26. október 2012

Af norrænu messuhaldi, menningartímaritum og tungumálapólitík

Ritstýrur sitja fyrir svörum: Charlotte Myrbråten frá Fett,
Anneli Carnelid frá Bang og Sara Eriksson frá Astra
Orðið bókamessa fannst mér hálfskrítið þegar ég heyrði það fyrst, vekjandi tengsl við einhverskonar tilbeiðslu eða helgisiði ‒ en ef að einhversstaðar eru aðstæður til tilbeiðslu á bókmenntum þá er það auðvitað einmitt á bókamessunum. Þær eru ekki bara gríðarstórir bókamarkaðir heldur einnig vettvangur allskonar pallborðsumræðna og viðtala og upplestra rithöfunda, útgefenda og annarra úr faginu. Bókaforlög og allskonar bókmenntatengd batterí og hagsmunasamtök eru með bása og ekki verra að oft er tækifærið notað til að setja upp matarmessu í sama húsnæði, svo þegar messugestir eru orðnir svangir og þreyttir í eyrum og athyglisgáfu má rölta yfir á matarsvæðið og smakka í nokkrum vel völdum básum.

Í ár var ég svo heppin að vera boðið á þýðendaseminar á bókamessunni í Gautaborg, sem er sú stærsta á Norðurlöndum. Þar var ýmislegt í gangi, yfirþyrmandi margt reyndar. Allt sem ég missti af væri út af fyrir sig upptalningarefni í minnst eina færslu (það sem kemur helst upp í hugann og mér fannst hljóma virkilega áhugavert var Gunilla Bergström, höfundur Einars Áskels, með erindið Hvem er pappa Åberg?)

Fulltrúar tilnefndra sænskra menningartímarita
ársins 2012 við verðlaunaafhendinguna
Það fyrsta sem ég tékkaði á þegar seminarprógramminu sleppti var bás helgaður norrænum menningartímaritum, en kvöldið áður hafði verið tilkynnt hvaða sænska tímarit hlyti verðlaun sem menningartímarit ársins 2012 (sigurvegarinn var listatímaritið Paletten, sjá frétt). Í tímaritabásnum sá ég viðtal við ritstjóra þriggja tímarita með femínískar áherslur; hins finnlandssænska Astra, norska Fett og sænska Bang. Bang var ekki tilnefnt sem tímarit ársins í ár en var reyndar einmitt það sem langflestir fulltrúar hinna tilnefndu rita nefndu við athöfnina, aðspurðir hvaða tímarit önnur hefðu átt skilið tilnefningar.

Maður finnur óneitanlega fyrir smæð og einangrun Íslands sem menningarsvæðis í þessu samhengi; þrátt fyrir tiltölulega viðvarandi umræðu um jafnréttismál, þar sem bloggið knúz.is hefur t.d. verið öflugt, þá virðast einfaldlega ekki forsendur til að halda úti íslenskum prentmiðli af þessu tagi með tilheyrandi kostnaði. En þó að skandinavísku miðlarnir geti tæknilega séð náð útbreiðslu um allt það svæði er það auðvitað ekki alltaf svo einfalt. Ég veit til dæmis að virkni sænsku femínistasenunnar er finnskum femínistum stundum efni til öfundar, og það gildir alveg jafnt um þá sænskumælandi ‒ því þrátt fyrir að deila sænsku sem móðurmáli eru Finnlandssvíar síst á einu og sama menningarsvæði og Svíar, ekki frekar en Írar eru sjálfkrafa hluti af bresku senunni. Til dæmis er alls ekki sjálfgefið að vinsælir finnlandssænskir rithöfundar eigi upp á pallborðið á sænskum markaði. Þó ná alltaf einhverjir úr þeirra hópi í gegn, en dæmi um slíka höfunda í dag eru Monika Fagerholm, Kjell Westö og Jörn Donner.
Monika Fagerholm (t.h.) í
viðtali á bókamessunni í Turku
Hvað sem öðru líður er sameiginlegt tungumál þó ekki til að vanmeta, og bókamessan í Gautaborg er heilmikill viðburður fyrir rithöfunda úr hinu litla finnlandssænska samfélagi (um 340.000 af rúmum 5 milljónum íbúa Finnlands). Þar geta þau líka tjáð sig á eigin máli, sem hlýtur að vera mikilvægasta tól hvers rithöfundar, en í heimalandinu enda þau oft með að tjá sig á máli meirihlutans (t.d. sá ég viðtal við Moniku Fagerholm á finnskri bókamessu um daginn, og þótt hún tali góða finnsku eins og margir Finnlandssvíar kom það fyrir að hún fálmaði eftir orðum og spurði spyrilinn hvað þetta eða hitt sænska orð væri á finnsku).

Þema Gautaborgarmessunnar í ár var einmitt Norðurlönd og það var þema Turkumessunnar síðasta haust reyndar líka ‒ óneitanlega hentugt og nærtækt og vænlegt til vinsælda að setja fókusinn þar. Á Gautaborgarmessunni sá ég m.a. pallborðsumræður um norrænan húmor og missti um leið af umræðum um norræna ljóðlist sem fóru fram á sama tíma. Í báðum tilvikum var lagt upp með þá spurningu hvort væri yfirhöfuð hægt að skilgreina einhvern sérnorrænan húmor/ljóðlist, og hver einkennin væru þá. Útkoman úr ljóðaumræðunni var, frétti ég, í grófum dráttum sú að engin sérstök norræn ljóðlist væri til. Húmoristarnir voru sömuleiðis sammála um að norrænan húmor væri ekkert hægt að afmarka sem slíkan ‒ en jafnframt á einu máli um að norræni húmorinn bæri þó augljóslega höfuð og herðar yfir annan.
Semsagt yfirþyrmandi margt að segja um þetta alltsaman... stefni á að skrifa aftur og betur um einhver af þessum gæðatímaritum, eða eitthvað af öllum þessum umræðum og upplestrum, eða bara um hressa utandagskrárviðburði eins og villtan dans við undirleik rokkabillíbands Mauri Kunnas og Kjell Westö.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli