3. september 2012

Skuggamyndir, skáldskapur, minning

Ég er 36 ára gömul og það er tvennt sem ég tel að ég hafi fyrst núna þroska til að skilja og hafa áhuga á. Í fyrsta lagi er það garðrækt. Ætli maður þurfi ekki að hafa tiltekinn árafjölda að baki til að til að finnast það borga sig að puða í einhverju sem maður sér ekki almennilega árangur af fyrr en nokkrum árum síðar? Og svo er það hvers kyns ættfræði, fjölskyldusögur og þörfin fyrir að skilja fortíð sem er ekki manns eigin – en um leið einmitt það. Sennilega er það vegna þessa síðara að bókin Skuggamyndir úr ferðalagi eftir Óskar Árna Óskarsson hitti mig beint í hjartastað.

Skuggamyndir eru safn prósatexta þar sem tilvitnanir í bréfasöfn og ljósmyndir eru spunnar saman við frásögn manns (sem væntanlega er óhætt að gera ráð fyrir að sé höfundurinn sjálfur) af ferðalagi á slóðir fyrri kynslóða einkum og sér í lagi foreldra sinna, föðurömmu og ömmubróður. Hann ferðast með rútu og snapar sér far með hinum og þessum, gerir stans á Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Raufarhöfn og fleiri stöðum. Eftir því sem ferðinni vindur fram fylgja sögur af fjölskyldumeðlimum, æskuminningar sögumanns sjálfs og frásagnir af samferðafólki. Brotin raðast saman svo úr verður heildstæð mynd sem birtir ekki bara sögu þessa fólks heldur fangar tíðarandann hverju sinni, segir kannski á einhvern hátt sögu okkar allra. Hér má finna ótal áhrifamiklar smámyndir sem sitja eftir í huga lesandans: fótur er tekinn af barni á borðstofuborðinu heima, lítill drengur kúrir í ilmandi lárviðarlaufshaug, moldin tekur til sín aukafingur smástelpu. Að ógleymdu lakkríshúðaða þríhjólinu! Hvílík dásemd! Frá öllu þessu og mörgu öðru er sagt á einfaldan og yfirvegaðan hátt. Í káputexta er bókin kölluð „ljóðræn minningabók“ en ég veit ekki alveg hvort ég er sammála því. Sjálfur textinn er í rauninni ekkert sérstaklega ljóðrænn en hins vegar má kannski segja að einmitt í látleysi sínu dragi hann fram hversu ljóðræn tilveran sé í raun og veru.

Bókinni má skipta í þrjá óformlega hluta. Í upphafi bókarinnar er sjálft ferðalagið í fyrirrúmi ásamt frásögnum af föðurömmu sögumannsins og foreldrum hans. Um miðbikið er frásögninni að miklu leyti snúið að ömmubróðurnum Magnúsi Stefánssyni sem orti undir skáldanafninu Örn Arnarson. Ég geri ráð fyrir að mörgum þyki akkur í þeim köflum þar sem lítið ku vera af öðrum heimildum um líf hans. Það verða svo aftur eins konar straumhvörf í frásögninni þegar sögumaður snýr heim úr ferðalaginu og lýsir andláti skáldbróður síns Geirlaugs Magnússonar og síðustu fundum þeirra. Í kjölfarið tekur hann að rifja upp eigin æskuminningar úr Þingholtunum. Það verður einhver falleg samfella í þessu öllu, bæði hvernig ferðalagið til liðins tíma á slóðir annarra leiðir mann á endanum heim, að eigin lífi. Og svo það að maður hlýtur óneitanlega að líta yfir farinn veg þegar samferðamenn manns ná endastöð. Á þessum mörkum er líka sú mynd sem er í mestu upphaldi hjá mér af öllum í bókinni, af Geirlaugi á miðnæturgöngu á Sauðárkróki með kerti.

Ég get svo sem ekki fullyrt um það í hvaða tilgangi bókin er skrifuð en sjálf les ég hana sem tilraun til að innlima minningar og sögur annarra í sínar eigin. Af því að af einhverjum ástæðum skiptir þessi fortíð mann sífellt meira máli og maður hættir að sætta sig við að heyra frásagnir af henni úr munni annarra og langar að gera hana að hluta af manni sjálfum. Þar sem það er að sjálfsögðu fræðilega ómögulegt verður skáldskapurinn einhvers konar tímavél sem flytur mann aftur á staðinn, leyfir manni að taka þátt í því sem maður hefur heyrt sagt frá svo oft og planta sér þarna einhvers staðar inn í. Kaflarnir „Með Gröndal í bakpokanum“ og „Minning“ endurspelga þetta svo vel. Í þeim fyrri lýsir sögumaður því hvernig hann stendur í Brekkugötunni á Akureyri, fyrir framan æskuheimili móður sinnar, horfir yfir fjörðinn á Svalbarðsströndina og reynir að geta sér til um hvar kotið þar sem hún var í sveit sem lítil stelpa hafi staðið. Næsti kafli á eftir segir frá minningu móður hans sem hafði einn sumardaginn í sveitinni saknað fjölskyldu sinnar svo óskaplega að hún hafi gengið upp í hlíðina, horft yfir fjörðinn og talið sig sjá foreldra sína og systkini við heyskap í túninu heima. Hún hafi ósjálfrátt veifað og viti menn, fólkið litið upp og veifað á móti. Það er eins og Óskar Árni stilli sér upp þarna inni í minningu móður sinnar, mæti augnaráði hennar þvert yfir fjörðinn, handan við tímann. Aftan við hann móðurforeldrarnir og –systkinin á túninu sem horfa yfir til stúlkunnar en komast ekki hjá því um leið að horfa á baksvip aðkomumannsins, afkomanda þeirra. Þessi mynd sem hér er dregin upp, þar sem allar þessar sjónlínur eru strengdar yfir fjörðinn, í gegnum tíma og rúm, er fyrir mér kjarni Skuggamynda.

Það sem snerti mig persónulega mest er þó næstsíðsti kaflinn sem heitir „Sími 6572“. Í honum lýsir sögumaður því hvernig hann flettir símaskránni frá 1950 og finnur nafn, stöðuheiti, heimilisfang og símanúmer föðurbróður síns sem engar skriflegar heimildir eru til um og hann man aðeins óljóst eftir sjálfur: „Gömul símaskrá, þú opnar hana, rennir fingrinum niður síðuna, staðnæmist við nafn og bak við þetta nafn er heil ævi, dagar sem koma á eftir nóttu, mánuðir sem breyta sífellt um nöfn, ár sem taka við af nýju ári með andstreymi sínu og stundum óvæntri birtu“ (s.130). Sjálf hef ég eitt sinn staðið með áratuga gamla símaskrá í rykmettaðri skransölu og flett upp á nafni afa míns sem dó þegar mamma mín var 12 ára. Ég hef auðvitað heyrt margar sögur af honum, bæði frá henni, systkinum hennar og ömmu. Þegar ég var lítil vildi ég á ákveðnu tímabili bara að mamma segði mér söguna af því þegar afi keypti hjólið fyrir háttinn, kvöld eftir kvöld. En þarna, þegar nafnið hans blasir við mér á gulnuðum síðum, þá allt í einu liggur beinn þráður milli mín og hans, milliliðalaust. Og með fingurinn undir símanúmerinu hans heyri ég hvernig stóri svarti skífusíminn hringir í gluggakistunni í borðstofunni á Sóleyjargötu. Afi situr í hægindastólnum fyrir neðan, hann er kominn úr jakkanum en enn með bindið fallega hnýtt um hálsinn. Grásprengt hárið vatnsgreitt. Eldri systkinin sitja við borðið og teikna eða skrifa, sú yngsta kútveltist á gólfinu. Afi stendur rólega upp, lyftir þungu tólinu, leggur það við eyrað og segir halló vinalegum en eilítið hrjúfum rómi. Halló? En fær ekkert svar. Því á hinum enda línunnar er ég, 45 árum síðar. Það var enginn, Gunna mín, segir hann við ömmu sem gægist utan úr eldhúsi og spyr hver hafi verið að hringja. Hann leggur á og sambandið rofnar. Ég stend örlítið lengur með símaskrána í höndunum, tvístíg á brakandi gólffjölum og velti fyrir mér hvort ég eigi að kaupa hana. Enda samt á að leggja hana frá mér og ganga tómhent út í sólina því ég veit að þegar öllu er á botninn hvolft skiptir símaskráin engu máli heldur minningin mín um afa, mín eigin minning um mann sem mögulega líktist ekki á nokkurn hátt þeim sem var pabbi mömmu eða maður ömmu. En hann var afi minn.

2 ummæli:

  1. dásamleg færsla og dásamleg bók - svei mér ef maður fer ekki að lesa hana aftur!

    SvaraEyða
  2. Ég var nnú bara 25 ára þegar ég las þessa bók fyrst og hún varð strax mín uppáhaldsbók. Elska hana. :)

    Takk fyrir skemmtilega færslu!

    SvaraEyða