Rocky Mountains séð frá Bozeman Montana en þar kom ég við... |
Bryson hefur ferð sína um þennan fræga götuslóða þegar hann er 44 ára. Jólin áður hafði hann sent línu með öllum jólakortunum og boðið fólki að koma með (hann hryllti við að mæta úlfum, björnum og morðingjum einn á ferð). Einn einasti svaraði kallinu – Stephen Katz, æskuvinur sem hann hafði ekki hitt í 25 ár. Sá reyndist hafa fitnað og ólukkast eitthvað á þessum 25 árum og eftir lýsingar á því hvernig hann mæddist við að ganga upp stigann heima hjá Bryson var erfitt að ímynda sér annað en að hann yrði dragbítur á höfundinum þótt hann væri kannski enginn Ólympíufari sjálfur. Katz reynist vera mikill furðufugl en auðvitað betri en enginn þegar á hólminn (eða fjallið) er komið. Hann tekur gríðarmikið af kleinuhringjum og bollakökum með en hendir síðan helmingnum á leiðinni þegar bakpokinn fer að síga í, hendir dýrmætri vatnsflösku, villist, fer í fýlur, fer á fjörurnar við afmyndaða (og – kemur í ljós – gifta) gengilbeinu og er að sumu leyti það merkilegasta við ferðina. Bryson er reyndar svo brútal stundum í lýsingum á þessum félaga sínum að ég fór alvarlega að velta því fyrir mér hvort hann væri skáldaður, hvort hann hefði svona æpandi mikinn húmor fyrir sjálfum sér - eða hvort hann væri svo lítið menningarlega sinnaður að Bryson treysti því að hann myndi aldrei lesa bókina.
þeir eru náttúrulega báðir rauðbirknir... |
En aftur að bókinni - Bryson er óvæginn við Bandaríkjamenn og stefnu þeirra í hinum ýmsu umhverfismálum og telur súr á svip upp plöntur og dýr sem hafa dáið út í skógunum þar á síðustu öld (og munu að öllum líkindum halda áfram að hverfa). Staðreyndirnar eru hrikalegar og stundum langaði mig helst til að stöðva rútuna og æða upp í fjöll meðan eitthvað væri þar enn að sjá. Súrt regn, innflutt skordýr, skógarhögg en þó fyrst og fremst mannleg klúður virðast vera helstu hættur sem steðja að bandarískum skógum og lífinu þar. En þótt Bryson dragi stundum upp ófagra mynd eru þó ferðasögur hans um fram allt fyndnar og fróðlegar. Ég er því öllu nær um t.d. bandaríska birni - bæði svarta og grizzly. Þannig veit ég að þótt sá svarti sé alls ekki árásargjarn slasar hann þó og drepur árlega einhverjar sálir – yfirleitt allar sem geta sjálfri sér um kennt (ef maður má segja svona ljótt). Birnir koma nefnilega gjarnan þegar fólk er með huggulegt pikknikk í skógarrjóðrum – og þegar fólkið hleypur æpandi burt röltir bangsi að matnum og borðar nægju sína. Hins vegar virkar hann rólegur, loðinn og sætur og þess vegna eru alltaf einhverjir sem halda að hann hafi óvart villst úr Disney-mynd - eins og konan sem dýfði hendi ungabarns síns í krukku með hunangi með það fyrir augum að björninn myndi sleikja það af...björninn hafði hins vegar sennilega misst af Jungle Book í bíó og át höndina af barninu.
Þótt ferðir okkar Bryson um Bandaríkin hafi verið afar ólíkar áttum við þó sameiginlega reynslu af Bandaríkjamönnum sjálfum sem virkilega spanna allt litrófið (eins og sjálfsagt allar aðrar þjóðir ef út í það er farið). Við Bryson hittum bæði ótrúlega almennilegt fólk sem nánast bauð manni úr sér nýra og sem mun aldrei gleymast en sömuleiðis týpur sem voru svo ýktar að þær voru eins og í lygasögu.
Þegar upp var staðið kláruðu þeir félagar Bryson og Katz ekki alla Appalachiaslóðina – en þeir kvöddu hana þó sáttir – hafandi gengið dögum saman í steikjandi hita, helli rigningu, blindandi byl og öllu þar á milli – borðað endalaust af núðlusúpu og snickers og komist lifandi frá björnum, snákum og morðingjum. Þeir kynntustu algleymi og örvæntingu og nýjum hliðum á sjálfum sér og svei mér ef mig langar ekki að ganga Hornstrandir næsta sumar.
Robert Redford er skemmtilega bjartsýnn. Á Wikipediusíðunni um bókina segir: "He also hoped that his erstwhile co-star and friend, Paul Newman, would team up with him to play the role of Katz, although he jokingly expressed doubt as to whether the health-conscious Newman would consider putting on enough weight to accurately portray the rotund Katz."
SvaraEyða