má svo auðvitað benda á kvikmyndina frá 1986 með Christian Slater (hvar er hann í dag?) og Sean Connery í hlutverkum félaganna Adso og William)

7 ummæli:

  1. Ég reyndi að lesa þessa bók á ensku og gafst upp en spændi hana síðar í mig á íslensku, í þýðingu Thors Vilhjálmssonar, og varð svona líka spennt. Seinna sagði mér einhver að enska þýðingin á Nafni rósarinnar þætti frekar stirð. Svo horfði ég á myndina löngu síðar og fannst hún svolítið fyndin.
    ÞG

    SvaraEyða
  2. Þá er ekki um annað að ræða fyrir druslubókardömu en að lesa bókina strax aftur, nú á íslensku!

    Ragnhildur.

    SvaraEyða
  3. já takk ég held ég eigi hana bara til góða...ef ég fer einhvern tíman í einangrun sökum sjúkdóma eða glæpa er gott að eiga hana eftir...

    SvaraEyða
  4. Ég var búin að gleyma bróðir Cadfael! Í minningunni í hið minnsta var hann skemmtilegur.

    SvaraEyða
  5. Sæl Maríanna.

    Skemmtilegur ritdómur um eina af merkari skáldsögum síðustu aldar. Eco gerir lesandanum vísvitandi erfitt um vik með því að flækja heimspeki, kirkjustjórnmálum og öðru inn í morðgátuna. Þegar maður les bókina öðru eða þriðja sinni, þá hefur maður miklu meiri áhuga á því efni.

    Annars var meginefni þessarar athugasemdar að leiðrétta misfærslu. Ellis Peters skrifaði fyrstu bókina um föður Cadfael þremur árum áður en Nafn rósarinnar kom út og var þegar orðin fræg fyrir. Cadfael er því fyrirrennari Vilhjálms af Baskerville, ekki öfugt.

    SvaraEyða
  6. Sá ekki Cadfael í sjónvarpinu en gleypti í mig bækur Ellis Peters/Edith Pargeter, svona fjórar-fimm á viku. Svo sem ekki hár bókmenntastaðall samt. Nafn rósarinnar var alveg fínasta bók á íslensku.

    SvaraEyða
  7. Ég er akkúrat að lesa Nafn rósarinnar núna (á ensku) og þótt ég taki undir að hún eigi það til að vera langdregin þá er hún þó miklu skárri en mig minnti en ég gafst upp eftir að hafa lesið helming (á íslensku) þegar ég var sautján.

    Ég einmitt kveið mjög öllum þessum umfjöllunum um hinar mismunandi munkareglur en nú þykir mér þær áhugaverðar að því leyti að maður getur ágætlega yfirfært þá valdabaráttu sem lýst er í bókinni yfir á daginn í dag...nýjar munkareglur spretta upp sem andóf við spilltri kirkju; þær eru annað hvort dæmdar sem villutrúarreglur eða innlimaðar í stóra kerfið.

    Auk þess finnst mér mikið af góðum pælingum, eins og þegar Adso spyr Umbertino af hverju e-r munkar megi ekki ástunda fátækt sem dygð. Og hann svarar að ástæðan sé að þá líti allir hinir munkarnar (þeir ríkmannelgu) svo illa út.

    Þegar ég fór að hugsa út í það þá er fólk sem er stolt af því að lifa á litlum efnum í dag of litið hornauga.

    SvaraEyða