Þegar kemur að pistlum um Bókasöfn á gististöðum hefur fjarvera mín – eða öllu heldur þögn - verið æpandi. Þessi þögn skrifast bæði á framtaksleysi mitt og bókaleysi gistastaðanna. Síðast fór ég norður til Akureyrar nú í mars og gisti á KEA en þar var enginn bókakostur fyrir utan eitt stykki Biblíu sem var á botninum í fataskápnum (þótt Biblían sé auðvitað efni í pistil - eða jafnvel pistlaröð í sjálfu sér). Síðsta sumar dvaldist ég raunar í heimahúsi í Barcelona þar sem var mikið af bókum bæði á spænsku og íslensku en ég var svo niðursokkin í mínar eigin bækur að ég hreinlega steingleymdi að gefa gaum að þessu safni – mér til varnar var það alltof stórt til að ég hefði getað gert því nokkur skil í stuttum pistli hvort eð er. Svo gisti ég nokkrar nætur á sængurkvennadeild Landspítalans fyrir jólin en inni á stofunni minni var nú lítið um bækur – frekar svona bæklingar um hitt og þetta sem viðkemur meðgöngu og fæðingu – en þótt þar hefði verið glæsilegt bókasafn gafst mér svo sem ekki mikill tími til yndislestrar.
Hins vegar dvaldi kunningi minn þarna nýverið og gafst tóm til að kíkja í hillurnar meðan nýbökuð móðir og börn (já, þetta voru tvíburar) hvíldu sig og hann las m.a. bókina
Beat the Reaper eftir læknanemann Josh Bazell reyndar í íslenskri þýðingu Arnars Matthíassonar;
Eitt sinn gangster, ávallt gangster. Samkvæmt umfjöllun New York Times sem má lesa
hér er sagan mafíudrifinn reyfari og nokkuð spennandi ef frekar óvenjulegur en höfundur rýfur frásögnina öðru hverju með læknisfræðilegum klausum. Þannig er slagsmálaatriði í upphafi bókar skyndilega brotið upp með útskýringu á byggingu handleggsins. Tvíburaföðurnum þótti bókin ágæt þótt hann grunaði reyndar að frumútgáfan væri betri en þýðingin.
En þótt ég hafi sorglega lítið dvalið á stöðum sem skrifa mætti um Bókasöfn á gististöðum pistla hef ég aldrei á ævinni verið jafn mikið á kaffihúsum og þessa dagana. Meðal kaffihúsa sem ég ven komur mínar á má nefna C is for Cookie við Óðinstorg. C is for Cookie býður upp á fremur óvæntan og fjölbreyttan bókakost í nokkrum hillum við hliðina á kökuborðinu. Þarna má í neðri hillunum (sem vantar inná myndirnar) finna nokkrar skemmtilegar smábarnabækur, leikföng og púsl en í efri hillunum eru bækur fyrir fullorðna. Þar kennar ýmissa grasa og ég rak strax augun í skáldsöguna
Brick Lane eftir Monicu Ali. Hana las ég fyrir mörgum árum á Heathrow meðan ég beið eftir flugi heim og hafði þá einmitt búið rétt við Brick Lane vikuna áður. Þetta er nokkuð mögnuð bók (ef dálítið þunglyndisleg) og lýsir held ég ágætlega fjölmenningarlegu samfélagi Austur-London við lok síðustu aldar.
|
Engum þarf að leiðast yfir kaffibollanum hér |
Skáldsagnaúrvalið er annars mjög fjölbreytilegt og má þar bæði finna nýlega „hittara“ eins og
Da Vinci lykil Dan Brown, tvær Harry Potter bækur, John Grisham og Marian Keyes en líka eldri klassík eins og
Gulliver’s Travels eftir Swift,
War of the Worlds eftir H.G. Welles og (aðeins yngri)
Catch 22 eftir Joseph Heller. Ekkert bókasafn er svo fullkomið án alla vega einnar Agöthu en fimmta bók frá hægri í miðhillu er einmitt
Sittaford Mysteriet – dönsk þýðing
The Sittaford Mystery (ég veit ekki af hverju en mér finnst voða hugguleg tilhugsun að lesa Agöthu á dönsku)
. Non-fiction deildin er ekki síður lífleg en þar eru nokkrar ljósmyndabækur, listaverkabækur, bók um engla og
The Wine Spectator’s Pocket Guide to Wine. Tónlistarspekúlantinn kemur heldur ekki að tómum kofanum en þarna er bók um hina sívinsælu Kylie Minouge og svo vegleg saga punksins á enskri tungu. Þá er líka eitthvað fyrir ferðamennina en fyrir utan ljósmyndabækur með tindrandi norðurljósum og mikilfenglegum eldfjöllum og jöklum í þessu landi andstæðna má líka sjá
This is Iceland Today og auðvitað
Sagas of the Icelanders. Í það annars glæsilega safn vantar þó eitt höfuðrit Íslendingasagnanna,
Njálssögu. Þessu hafa aðstandendur C is for Cookie greinilega áttað sig á því í neðri hillunni rak ég einmitt augun í
Brennu-Njáls sögu – þó ekki á ensku – í vel lesinni kilju. Djúptþenkjandi kaffihúsagestir þurfa heldur ekki að snúast á hæli í dyrunum því þarna má líka finna nokkur rit frá Andspyrnuútgáfunni svo sem
Á Kaffihúsinu og
Hulduheimur Heiðarlands (tvö eintök),
Dansað á ösku daganna í þýðingu Sigurðar Harðarsonar (sem ég fékk í afmælisgjöf fyrir nokkrum árum) og
Um Anarkisma eftir Nicolas Walter. Þá er ótalið safn ritgerða George Orwells,
The Perspective of the World eftir Fernand Braudel, og
Moominpappa at Sea eftir Tove Jansson. Það má því liggja ljóst fyrir að það er eitthvað fyrir alla á C is for Cookie.
|
Ég bendi á bækur í efstu hillunni - fyrir hávaxið fólk |
Það eru þó nokkur önnur kaffihús sem ég hef vanið komur mínar á í fæðingarorlofinu og hver veit nema ég taki út bókakostinn á þeim í nokkurs konar „hliðarpistlaröð“ við hina vinsælu „Bókasöfn á gististöðum“.
Hah, ég hef einmitt setið á C is for Cookie og skoðað Europe by Rail meðan ég beið eftir vinkonu, sem endaði með brjálæðislegum ferðaþorsta!
SvaraEyðaFinnur bróðir las held ég heila bók á Kaffi Hljómalind sáluga, í bútum semsagt, ég man ekki alveg hvaða bók það var en hann var með bókamerki og sótti hana alltaf þegar hann kom að fá sér kaffi.