Svikari í gær, svikari í dag, ávallt svikari! |
Lífshlaup Reinaldo Arenas var að mörgu leyti þyrnum stráð. Hann fæddist á kúbönsku landsbyggðinni árið 1946 og ólst upp á búgarði móðurafa síns, en faðir hans hafði stungið móður hans af eftir að hún varð ólétt. Sem unglingur gekk Arenas í lið með sveitum Fidel Castro og fluttist til Havana. Hann sneri hins vegar baki við hugmyndafræði og stjórnarfari Castro, eins og fleiri kúbanskir rithöfundar, meðal annars vegna þess að samkynhneigð hans var eitur í beinum kommúnistastjórnarinnar. Í kjölfarið mátti hann þola pólitískar ofsóknir, sat í fangelsi, leið fátækt og heimilisleysi, þurfti að smygla bókum sínum úr landi og fékk þær ekki útgefnar á Kúbu. Árið 1980 slapp hann til Bandaríkjanna með Mariel-flóttanum svokallaða og átti ekki afturkvæmt til heimalands síns. Hann smitaðist af HIV og framdi sjálfsmorð í New York árið 1990, þá veikur af alnæmi.
Vegna þess hversu hrifin ég var af sjálfsævisögu Arenas hefur lengi verið á dagskrá hjá mér að lesa einhverja af skáldsögunum hans. Ástæðan fyrir því að El color de verano o Nuevo „Jardín de las delicias“ (The Color of Summer or The Garden of Earthly Delights) varð fyrir valinu var að í bókinni losnar Kúba af undirstöðum sínum og flýtur af stað yfir hafið, en ég hafði lesið að í bókinni A jangada de pedra (The Stone Raft) eftir José Saramago losnaði Íberíuskaginn frá meginlandi Evrópu og ræki á haf út, og með þessu ákvað ég að skapa eftirfarandi lestrarþema: lönd sem rekur af stað. Ég hef reyndar ekki enn fundið þriðju bókina með þessu efni, og er heldur ekki byrjuð á Saramago, en ég tek fagnandi á móti öllum tillögum. El color de verano er síðasta bókin sem Reinaldo Arenas lauk við áður en hann dó, en hún er jafnframt fjórða bókin í fimm bóka flokki með sjálfsævisögulegum dráttum sem hann kallaði Pentagonia og fjallar á einn eða annan hátt um Kúbu.
Í fyrstu var ég mjög efins um ágæti bókarinnar, vegna þess að ég náði engu sambandi við yfirgengilega klúra leikþáttinn sem fyrstu sextíu blaðsíður hennar samanstanda af. Þar battla kúbanskir útlagar í Miami við Castro og félaga í Havana eftir að skáldkonan Gertrudis de Avellaneda ákveður að flýja á bátskel frá Kúbu til Bandaríkjanna. Í leikþættinum fara yfir fimmtíu nafngreindar persónur í kúbönsku menningarlífi og bókmenntasögu með löng, klámfengin kvæði með flóknum vísunum sem verða fljótlega mjög langdregnar fyrir þá sem ekki gjörþekkja samhengið. Ég var eiginlega orðin hálfmiður mín og hélt að þetta myndi aldrei taka enda. Eftir á að hyggja velti ég fyrir mér hvort Arenas væri þarna að beita svipaðri aðferð og Umberto Eco í Nafni rósarinnar, að reyna að hrekja sem flesta metnaðarlausa lesendur frá bókinni með fyrsta kaflanum, en einhvern veginn finnst mér slíkt snobb ólíkt þessum höfundi.
Smellið á myndina til að sjá Garð veraldlegra lystisemda í allri sinni dýrð. |
Eitt af því sem er heillandi við skrif Arenas er hversu gríðarleg ástríða fyrir lífinu og skáldskapnum skín í gegnum þau. Höfundarverk hans er eitt stórt manifestó um frelsi og ást gegn kúgun og þröngsýni. Hann beitir kynferðislegum lýsingum markvisst í pólitískum tilgangi, meðal annars til að niðurlægja valdið sem afneitar þessu sömu hvötum og bælir þær; hér er til að mynda mikið um hómóerótík milli þeirra bræðra Fidel og Raúl, lífvarðanna þeirra og blóðþyrstra þjóðernissinnaðra hákarla (þetta er ekki myndlíking, um er að ræða raunverulegan hákarl með hárbeittar tennur og gríðarstóran böll sem Fidel ræður í sína þjónustu og gegnir stóru hlutverki í atburðarásinni).
Dólgahúmorinn er ekki sérlega fágaður og mögulega ekki að allra skapi, en eins og dólgahúmor getur verið andlaus í meðförum vissrar tegundar af dólgum er hann mjög hressandi þegar honum er beint til baka að þeim sjálfum og þeim sem valdið hafa. Inn á milli eru mjög fallegir kaflar þar sem fíngerðari harmræna er fléttuð saman við. Sem dæmi má nefna dásamlega sögu þar sem drottningu nokkurri, það er að segja glysgjörnum homma frá Havana á himinháum rauðum hælum, er ógnað af samferðamönnum sínum, en lostafullar ástir tveggja langferðabíla koma honum óvænt til bjargar og hinir smásálarlegu ofsækjendur hans hljóta hroðaleg örlög.
Fyrir þá sem ekki hafa lesið neitt eftir Arenas mæli ég sérstaklega með sjálfsævisögunni hans, Antes que anochezca, en ég hafði líka mjög gaman af þessari skáldsögu. Rétt eins og í ævisögunni hefur maður alltaf mjög sterka tilfinningu fyrir því að höfundurinn skrifi upp á líf og dauða, og mæti mannlegu grimmdinni stærri og smærri með óbilandi og mjög óvægnum húmor. Eiginlega er ég bara geðveikt skotin í honum.
Þegar hann var barn þá dreymdi langafa minn oft að Vestfirðir brotnuðu frá Íslandi og ræki út á haf. Svo ég viti skrifaði hann reyndar aldrei um það.
SvaraEyðaBugs Bunny, í einni teiknimyndinni, sagar Florida frá meginlandinu og sendir út í karibíska hafið.
Miðað við lýsinguna á El color de verano þá er Arenas svipaður höfundur og Jean Genet. Er það rétt skilið hjá mér?
Það er algjörlega hægt að bera þá saman, ég las einmitt Dagbók þjófs eftir að hafa heyrt Genet nefndan sem áhrifavald á lýsingarnar á fangelsisdvöl Arenas í sjálfsævisögunni hans. Hér er t.d. Johnny Depp í myndinni að leika sadískan fangavörð sem er löðrandi í kynþokka: http://www.wildsound-filmmaking-feedback-events.com/images/johnny_depp_before_night_falls.jpg
SvaraEyðaÆtli það sé ekki húmorinn sem skilur á milli og gerir Arenas, fyrir mitt leyti, miklu skemmtilegri. Genet er náttúrulega franskur... (rúllar augunum full fordóma)
Tjah, mér fannst mjög margt fyndið í einu Genet bókinni sem ég las, Funeral Rites (fr. Pompes funèbres). Til að mynda hló ég að senunni þar sem hann lætur gervallan þýska herinn marsera gegnum svefnherbergi Hitlers, einn stæltan hermann í einu, áður en ungu mennirninr eru sendir út á vígvöllinn. En ég geri mér grein fyrir að hann er ekki allra.
SvaraEyðaÞetta hljómar eins og maður fyrir mig. Góð færsla!
SvaraEyða