Eftir að ég flutti til Svíþjóðar hef ég oft dáðst að tímaritaúrvalinu hér, bæði fjöldanum af sænskum tímaritum og fjölbreytninni í þeim innfluttu. Í stórmarkaðnum mínum, hér í hinum prúða háskólabæ Uppsölum, fást til dæmis að jafnaði níu tímarit um tattú. Á lestarstöðinni í Stokkhólmi, sem er töluvert meira töff borg en Uppsalir er úrvalið í þessum flokki enn betra, mig minnir að ég hafi talið tólf stykki þar. Fyrir einhverjum árum hefði ég ekki einu sinni trúað því ef einhver hefði sagt mér að til væri eitt heilt tímarit bara um tattú, hvað þá á annan tug. En sem sagt, tímaritaúrvalið er gott og um daginn sá ég að það var komið nýtt tímarit á markðinn, tímaritið Skriva, fyrir fólk sem dreymir um að skrifa og vera lesið. Þótt ég sé sjálf (blessunarlega) laus við hvers kyns höfundardrauma var forvitni mín vakin og ég ákvað að kaupa eitt eintak.
Skriva kemur út sex sinnum á ári, hóf göngu sína í nóvember í fyrra og ég var því að kaupa mér fimmta hefti blaðsins. Í þessu sumarhefti er áherslan á glæpasögur og stór hluti blaðsins helgaður þeim. Þrír spennusagnahöfundar segja frá vinnuferli sínu, þau Anders Roslund (annar helmingur parsins Roslund og Hellström sem skrifað hefur verið um hér og hér), Kristina Ohlsson og Johan Theorin; bókmenntafræðingur skilgreinir nokkrar ólíkar gerðir glæpasagna og sálfræðingurinn og rithöfundurinn Sven Å. Christianson fjallar um muninn á fjöldamorðingjum og sykópötum, væntanlega í því skyni að hjálpa fólki að skapa trúverðuga glæpamenn. Í þessum hluta blaðsins er líka að finna grein í léttum dúr um draumana um að skrifa metsöluglæpasögu og svo langa grein eftir Sören Bondeson (sem ku vera þungavigtarnafn í þessum bransa og m.a. hafa haft höfund á borð við Jens Lapidus undir sínum verndarvæng) um fimm frásagnarfærðilega þætti sem þurfa að vera til staðar til að mynda spennandi atburðakeðju. En svo er líka slatti af efni sem fellur ekki undir þetta glæpasagnaþema. Tvær opnur fara í umfjöllun um það að gefa sjálfur út bók, viðtal við nokkra meðlimi hins nýstofnaða félagsskapar Egenutgivarna og við lögfræðing rithöfundasambandsins sænska um ýmis lagaleg atriði svona eigin útgáfu. Það er líka töluvert fjallað um nýja stétt (alla vega í sænsku samhengi) innan útgáfubransans, svo kallaða bókmenntaumboðsmenn (literary agent), með viðtali við tvo fulltrúa umboðsstofunnar Salmonsson Agency í Stokkhólmi ásamt ýmsum ráðum um hvað skuli hafa í huga vilji maður leita sér umboðsmanns og hvaða kosti og galla slíkt kerfi hafi umfram það að leita beint til forlags. Í blaðinu er líka viðtal við rithöfundinn Majgull Axelsson um höfundarferil sinn og að auki gefur hún verðandi höfundum sex góð ráð til að skrifa vel heppnaða skáldsögu. Greinin sem höfðaði hins vegar einna mest til mín, eilífðarstúdentsins með mastersritgerðina á bakinu, fjallaði um kosti þess að fara eitthvert burt til að skrifa, leigja sumarhús eða sitja á hóteli erlendis. Í henni var meðal annars rætt við mann sem skrifaði bók í fangelsi - sem mér fannst sérdeilis athyglisvert þar sem ég hef oft velt því fyrir mér hvort það sé kannski eina leiðin fyrir mig til að klára þessa blessuðu ritgerð að vera hreinlega bak við lás og slá. Nú, nokkuð stór hluti tímaritsins fer svo í að fjalla um blogg, mér sýnist raunar að í öllum eldri heftum hafi bloggið átt sinn fasta sess. Í þessu 5. hefti er löng grein um hvernig maður geti þénað pening á blogginu sínu með yfirgripsmikilli úttekt á hinum ýmsu möguleikum og stuttum viðtölum við vinsæla bloggara. Svo eru tvær keppnir í blaðinu, önnur um bestu byrjunina á sögu (25 orð eða minna) út frá gefinni ljósmynd og svo smásagnakeppni. Auk þess er hér að finna alls konar fasta þætti þar sem reynsluboltar og lögfræðingar svara spurningum og lesendur tímaritsins tjá sig um eitthvað fyrirframgefið þema.
Ég var ekki alveg viss um hvað mér ætti að þykja um svona tímarit áður en ég byrjaði að lesa en verð að játa að mér fannst þetta bara býsna athyglisvert og skemmtilegt allt saman. Ég hef ótrúlega gaman af því að lesa um vinnubrögð rithöfunda og tilurð hinna og þessara verka og fékk alveg fullt fyrir minn snúð þar. Það var svo sem ekki kafað mjög djúpt í efnið en þetta var ánægjulegt engu að síður. Mér fannst líka óskaplega gaman að lesa um alls kyns króka og kima útgáfubransans sem ég þekki annars lítið. Hins vegar veit ég ekki alveg hversu stór markhópur er fyrir svona tímarit né hef ég forsendur til að átta mig á hversu góð ráðin sem þarna eru gefin séu. Ef þeir sem láta sig dreyma um að gefa út bók eru jafnóreyndir og ég hlýtur samt að vera eitt og annað þarna sem kemur að gagni. Ég sé til dæmis að í einu eldra hefti hefur verið grein um hvernig maður skrifar fylgibréf með handriti til útgefanda og það hlýtur að vera skárra en ekki neitt ef maður er algjörlega reynslulaus að fara eftir þeim ábendingum. Sumar umfjallanirnar um uppbyggingu skáldsagna, sjónarhorn og þess háttar voru hins vegar á svo miklu grunnstigi að ég á erfitt með að sjá að einhver sem þurfi að leita í þær sé endilega að fara að skrifa góða sögu svona yfirleitt. En kannski er gagnsemi tímaritsins fyrst og fremst fólgin í að veita innblástur og vera hvatning fyrir fólk sem langar að skrifa. Að lesa um aðra í sömu sporum sem glíma við sömu vandamál og minna sig á að öll stóru nöfnin voru líka einu sinni óútgefin og ráðvillt er kannski mun meira virði en enn ein greinin um að rithöfundar eigi frekar að sýna en segja frá. Og svo hlýtur svona fólk eins og ég að vera í markhópnum líka, fólk sem hefur gaman af að lesa um bókmenntir frá alls konar sjónarhornum en lætur aðra um að streða við að skrifa þær. Annars veit ég ekki hvað ég er að hafa áhyggjur af markhópnum. Miðað við tattú tímaritin níu í hillum Ica Maxi ætti að vera pláss fyrir slatta af bókmenntatímaritum í viðbót hér í háskólabænum.
Hverjir eru svo þessir fimm frásagnarlegu þættir sem þurfa að vera til staðar í spennandi atburðarás?
SvaraEyða(Kveðja, upprennandi glæpasagnahöfundur.)
Æ ég er ekki með blaðið svo þú verður að bíða með að byrja á metsölubókinni þangað til ég kem heim úr fríinu. En þetta var allt svona um tíma, sjónarhorn og atburðarás. Voða mikið svona: eftir þriðjung bókarinnar þarftu að vera búin að kynna til sögunnar spennandi atburð ...
SvaraEyðaÞú kynnir þér þetta nákvæmlega, Guðrún Lára, og heldur svo námskeið fyrir verðandi höfunda.
SvaraEyða