Í sumar kom út á þremur tungumálum
(íslensku, ensku og þýsku) vegleg matreiðslubók,
Boðið vestur,
veisluföng úr náttúru Vestfjarða eftir Guðlaugu Jónsdóttur og
Karl Kristján Ásgeirsson, með ljósmyndum Ágústs Atlasonar. Bókin
er meira en matreiðslubók, hún er full af allskonar
alþýðufróðleik, upplýsingum um Vestfirði, frásögnum
af sérstökum hátíðum fyrir vestan og fróðleik um lifnaðarhætti
og matarverkun fyrr og nú. Í formála segja höfundarnir að þau
vilji ýta undir vakningu fyrir nauðsyn þess að viðhalda gömlum,
svæðisbundnum matarhefðum sem ekki mega glatast. Einnig vilja þau
hvetja fólk til að nýta það sem náttúran býður upp á og
gera umheiminum ljóst að Vestfirðir séu svæði með stórbrotinni
náttúru og góðu mannlífi sem eftirsóknarvert er að búa á og
heimsækja.
Ég er búin að fletta og lesa kafla
og kafla í
Boðið vestur öðru hverju síðan í sumar og verð
sífellt ánægðari með þessa bók. Hún er kaflaskipt eftir
mánuðum og hefst á sólardaginn, 25. janúar og fyrsta uppskriftin
er auðvitað að pönnukökum. Síðan er fetað áfram fram eftir
ári, fjallað um sólþurrkun á saltfiski fyrr á tímum,
léttsöltun dagsins í dag og gefnar uppskriftir að saltfiskréttum.
Svo er þarna kafli um hákarl og harðfisk og þó að ég éti
ekki hákarl nema tilneydd þá er náttúrulega óskaplega
skemmtilegt að lesa laufléttan fróðleik um hákarlsverkun með
tilvitnunum í
Íslenska sjávarhætti og sömuleiðis um rækjuveiðar
við Djúp, framleiðslu hnoðmörs og fleira áhugavert sem gaman að er að kunna skil á.
Uppskriftirnar eru ýmist afskaplega nútímalegar (t.d.
saltfiskþynnur með basil- og balsamolíu, silungstartar með
hundasúrum, ofnbakaðar skarfabringur með döðlusósu og
beikonfylltum kartöflum, marineraður steinbítur með teriyaki og
núðlum með sætri chilisósu) eða gamlar (hveitikökur, vestfirsk
fiskistappa, kleinur, rúgbrauð, plokkfiskur, kjötsúpa,
aðalbláberjasulta) og svo eru líka í bókinni uppskriftir að
hversdagsmat á borð við fiskibollur kryddaðar með lúxuskryddinu aromati, sem maður
ætti auðvitað að elda mun oftar, svo fátt eitt sé talið.
Það er heilmargt í þessari bók sem
ég mun seint prófa að kokka, reyksoðin langvía með bláberjasósu
er þess á meðal, en mig langar alveg að smakka svoleiðis svo
kannski ég svipist um eftir langvíu á matseðlum þegar ég fer vestur. Pönnusteiktan karfa með soja, gráðosti og banönum prófa
ég hins vegar mögulega og lambaskanka með saffrankrydduðu risotto
líka, jafnvel bara á laugardaginn. Ég hafði uppskrift að að
villisveppasúpu úr
Boðið vestur til hliðsjónar þegar ég bjó
til súpu seint í sumar. Sveppina tíndi ég í uppsveitum Reykjavíkur og
það kom bara vel út.
Myndirnar í bókinni eru mjög fínar landslagsmyndir, girnilegar myndir af
mat og vínflöskum og dálítið „túristalegar“ myndir í
bland, skíðakona á upphlut og svona ... en það er raunar
einstaklega skemmtilegt að fá bók á borð við þessa um svæði
á sínu eigin landi. Ég hef bara einu sinni komið til Vestfjarða
á fullorðinsárum og finnst núna að ég þurfi eiginlega að
skreppa aftur fljótlega. Þetta er líka alveg rakin bók til að
gefa erlendum ensku- eða þýskumælandi vinum sínum með
Íslandsdellu. Jafnvel þó að þeir búi í útlöndum og hafi ekki
aðgang að lunda úr Vigur, tindabikkju og fjallagrösum þá er
þarna fullt af uppskriftum úr hráefni sem er allsstaðar
aðgengilegt og svo hafa örugglega margir voða gaman af að
spekúlera í hvaða ómeti skrítlingarnir fyrir vestan éta af bestu lyst.
Mér finnst (persónulega vitanlega) alltaf svo leitt að franskan sé höfð útundan í svona útgáfum. Pourquoi?!
SvaraEyðaFrakkar eru duglegir að heimsækja landið og algerir sælkerar og sverma vitanlega fyrir öllu sem er svæðisbundið!
Þú segir nokkuð. Sendu Uppheimum línu og spurðu hverju þetta sæti.
SvaraEyða