31. ágúst 2012

Bókasöfn á gististöðum, 14. þáttur: Kerlingarfjöll

Ég veit ekki af hverju það var mynd af
Akureyrarkirkju fyrir neðan bókahilluna.
Í júlí fór ég með gönguhópnum mínum í Kerlingarfjöll. Þar var gaman að ganga í nokkra daga, af Snækolli sást vítt og breitt um landið og náttúran öll var fjölbreytileg, dramatísk og falleg. Í Kerlingarfjöllum er rekin ferðaþjónusta og í húsinu þar sem hópurinn minn fékk inni mátti finna bókahillu sem var forvitnileg á sinn hátt eins og bókasöfn á gististöðum eru iðulega. Áður en ég kemst að bókahillunni finn ég mig þó knúna til að ræða aðeins aðbúnaðinn. Þess má geta að uppsett verð á manninn í svefnpokaplássi í Kerlingarfjöllum er 6800 kr. fyrir hverja nótt og því ætti ekki að þurfa gríðarmargar gistinætur til að safna nægu fé til að fara t.d. í IKEA eða Góða hirðinn og kaupa lágmarksútbúnað.

Í húsi sem ætlað er átta manns væri varla til of mikils mælst að finna mætti m.a.:
  • fleiri en tvær súpuskálar,
  • a.m.k. átta borðhnífa, skeiðar og gaffla,
  • sæmilega stóran pott (það voru tveir litlir pottar á staðnum en samanlagt hefðu þeir varla dugað undir súpu eða hafragraut handa hópnum),
  • þó ekki væri nema einn búrhníf, jafnvel tenntan hníf líka ef maður færi að gera kröfur, hugsanlega líka ausu eða eitthvað sambærilegt (við notuðum bolla í ausu stað en þeir voru reyndar líka af skornum skammti). 

Pottaréttingar
Þá er einungis það allra helsta talið og ekki farið að ræða sérþarfir á borð við að sumir (jafnvel nokkuð margir) kunni því oft vel að geta lagað kaffi. Unga fólkið sem vann á staðnum var reyndar ósköp elskulegt og lánaði okkur flest sem við báðum um. Það var ekki því að kenna að botninn á pottinum sem þau útveguðu okkur var orðinn svo kúptur að hann hitnaði ekki almennilega á rafmagnshellunum sem til staðar voru. Á endanum bjargaðist það þó því svo heppilega vildi til að ein úr hópnum hafði verkfæri í bílnum, þ.m.t. hamar sem nýttist ágætlega við að lagfæra pottinn.

Fyrst ég minntist á rafmagnshellur: Út af fyrir sig getur talist lúxus að búa við rafmagn í fjallaskála. Hópnum þótti samt nokkuð sérstök forgangsröðun að það væri dimmer á ljósunum en einungis önnur af tveimur eldunarhellum virkaði almennilega.

Bókahillan var í stíl við skálann, töluvert úr sér gengin. Í henni mátti einkum finna nokkurra áratuga gamlar sjoppubókmenntir, reyndar á nokkrum tungumálum en þar er jákvæðasta einkennið sennilega upp talið. Ein hét Det snehvide pulver, önnur Mordbrænderne, þriðja Hatets pris og tvær bækurnar voru úr seríu sem kennt var við Texas („En Texas bog“) og nefndust Det hårde valg og Dødens spor. Ég las enga þeirra og hef því ekki meira um þær að segja.


Tvær bækur úr Rauðu seríunni voru með því nýrra á staðnum en þær voru báðar útgefnar 1991. Nei, annars, hvernig læt ég. Minnisbókin 1996 er augljóslega nýrri. Titlarnir sem vöktu flestar spurningar við fyrstu sýn voru annars Nautnalíf í New York (útg. 1950) og Ótrú eiginkona (útg. 1975) en snögg fletting gaf hins vegar til kynna að innihaldið væri ansi rýrt í roðinu. Ef manni hefði leiðst hroðalega hefði Pendulum Power sennilega verið skárri dægrastytting, a.m.k. fyndnari, en á bókarkápu segir m.a.:
Ef velferðarráðherra saknar
eintaksins síns af Børnenes
komediebog getur hann
fundið það í Kerlingarfjöllum.
„The power that the pendulum brings has been known since the beginnings of time. those with the knowledge of its use have divined treasure in the earth, discovered water in the middle of deserts, learned the plans of destiny for their future, and gained an ability of almost unlimited application.“

Ég hefði þó sennilega enst betur til að blaða í Børnenes komediebog og Børnenes gættebog sem báðar eru frá fyrri hluta áttunda áratugarins, sú fyrri merkt landsþekktum manni, sbr. mynd. Og það sem helst getur flokkast til heimsbókmennta í þessari hillu er sömuleiðis í barnabókapartinum, þ.e. hinn alkunni Stubbur.

Ég get óhikað mælt með því að fara í Kerlingarfjöll náttúrunnar vegna en miðað við reynsluna af gistingunni gæti verið vissara að taka eldunaráhöld og leirtau með til öryggis. Jafnvel prímus. Og ekki treysta á að finna lesefni á staðnum. Takið með góða bók eða verið með skemmtilegu fólki. Sem betur fer passaði ég upp á hvort tveggja.

Náttúran í Kerlingarfjöllum reyndist miklu fjölbreytilegri
og áhugaverðari en bókahillan í skálanum.

Það var kalt og hvasst á toppnum á Snækolli en útsýnið var þess virði.

3 ummæli:

  1. svo var GPS bókin gefin út 1993 var það ekki?

    SvaraEyða
  2. Aha, ég gleymdi henni - nei, hún er jafnvel ennþá nýrri, þ.e. frá 1995. Furðulegt að ég skuli forsmá svona þetta úrval bóka frá tíunda áratugnum.

    SvaraEyða
  3. Hahaha ég hló upphátt, skemmtilegt úrval!

    SvaraEyða