13. október 2012

Af sögu frjálshyggjunnar

Þegar ég var í framhaldsskóla fannst mér fátt leiðinlegra en saga. Mér fannst hún bara snúast um landamæradeilur og hanaslagi einhverra karla sem komu mér ekkert við; mér var eiginlega bara slétt sama hver hefði verið kóngur hvar og hvenær. Í fyrsta söguáfanganum mínum í MH lenti ég á kennara sem var fremur daufur og líflaus í framkomu, eins og hann væri ein af blaðsíðunum í kennslubókinni, og af því dró ég þá ályktun að sögukennarar væru vita gagnslaus fyrirbæri, sem og mæting í sögutíma. Ég tók því afganginn af framhaldsskólasögunni utanskóla og nám mitt í þeim þremur áföngum fól þá í sér að ég skrifaði tvær ritgerðir, aðra um uppkastið að sambandslögunum frá 1908 og hina um rússnesku byltinguna, og lestur undir lokapróf hvers áfanga, sem fram fór á síðustu stundu.

Ritgerðarefnið um Uppkastið var (kannski augljóslega) ekki eftir mínu höfði. Sem nemandi í svokölluðum P-áfanga (það hét svo þegar nemandi tók stök námskeið utanskóla) átti ég að hafa samband við umsjónarkennara viðkomandi námskeiðs, sem í þessu tilviki var maður sem þótt ekki skapgóður og ég var skíthrædd við hann og frestaði því að hafa samband við hann eins lengi og ég gat. Þegar ég kom loksins á fund hans mældi hann mig út og sagði geðvonskulega: „Af hverju talaðirðu ekki við mig fyrr?“ Ég stamaði einhverju upp úr mér og hann sagði þá, með sama fýlutóninum og áður: „Þú átt að skrifa ritgerð. Hún á að fjalla um Uppkastið.“ Svo skrifaði hann eitthvað á blað og rétti mér: „Þetta eru heimildirnar sem þú átt að nota.“ Ég er sannfærð um að hann hefur gagnvert valið það ritgerðarefni sem hann hefur talið ólíklegast að feimnisleg 17 ára stelpa gæti mögulega haft áhuga á. Ritgerðina skrifaði ég samviskusamlega og fékk held ég bara sómasamlega einkunn fyrir, en ekki get ég sagt að ég myndi þekkja þetta verk mitt aftur ef það ræki óvænt á fjörur mínar. Ritgerðarefnið um rússnesku byltinguna fékk ég að velja sjálf, hjá öðrum kennara síðar, og líklega fékk ég heldur meira út úr þeim skrifum. Sú ritgerð hefur sennilega verið sú fyrsta sem ég skrifaði á tölvu (svona er ég nú orðin gömul) og ég man að ég vandaði mig mikið við að búa til flotta forsíðu á hana. Af námsefninu sem ég las til prófs man ég sama og ekkert.


Einar Már Jónsson (2012), Örlagaborgin
Reykjavík: Ormstunga.
Þessi pistill á annars ekkert að vera einhver nostalgísk upprifjun á menntaskólaárum mínum heldur á hann að vera um Örlagaborgina eftir Einar Má Jónsson þar sem saga frjálshyggjunnar er rakin á fimm hundruð síðum. Þetta er í raun ekki öll sagan, bókin endar seint á 19. öldinni og framhaldi er lofað, enda er undirtitill bókarinnar „Brotabrot úr afrekasögu frjálshyggjunnar. Fyrri hluti“. Ég fór að rifja upp menntaskólareynsluna vegna þess að bókin hefur orðið mér tilefni til hugleiðinga um framsetningar á sögu og um hvað það er sem vekur áhuga manns við að lesa sögu. Mér finnst ég nefnilega sífellt finna það betur, eftir því sem ég eldist og (vonandi!) vitkast, hvað það getur verið mikilvægt og áhugavert að þekkja söguna í því skyni að átta sig á nútímanum. Þetta var eitthvað sem ég hafði enga tilfinningu fyrir sem unglingur. Mér fannst reyndar alltaf skemmtilegt að fræðast um líf fólks í gamla daga gegnum ýmiss konar skáldskap, hvort sem var ritaðan eða leikinn, eða aðrar frásagnir sem greindu frá fólki og atburðum sem ég náði að tengja mig við. Sögukennslubækurnar sem ég var látin lesa sem barn og unglingur voru fremur þurrar og fjölluðu lítið um fólk sem ég gat myndað einhverja samkennd með. Líklega hefur vandinn verið sá að ég gat ekki með nokkru móti lifað mig inn í frásögnina í þeim en það fannst mér nauðsynlegt til að geta fundið fyrir áhuga á viðfangsefninu. Ástæða þess að ég hafði mjög gaman af Örlagaborginni, þrátt fyrir að mitt sautján ára gamla sjálf hefði fátt hryllilegra getað hugsað sér en að lesa 500 blaðsíður um sögu frjálshyggjunnar, eða bara sögu einhvers yfirleitt, er því sennilega tvíþætt: 1) Ég hef breyst síðan ég var 17 ára og 2) Frásagnarmátinn er óhefðbundinn og langt frá því að vera þurr upptalning á atburðum. 

Bókin fjallar ekki bara um atburði heldur er tilgangurinn jú að gefa okkur mynd af tilurð og uppgangi frjálshyggjunnar og til þess þarf heilmikla hugmyndasögu. Einari Má tekst mjög vel að flétta saman það sem við gætum kallað sögu af atburðum og það sem kallast fremur hugmyndasaga og hann nær að segja þannig frá atburðum að það gefi einhverja mynd af því hvernig þeir snertu líf alls konar fólks. Auk greiningargildis síns gagnaðist bókin þannig vel til að fylla upp í ýmis göt í minni hripleku söguþekkingu. Það má vel vera að ég hafi lesið eitthvað um girðingamál Englendinga í menntaskóla, en ef svo er þá hef ég löngu verið búin að gleyma því.

Örlagaborgin er um margt óvenjuleg bók. Hún felur í sér heilmikla greiningu á því hvernig frjálshyggja kom til sögunnar og þróaðist í Evrópu, fyrst og fremst á Bretlandseyjum, á 17. til 19. öld. og það má kannski segja að sú greining sé megintilgangur hennar. Höfundur gerir enga tilraun til að sýnast hlutlægur í umfjöllun sinni. Það er vissulega algengt að höfundar séu ekki hlutlausir; þeir sem greina eitthvað komast jú gjarnan að einhverri niðurstöðu á grundvelli greiningarinnar. Það er því ekkert óvenjulegt við að Einar Már taki afstöðu gegn frjálshyggjunni í skrifum sínum en það er kannski eitthvað óvenjulegt við að hann reyni ekki að gefa sig út fyrir að vera sanngjarn eða hlutlægur í rökstuðningi fyrir afstöðu sinni. Persónurnar eru gæddar lífi þannig að við fáum uppdiktaðar senur þar sem hinar ýmsu sögulegu persónur koma við sögu og þannig getur hann eignað þeim ýmis persónueinkenni sem eru jákvæð eða neikvæð eftir atvikum. Það má kannski líka orða þetta svona: Höfundurinn leggur upp með ákveðna afstöðu, hann er greinilega eindreginn félagshyggjusinni og lítill aðdáandi þeirrar efnahagskenningar sem kölluð hefur verið frjálshyggja. Í allri umfjöllun í bókinni liggur þessi afstaða til grundvallar.

Þessi aðferð hefur ákveðna kosti, til dæmis er hún að mörgu leyti heiðarlegri en þar sem höfundur hefur í raun mjög afgerandi afstöðu en reynir að fela hana eða telur sig einhvern veginn geta lagt hana alveg til hliðar og verið fullkomlega hlutlægur. Hún gerir bókina líka skemmtilegri aflestrar, það er eitthvað hressilegt við þetta. Ég get hins vegar ímyndað mér að þetta kunni að fara í taugarnar á þeim sem ekki deila afstöðunni með Einari Má; að sannfærður frjálshyggjusinni sem reynir að lesa þessa bók geti fundið fyrir sams konar pirringi og ég hef fundið þegar ég hef reynt (og gefist upp á) að lesa Ayn Rand. Aðferðin gerir það að verkum að bókin getur tæpast talist til fræðirita. Það þýðir ekki að höfundur sýni ekki í henni heilmikla fræðilega þekkingu því það gerir hann svo sannarlega. Og það eru bæði kostir og gallar við það. Bók getur auðvitað verið bæði fróðleg og fræðandi þótt hún sé ekki fræðirit sem stenst allar þar að lútandi kröfur.

Til að fyrirbyggja misskilning: Ég er alls ekki að halda því fram að höfundar fræðirita þurfi að vera lausir við afstöðu gagnvart viðfangsefninu til að geta framfylgt þeim reglum sem þar gilda um vinnubrögð. Höfundur fræðirits hlýtur alltaf að hafa einhverja afstöðu. Það væri eitthvað mjög undarlegt við það að fást við langar og miklar rannsóknir á einhverju efni og skrifa um það bók án þess að mynda einhverja afstöðu til þess, hafi maður ekki haft hana fyrir. Þar að auki er erfitt að hugsa sér hvers vegna einhver ætti yfirleitt að nenna að fást við langar og miklar rannsóknir á efni sem hann hefði enga afstöðu til. En það eru ýmsar aðferðir sem höfundar fræðirita beita til að reyna að auka hlutlægni í umfjöllun sinni þótt borin von sé að meðferð mannlegrar veru á einhverju efni verði nokkurn tíma fullkomlega hlutlæg. Og Einar Már beitir ekki þeim aðferðum, eða brýtur að minnsta kosti margar slíkar reglur, og gerir sér eflaust fulla grein fyrir því. Tilgangur ritsins er ekki bara sá að upplýsa okkur um sögu frjálshyggjunnar heldur er hann um leið að koma á framfæri ákveðinni afstöðu.

Það hafa ýmsir orðið á undan mér til að fjalla um þessa bók og kannski er óþarfi að endurtaka hluti sem þegar hafa verið sagðir. Ég ætla heldur ekki að fara að endursegja efni bókarinnar. Ég er mjög ánægð með bókina og hafði, eins og áður sagði, af henni bæði gagn og gaman. En þar sem aðrir hafa farið svo lofsamlegum orðum um bókina ætla ég að leyfa mér að pota aðeins í örfá atriði:

Bókin er að forminu til eins konar skáldsaga og þannig uppbyggð að lesandanum er boðið á einhvers konar kvikmyndasýningu í hinni svokölluðu örlagaborg. Örlagaborgin hefur að geyma óendanlega mörg hverfi og þar með óendanlega margar byggingar og hver þeirra stendur fyrir eitthvað sem hefði getað orðið, einhver möguleg örlög, eitthvert mögulegt ástand sem hefði getað ríkt í heiminum. Hver atburður eða ákvörðun sem hefði getað verið á annan veg markar tímamót því hvert smáatriði hefur jú einhverjar afleiðingar sem hafa svo aðrar afleiðingar og heimurinn gæti hafa orðið allt annar. Þetta er sama hugmynd og hugmyndin um mögulega heima sem gjarnan er kennd við heimspekinginn Gottfried Wilhelm Leibniz (1646-1716) og sem Voltaire skopast að í Birtingi. Hjá Leibniz eru hinir mögulegu heimar óendanlega margir en Guð hefur skapað þann besta þeirra. Heimspekingar nútímans tala oft um mögulega heima og þá er það yfirleitt ekki í bókstaflegum skilningi frekar en þegar Einar Már talar um örlagaborgina. Ég gæti til dæmis sagt „Í öðrum mögulegum heimi er ég ekki að skrifa Druslubókabloggfærslu núna heldur að úða í mig lakkrís og horfa á bíómynd“ og þá átt við eitthvað sem ég hefði getað verið að gera en ekki að þessi heimur lakkrísátsins sé í einhverjum skilningi til. Hitt er þó líka til að mögulegu heimarnir séu hugsaðir meira bókstaflega og fyrir það varð heimspekingurinn David Lewis (1941-2001) þekktur. En það sem máli skiptir hér er að mögulegir heimar geta verið mjög sniðugt og skemmtilegt tæki til að velta fyrir sér því sem ýmist er mögulegt eða ómögulegt, raunverulegt, nauðsynlegt og tilfallandi. Þeir geta þannig verið gagnlegir sem hugmynd bæði í heimspeki (þeir eru mikið teknir bæði í frumspeki og í málspeki) og í bókmenntum, leikritum og bíómyndum. Mér dettur til dæmis í hug kvikmyndin Sliding Doors frá 1998 með Gwyneth Paltrow í aðalhlutverki. Sú mynd þótti víst ekkert sérlega merkileg en mér fannst hún nú samt sniðug.

Mér finnst bráðsniðugt að nota þessa hugmynd í bókinni en það hefði mátt gera miklu meira með hana og vinna betur og með markvissari hætti úr henni. Einar Már skýrir hugmyndina út frá karíkatúrpersónunni doktor Altungu úr Birtingi, sem lætur dæluna ganga um það hve stórkostlegur þessi besti heimur allra mögulegra heima sé, sama hvaða hörmungar það eru sem á honum og öðrum sögupersónum dynja. Mér fannst dálítið undarlegt að nota hugmyndir hins ágæta doktors sem rökstuðning fyrir örlagaborginni (sem Einar Már virðist vera að gera á bls. 65) því það eru jú til mun betri rök fyrir því að fara þessa leið en rök annálaðs erkikjána. En fyrst hann kýs að leiða okkur inn í hugmyndina gegnum þá hugsun að okkar heimur, hinn raunverulegi heimur, sé sá sem er bestur hefði verið upplagt að tengja hana framfarakenningunni (mér fannst kaflinn um þá kenningu hreint út sagt frábær!) sem er jú náskyld hugsun: að það sé einhvers konar lögmál að heimurinn verði alltaf betri og betri.

Eiginlega gerir Einar Már frekar lítið með þessa hugmynd um hið mögulega og hið ómögulega og mér finnst hún stundum þvælast óþarflega fyrir þegar hann þarf alltaf að vera að taka það fram að við séum stödd í fyrsta hverfinu eða herberginu í örlagaborginni, það er því sem stendur fyrir það sem raunverulega gerðist. Eina tilvikið þar sem ég man eftir að hann nýti hugmyndina eitthvað að ráði er þegar hann hugleiðir hvernig hlutirnir hefðu orðið ef Adam Smith hefði ekki verið skilað aftur þegar honum var rænt af sígaunum fjögurra ára gömlum og hann hefði orðið fiðluleikandi sígauni í stað þess að verða hagfræðingur. Fyrst bókin er sviðsett útfrá þessari hugmynd hefði mátt leika sér mun meira með hana.

Elizabeth Gaskell (1810-1865) er eina konan sem kemur 
eitthvað að ráði við sögu í bókinni. Í lok bókarinnar er listi
með sögupersónum. Þar eru 63 nöfn og þar af eru þrjú
nöfn á konum.
Annað sem mig langar að nefna er að Örlagaborgin gefur okkur takmarkað sjónarhorn á söguna. Henni er væntanlega ekki ætlað annað, það er vitaskuld ekki hægt að fjalla um allt í einu. Hún fjallar sérstaklega um frjálshyggju og það sem að þróun hennar lýtur og sögusviðið er mikið til bundið við Bretlandseyjar, með stuttri viðkomu í fáeinum öðrum löndum. En það er væntanlega ýmislegt annað sem einkennir líf fólks á þessu tímabili og sem mótar hugmyndaheiminn. Hjá mér vöknuðu spurningar um það með hvaða hætti bjástur Breta og annarra í fjarlægum nýlendum hafi tengst þessari þróun. Einar Már minnist reyndar eitthvað á nýlendur í tengslum við innflutning á vörum og stefnumál þeirra sem með valdið fóru en það er ekki mikið. Eins fór femínistinn í mér að velta því fyrir sér hvort hið mjög svo einkennandi atriði í valdastrúktúr samfélagsins gegnum aldirnar, stöðumunur karla og kvenna, hafi ekki haft áhrif á þróun frjálshyggjustefnunnar. Önnur nátengd spurning: hvar voru allar konurnar (sjá myndatexta)? Og svo fannst mér líka lítið fjallað um tengsl við lýðræðisþróun til dæmis í kringum byltingar bæði í Frakklandi og í Bandaríkjunum sem áttu sér stað á þessum sama tíma eða tengsl við hugmyndir þeirra sem töluðu fyrir lýðræði (t.d. Rousseau eða Paine, ja, eða Wollstonecraft) eða einveldishollra Breta (t.d. Burke). Vissulega er ekki hægt að ætlast til þess að gerð sé grein fyrir öllum mögulegum áhrifaþáttum, nógu löng er bókin nú samt, en þetta er nokkuð sem gerir það ljósara að bók sem þessi mótast mikið af sjónarhorni höfundar og áhersluþáttum hans. Með það fyrir augum finnst mér þetta stórgóð bók.

Eftirmáli: Þegar ég var barn hitti ég stundum Einar Má Jónsson því að foreldrar mínir þekktu hann vel. Síðustu samskipti sem ég man eftir að hafa átt við hann voru þegar ég var á að giska tíu eða ellefu ára og þá ræddum við um bækur og hann bað mig að sýna sér uppáhaldsbækurnar mínar. Þær upplýsingar finnst mér relevant á bókabloggi. Eftir það hef ég stundum heyrt í honum í útvarpi og ég þekki því nokkuð vel hvernig rödd hans hljómar. Það olli því að mestallan tímann meðan ég var að lesa Örlagaborgina fannst mér ég heyra Einar Má vera að lesa hana upp. Það var dálítið sniðugt en varð svolítið þreytandi líka, en það er víst ekki við hann að sakast út af þessu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli