Ein okkar druslubókadamanna flutti búferlum á dögunum. Hún þurfti ekki að flytja um langan veg en þetta var engu að síður ærið verkefni – ekki síst vegna allra þeirra bóka sem höfðu safnast á hennar hendur í gegnum árin. Ég fékk kvíðakast í hvert sinn sem ég sá nýjustu stöðuuppfærslur þessarar vinkonu minnar á facebook þar sem hún lýsti því hvernig hún sat í hrúgu af allskyns dóti sem hún var ekki viss um hvað ætti að gera við - svefnlaus og með harðsperrur í öllum útlimum. Að flytja er nefnilega eitt það versta sem ég veit. Það helgast líklega af því að ég hef haft þann leiða ávana í gegnum tíðina að sanka að mér allskyns dóti og drasli. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar ég þarf að fara í gegnum eigur mínar hvað leynist þar. Síðustu flutningar voru reyndar sérstaklega sársaukafullir þar sem ég þurfti að flytja milli landa og fara í gegnum alla búslóðina. Ýmislegt kom upp sem ég hefði betur verið löngu búin að losa mig við. Þetta átti ekki hvað síst við þegar kom að eldhúsinu. Ég komst til dæmis að því að ég átti þrjár hvítlaukspressur og tvær salatvindur og nota raunar slík tól afar sjaldan. Út úr skápunum ultu margir árgangar af jólakortum, gömul tímarit í stöflum og bækur á bækur ofan. Ég fyllti ótal poka af fötum sem ég hafði ekki gengið í í mörg ár, gaf DVD myndir sem ég horfði aldrei á og geisladiska sem ég hlustaði ekki á.
Nú þarf ég bráðum að flytja aftur og í ferðum mínum í bókabúðir síðustu vikur hef ég blaðað í gegnum nokkrar bækur sem gefa sig út fyrir að hjálpa þér að skipuleggja eigur þínar. Yfirleitt held ég nú að það sé ekki mikið á þessum bókum að græða, mér hefur sýnst að flestar þeirra reyni að hjálpa lesendum sínum að flokka og raða – segja þeim að laga til og komi með einhverjar tillögur að kerfum til að fella dótið inn í. Á dögunum rakst ég hinsvegar á eina bók í þessum anda sem vakti áhuga minn og ég greip hana með mér inn á kaffihús bókabúðarinnar. Hún ber titilinn The Joy of Less. A Minimalist Living Guide og er eftir konu að nafni Francine Jay. Ég sá strax að hún var annarar gerðar en flestar hinar bækurnar sem ég hafði kíkt á. Yfirlýst markmið hennar er einfaldlega að kenna fólki að eiga færri hluti – komast vel af með minna af öllu og ráðast þannig að rótum vandans.
Á hverjum degi fáum við þau skilaboð að með því að eignast fleiri hluti muni okkur líða betur og mögulega færast nær hamingjutakmarkinu. Í huga Francine Jay er enginn vafi á því að þessu er einmitt öfugt farið – dótið íþyngir þér og skapar meiri vanlíðan. Við vinnum myrkanna á milli til þess að fylla híbýli okkar af hlutum sem hafa lítinn tilgang, másum eins og slefandi hamstrar á hjóli við að fylla tómið. Hugsið ykkur orkuna sem fer í að eigast og eiga einn hlut – við hugsum um að festa kaup á einhverju, lesum ótal umsagnir um hlutinn á netinu, leitum að besta verðinu, vinnum fyrir fjárútlátunum, keyrum í búðina til að versla hlutinn, finnum stað fyrir hann á heimilinu, lærum að nota hann og þrífa, sinnum viðhaldi, kaupum viðeigandi varahluti o.s.frv. Fyrirtækin selja okkur ekki bara hlutinn sjálfan heldur efni og tæki til þess að hugsa um hann – þvottaefni fyrir fötin, skóáburð fyrir skóna og tryggingar til að leita til ef svo illa færi að hlutunum yrði stolið. Lásasmiðir og öryggisfyrirtæki selja okkur vernd fyrir allt dótið okkar og sendibílstjórar hafa atvinnu af því að flytja það. Það er ekkert undarlegt þótt okkur líði stundum eins og dótið okkar eigi okkur en ekki við það. Fyrstu kaflar bókarinnar fara í það að leiða út þetta ástand fyrir lesendum – útskýra hvernig eigur okkar geta bundið okkur niður, hindrað okkur í því að nýta okkur ný tækifæri (t.d. starf í öðru landi) og sannfæra okkur um að þetta þurfi alls ekki að vera svona.
Nú álít ég mig alls ekki vera neinn sérstakan neysluþræl en það var engu að síður margt sem ég kannaðist við í lýsingum höfundar og sum ráð hennar gæti ég hugsanlega nýtt mér. Nokkur þeirra gætu þó virst of sársaukafull, t.d. það að leyfa ekki nýrri bók að koma inn á heimilið fyrr en þú losar þig við eina gamla. Í raun gengur heimspeki Francine Jay voða mikið út á það að losa sig við hluti, endurmeta gildi þeirra og leggja svolitinn tíma í það að hugsa um hvort hlutinn nýtist okkur eða ekki. Og ef hann gerir það ekki, eða við njótum hans ekki á neinn hátt, þá hefur hann ekki þegnrétt inn á heimilinu. Í bókinni er farið sérstaklega í hvert herbergi hússins og komið með tillögur að því sem hægt væri að losa sig við - áttu átta augnskugga en notar samt alltaf bara tvo? Losaðu þig þá við þessa sex sem þú notar aldrei.
Ég renndi í gegnum alla bókina á hundavaði en engu að síður held ég að mér hafi tekist að tileinka mér nokkur af ráðum minimalistans Francine Jay. Mögulega tekst mér að sýna það í verki á mínu næsta heimili.
Ég held að við séum mörg alveg að drukkna í dóti. Svo þegar maður fer og dvelur einhvers staðar annars staðar um tíma án þess að vera með dótið sitt með sér þá er ósköp fátt sem maður saknar. Ég er alltaf meira og meira að komast á þá skoðun að maður sé hreinlega að íþyngja fólki með því að gefa því eitthvert dót í afmælis- og jólagjafir, nema það sé þeim mun betur valið. Upp á síðkastið hef ég reynt að færa mig yfir í að gefa bara eitthvað sem hægt er að borða eða þá eitthvað sem er hægt að klæða sig í og svo, jú, ég geri undantekningu fyrir bækur. Mér finnst þær einhvern veginn ekki vera "dót" á sama hátt og margt annað og þær eru alla vega tiltölulega fyrirferðarlitlar (hver og ein) og staflast og raðast þægilega.
SvaraEyðaÉg læt mig dreyma um að losa mig við fullt af dóti en svo hef ég líka gaman af alls konar skrýtnum hlutum og þar að auki fæ ég aldrei af mér að henda hlutum sem einhver sem mér þykir vænt um hefur gefið mér. Ég er svona alltaf smám saman að færast nær því að sætta mig við að ég sé bara ekkert góð húsmóðir og að hugur minn og metnaður standi ekki til þess og að ég sé ekki fullkominn lúser þótt ég sé léleg í sumu og að mörgum þyki sjálfsagt vera óbærilega mikið drasl heima hjá mér.