Sýnir færslur með efnisorðinu bill bryson. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bill bryson. Sýna allar færslur

1. september 2012

A Walk in the Woods í rútu um Bandaríkin

Á nýlegri rútuferð minni um Bandaríkin langaði mig (eftir skammt af skandinavískum glæpum auðvitað) til að lesa eitthvað um ferðalög í Ameríkunni og leitaði til Bill Bryson sem ég hef lengi ætlað að lesa annað eftir en Shakespeare (hana hef ég lesið þrisvar). (Bryson er góðvinur Druslubloggsins og hefur verið fjallað um hann hér). Fyrir valinu varð A Walk in the Woods sem segir frá (þrauta)göngu höfundar um Appalachia-slóðina sem er um 2000 mílur (heimildum ber ekki saman um nákvæma vegalengd) og liggur um mikilfenglega fjallgarða Bandaríkjanna og á nákvæmlega ekkert sameiginlegt með huggulegu rútuferðalagi mínu annað en landið. Það dró þó ekki úr ánægju við lesturinn og þó að mínar göngur hafi helst verið um aðalgötur bæja og borga (með sólhatt og kælt vatn í kaffhaldaranum á barnakerrunni) þá sá ég raunar bæði The Rockies og The Smokies út um gluggan á rútunni og átti ekki vandræðum með að ímynda mér Bryson sveittan í hlíðum fjallanna.
Rocky Mountains séð frá Bozeman Montana en þar
kom ég við...

Bryson hefur ferð sína um þennan fræga götuslóða þegar hann er 44 ára. Jólin áður hafði hann sent línu með öllum jólakortunum og boðið fólki að koma með (hann hryllti við að mæta úlfum, björnum og morðingjum einn á ferð). Einn einasti svaraði kallinu – Stephen Katz, æskuvinur sem hann hafði ekki hitt í 25 ár. Sá reyndist hafa fitnað og ólukkast eitthvað á þessum 25 árum og eftir lýsingar á því hvernig hann mæddist við að ganga upp stigann heima hjá Bryson var erfitt að ímynda sér annað en að hann yrði dragbítur á höfundinum þótt hann væri kannski enginn Ólympíufari sjálfur. Katz reynist vera mikill furðufugl en auðvitað betri en enginn þegar á hólminn (eða fjallið) er komið. Hann tekur gríðarmikið af kleinuhringjum og bollakökum með en hendir síðan helmingnum á leiðinni þegar bakpokinn fer að síga í, hendir dýrmætri vatnsflösku, villist, fer í fýlur, fer á fjörurnar við afmyndaða (og – kemur í ljós – gifta) gengilbeinu og er að sumu leyti það merkilegasta við ferðina. Bryson er reyndar svo brútal stundum í lýsingum á þessum félaga sínum að ég fór alvarlega að velta því fyrir mér hvort hann væri skáldaður, hvort hann hefði svona æpandi mikinn húmor fyrir sjálfum sér - eða hvort hann væri svo lítið menningarlega sinnaður að Bryson treysti því að hann myndi aldrei lesa bókina.

14. janúar 2012

Bill Bryson gægist inn í skúmaskot heimilisins

Ég hef áður minnst á dálæti mitt á hinum viðkunnanlega og einkar notalega rithöfundi Bill Bryson, samanber þessa færslu um Ástralíubækur. Kristín Svava minntist líka á hann í nýlegri færslu og þá í tengslum við óheppilega uppsetningu bókarinnar Made in America í kyndilsformi. Ég fékk hins vegar bókina At Home: A Short History of Private Life í jólagjöf (fyndið, fjölskyldan mín er allsherjarsamansafn lestrarhesta og samt erum við öll með jafnmikið ofnæmi fyrir jólabókaflóðshæpinu og inn í fjölskylduna barst aðeins ein "jólabók", en fullt af annars konar lestrarefni) og hef verið að skemmta mér yfir henni síðasta hálfa mánuðinn.

Bill Bryson er jafndúllulegur og pandabjörn
Í At Home fer Bryson um víðan völl eins og hann yfirleitt gerir; einhver gagnrýnandi lýsti t.d. ferðabókunum hans nokkurn veginn þannig að Bill Bryson fari til útlanda, rölti um, tali í rólegheitunum við þá sem hann rekst á, kíki kannski inn á safn, fái sér að borða á krá og fari snemma í háttinn, með þeim afleiðingum að ári seinna liggja mörgþúsund lesendur í hláturskasti. Ekki svo fjarri lagi. Bryson hefur aðallega skrifað tvær tegundir af bókum; annars vegar eru það ferðabækurnar (t.d. Notes from a Small Island, Down Under og Neither Here, Nor There) og hins vegar bækur af alfræðitoga þar sem hann tekur fyrir eitthvert tiltekið efni, fræðir lesandann um allt milli himins og jarðar í fremur léttum dúr og veltir upp óvenjulegum hliðum (t.d. At Home, Mother Tongue sem fjallar um enska tungu, og A Short History of Nearly Everything, sem er líklega hans þekktasta bók).

13. janúar 2012

Hrokafullir mannhatarar með hríðskotabyssur og napalm

Ég náði þeim merka áfanga nýlega að lesa mína fyrstu bók með aðstoð kyndils – alltaf með puttann á púlsinum eins og þið heyrið. (Og kýs að skrifa orðið með y – pjúra fagurfræðylegyr dyntyr.) Ég valdi bókina nokkurn veginn af handahófi. Ég var að prófa mig áfram með kyndilinn, opnaði fyrst Made in America, sögu enskrar tungu í Bandaríkjunum eftir Bill Bryson, og hún byrjaði mjög skemmtilega, en var á óheppilegu formi þannig að letrið var óþægilega smátt. Eftir að hafa stautað mig í gegnum einn eða tvo kafla gafst ég upp og prófaði Columbine eftir bandaríska blaðamanninn Dave Cullen í staðinn. Hún fjallar um Columbine-árásina í apríl 1999 sem ég geri ráð fyrir að flestir muni eftir, en þá myrtu tveir sautján og átján ára strákar þrettán manns í skólanum sínum í Colorado og frömdu síðan sjálfsmorð. Cullen fjallaði um málið sem blaðamaður á sínum tíma, lagðist í töluverðar rannsóknir út frá því og gaf út þessa bók tíu árum eftir árásina.

Hann rekur annars vegar ævi morðingjanna tveggja, Eric Harris og Dylan Klebold, aðdraganda og undirbúning árásarinnar, og hins vegar það sem kom í kjölfar hennar; lögreglurannsóknina, fjölmiðlaumfjöllunina, líf þeirra sem særðust og aðstandenda hinna látnu, og það hvernig samfélagið tókst á við áfallið. Hann hoppar dálítið fram og til baka og ég er ekki viss um að uppbygging bókarinnar sé alls kostar nógu góð, en þar kom upp einn galli við kyndilinn sem ég hafði áður heyrt af; maður flettir ekki jafn hratt í gegnum rafrænu bókina og þá efnislegu, sem gerir manni erfiðara fyrir að rifja upp ákveðin atriði og gera sér grein fyrir heildarmyndinni.

17. september 2011

Af andfætlingum

Eins og algengt er um bókhneigt fólk stjórnast tilfinningalíf mitt, áhugamál og langanir gjarnan af því sem ég les. Þar er ferðaþorstinn ekki undanskilinn og á síðustu árum hefur góðum bókum tekist að vekja með mér löngun til að ferðast til Ástralíu, sem ég hafði áður fremur leiðinlega mynd af og sá aðallega fyrir mér sólbrennda Breta, sálarlaus úthverfi og verslanaklasa (þökk sé breskum sjónvarpsþáttum, sér í lagi endalausum raunveruleikaþáttum þar sem miðstétta-Bretar í tilvistarkrísu flytja á vit nýs lífs "down under", sem endar yfirleitt með hjónaskilnaði og/eða gjaldþroti). Hér má sumsé lesa um nokkrar af þeim skemmtilegustu Ástralíutengdu bókum sem ég hef lesið á síðustu árum.

Fyrsta skal telja English Passengers eftir Matthew Kneale, sem einmitt segir frá upphafsárum vestrænna landnema í Eyjaálfu, nánar tiltekið á eynni Tasmaníu. English Passengers er ein af þessum sérdeilis safaríku bókum; framvindunni er komið til skila með röddum ótal ólíkra persóna og hún spannar langan tíma og gríðarlega stórt sögusvið. Stór hluti sögunnar er frásögn af ferðalagi þeirra séra Geoffrey Wilsons og Dr. Thomas Potters til Tasmaníu, en sérann er í eins konar pílagrímsferð og er þess fullviss að á Tasmaníu sé sjálfan Edensgarð að finna. Í frásögninni fléttast leyndardómar, ráðgátur og svik saman við afar vel útfærðar lýsingar á tíðaranda og staðháttum, auk þess sem skelfilegum örlögum frumbyggja Tasmaníu eru gerð ógleymanleg skil. Sagan er aldrei þung í vöfum; Kneale ber skynbragð á það fáránlega og skoplega þrátt fyrir að ýmislegt í sögunni sé átakanlegt, og þá sérstaklega sá hluti sem snýr að endurminningum Peevays, frumbyggja sem lendir milli tveggja menningarheima. Ég er afskaplega veik fyrir bókum sem hafa marga sögumenn; ef vel er skrifað vekur það upp alls kyns áhugaverðar spurningar um sannleika, trúverðugleika og mótívasjónir þess sem talar. Ég las þessa fyrir nokkrum árum og hún var klárlega ein af fimm bestu bókum sem ég las það árið.