30. júlí 2012

Málpípa nýlenduherranna

Í Júllabúð í Hrísey er skiptibókahilla. Í hana má setja bækur sem maður vill losna við og taka jafnmargar í staðinn. Ég kom þangað fyrir hálfum mánuði eða svo og þá kenndi þar ýmissa grasa. Þar voru meðal annars bækur eftir Jennu og Hreiðar, James Patterson, Mikhail Bulgakov, Milan Kundera, Khaled Hosseini, Guðmund Andra Thorsson, Doris Lessing, Stieg Larsson, Charles Dickens, Jackie Collins, feðgana Ólaf Jóhann, Ken Follett, Johann Goethe, Franz Kafka, Einar Má Guðmundsson, P.D. James, Knut Hamsun, Desmond Bagley, Einar Kárason, Dan Brown og Mary Higgins Clark. Einnig var þarna bókin Hlauptu drengur hlauptu, sem ég man til að var mikið auglýst á tímabili þegar ég var barn, að minnsta kosti ein bók um Möttu Maju og ferðabók um Ísland. Og svo voru nokkrar forláta ástarsögukiljur, til dæmis Þríburar kúrekans.


Ég var ekki með neinar bækur með mér í dagsferð minni til Hríseyjar og gat því ekki tekið þátt í bókaskiptunum en það stóð einnig til boða að kaupa bækurnar á 200 krónur stykkið og ég fjárfesti í tveimur: Snörunni eftir Jakobínu Sigurðardóttur og Letters of an Indian Judge to an English Gentlewoman.

Snaran kom út 1968 og er eintal manns sem virðist vera sópari í verksmiðju í framtíðinni. Um þessa bók hefur verið fjallað áður á Druslubókum og doðröntum og ég vísa bara á þá umfjöllun lesendum til fróðleiks. Ég get tekið undir margt af því sem kemur þar fram en verð að játa að ég er ein af þeim sem læt eintalsstílinn fara í taugarnar á mér, ég átti dálítið erfitt með að komast í gegnum hana því mér leiddist þessi stíll. Eintakið sem ég fékk í Hrísey er merkt Pétri Sumarliðasyni með handskrift og í það hefur líka verið límdur prentaður miði sem á stendur:
Ex Libris
Guðrún Gísladóttir
Pétur Sumarliðason
Ég fór auðvitað að snuðra og fann til dæmis þessa vefsíðu um þessi hjón.  Ég fann líka út að bók með ljóðum eftir Pétur mun hafa komið út 1996, 15 árum eftir andlát hans, og svo fann ég skemmtilega síðu um veðurathugunarævintýri hans. Guðrún mun ennþá vera á lífi og ég gat ekki séð að þetta fólk hefði nokkurn tíma búið í Hrísey eða einu sinni í námunda við Hrísey. Það væri fróðlegt að vita hvernig bók sem hafði verið í eigu þeirra lenti þar.

Hin bókin sem ég keypti, Bréf indversks dómara til enskrar hefðarkonu, kom út 1934. Eins og titillinn gefur til kynna samanstendur hún af bréfum sem Indverji nokkur, Arvind Nehra, sendir enskri vinkonu sinni og þessar bréfasendingar standa frá því að hann er ungur maður, nýkominn aftur til Indlands eftir háskólanám í Cambridge, og þar til hann er orðinn gamall. Fremst í bókinni er að finna athugasemd útgefanda sem kveður á um að mikilvægt sé að lesandinn trúi því að bréf þessu séu ekta og að útgefendur hafi fullvissað sig um að svo sé. Þegar bókin er lesin vakna hins vegar fljótt grunsemdir um að þarna sé farið eitthvað frjálslega með sannleikann, til dæmis virðist þráðurinn milli bréfa sem eiga að vera send með margra mánaða millibili grunsamlega vel samhangandi og það er alveg merkilegt hve vel maðurinn virðist muna hvað hann skrifaði um mörgum árum áður. Við netleit fékk ég þessar grunsemdir fljótlega staðfestar og þykir nokkuð víst að eiginlegur höfundur „bréfanna“ sé hin breska Dorothy Black sem mun vera þekktust fyrir að vera mikilvirkur ástarsagnahöfundur.

Það er ekki svo að það skipti endilega máli í öllu samhengi hvort þetta séu raunveruleg bréf skrifuð af indverskum dómara eða uppskálduð bréf. Lestur þeirra er prýðileg afþreying og gefur ákveðna mynd af Indlandi á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, sem og samskiptum Indverja og Breta. Mér tókst ekki að komast að því hvort Black hefði búið á Indlandi en hún virðist alla vega hafa búið í Burma um skeið og hluti bókarinnar gerist einmitt þar, en Burma var á þeim tíma sem sagan gerist ásamt Indlandi undir stjórn Breta og margir indverskir embættismenn voru þar við störf. Ég tala um bréfin sem sögu því þau mynda einmitt nokkuð samfellda sögu. Bókin hefst á bréfi sem ungur indverskur lögfræðingur, nýkominn frá námi í Bretlandi, sendir enskri konu sem hann hefur hitt í veislu. Þau skrifast svo á næstu áratugina, hann giftist og eignast börn, flytur til nýrra staða eftir því sem hann vinnur sig upp í embættismannakerfinu og svo endar bókin þar sem börnin hans eru orðin uppkomin og hann orðinn gamall. Við sjáum bara bréfin sem Nehra sendir ensku konunni (við fáum aldrei að vita hvað hún á að heita) en ekki svörin hennar og mikið til snúast bréfin um það sem drífur á daga hans sem og ýmsar hugleiðingar, bæði um lífið og tilveruna og um samfélagsástandið.

Gandhi í Bretlandi árið 1931. Nehra þykir Gandhi einmitt verða
sér til skammar í Bretlandsheimsókn sinni, ekki síst með klæða-
burði sínum og kröfu sinni um geitur á staðnum. 
Það eru fyrst og fremst hugleiðingarnar um samfélagsástandið og afstaðan sem þar kemur fram sem gerir það að verkum að ég felli mig illa við þessa aðferð, að gefa til kynna að um sé að ræða raunveruleg bréf, og þar með raunverulegar skoðanir, indversks dómara, þegar bókin er í raun skrifuð af enskum ástarsagnahöfundi. Þessi ímyndaði maður verður málpípa, lesandinn er blekktur til að halda að þarna birtist skoðanir Indverja sem hefur gegnum starf sitt kynnst ýmsum þáttum indversks samfélags og samskiptum nýlendu og nýlenduherra, en svo er þessi maður ekki einu sinni til og hinn rétti höfundur kemur frá hinni hlið borðsins. Sagan gerist á umbrotatímum, hún hefst snemma á tuttugustu öld og endar um miðjan fjórða áratuginn þegar barátta Indverja, með Gandhi í fararbroddi, um sjálfstæði undan bresku valdi stendur hátt. Og Nehra verður einmitt tíðrætt um Gandhi og reifar skoðanir sínar á alls konar pólitík. Honum finnst Gandhi vera velviljaður bjáni sem geri meiri skaða en gagn og hafi óraunhæfar hugmyndir um samband Indlands og Bretlands, kolrangar baráttuaðferðir og geri sjálfan sig að athlægi. Nehra upphefur stríðsrekstur og þegar hann dvelur í Bretlandi um tíma snemma á 4. áratugnum fylgist hann með pólitíkinni þar. Hann hefur þar litla samúð með verkamönnum sem krefjast hærri launa meðan aðrir gangi atvinnulausir og finnst það mesta vitleysa að einhver verkalýðsfélög geti staðið í vegi fyrir því að vinnan sé bara tekin af þeim sem eru eitthvað ósáttir við launin og aðrir atvinnulausir ráðnir í staðinn. Og honum finnst mesta vitið í boðskap Tax Payers‘ Association sem berjast fyrir lægri sköttum því það sé að sliga vesalings bresku yfirstéttina að þurfa að borga með öllum fátæklingunum og iðjuleysingjunum. Nehra virðist líka hafa mikla trú á vestrænum framförum og skín í gegn að hann lítur á Breta sem lengra komna á braut þróunar og framfara en Indverja og aðra Asíubúa sem viðhafi oft ýmsa barbaríska siði. 

Bókin er ágætlega skrifuð og þægileg aflestrar og heldur athyglinni alveg prýðilega. Sumt af þeim boðskap sem hún felur í sér er líka alveg ágætt, Nehra er augljóslega hinn greindasti maður sem þarf oft að kljást við fordóma og hroka af hálfu breskra yfirmanna sinna og bókinni virðist þannig ætlað að vinna gegn kynþáttafordómum. Þess er þó gætt að ekki sé gengið of langt í samkrulli kynþáttanna; Nehra segir til dæmis frá Breta nokkrum sem hefur gifst konu frá Burma og hefur lítið álit á börnunum þeirra. Hann telur rétt að leyfa fólki af ólíkum kynþáttum að giftast en að réttast væri að láta þá sem gengju í blönduð hjónabönd gangast undir ófrjósemisaðgerð. Og þegar sonur Nehra hittir son ensku hefðarkonunnar í Cambridge er hinum síðarnefnda sýnd lotningarfull aðdáun. Og bókin er í raun lúmskt áróðurstól.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli