7. nóvember 2012

Ljóðabók um okkur og allt

Ljóðabókin Á milli okkar allt er fyrsta bók Heiðrúnar Ólafsdóttur. Höfundur stundar meistaranám í ritlist og hlaut nýræktarstyrk bókmenntasjóðs fyrr á þessu ári fyrir handritið, en í viðtali við stúdent.is kemur fram að ljóðin í bókinni hafi orðið til á tíu ára tímabili.


Bókartitillinn kemur ansi bókstaflega fram í titlum hlutanna þriggja sem hún skiptist í; heitir sá fyrsti „Ég“, annar „Allt“ og þriðji „Þú“. Í takt við þessar yfirskriftir er áherslan þannig einkum á fyrstu persónu, eða ljóðmælanda sjálfum í fyrsta hluta bókarinnar og í þriðja hluta á þeim sem ljóðmælandinn ávarpar. Ég-ið og þú-ið skarast þó auðvitað og óhjákvæmilega, því eins og bókartitillinn undirstrikar samfléttast þau í fleirtölunni, „okkur“ (og auðvitað ekkert sem segir að ljóðmælendur almennt geti ekki ávarpað sjálfa sig í annarri persónu einnig eða eingöngu, ef út í það er farið). Kaflaskil eru þó skörp að því leyti að í miðjukaflanum „Öllu“ eru ljóðin almennara eðlis; frekar í ætt við yfirvegaðar athuganir en innhverfa sjálfskoðun, með umheiminn og hversdaginn til umfjöllunar. Ef til vill má líta á þann kafla sem hvíld frá þesskonar tilfinningaálagi og naflaskoðun sem „við“-pælingar eiga til að hafa í för með sér, og sem eru nokkuð gegnumgangandi í upphafs- og lokahlutunum með tilheyrandi óþreyju og ófullnægju á stundum. Þó er slík stemning ekki alls fjarri í miðhlutanum heldur – því ef „allt“ er einfaldlega allt það sem ekki kemur elskendunum sjálfum beint við, þá hlýtur það að samanstanda af öllum aukaatriðunum og óþarfanum allt um kring og á milli þeirra, öllu því sem elskendurnir hefðu kannski gjarnan kosið að fá frið fyrir. Hvað sem öðru líður finnst mér bókartitillinn ansi góður og kaflaskiptingin virka ágætlega sem slík.


Eitt verð ég að nefna sem fór dálítið í taugarnar á mér við stílinn, en það er töluvert af að því er virðist tilefnislitlum línuskiptingum í sumum ljóðunum.

Dæmi:
„Ég sé fyrir mér sunnudag
sem byrjar
á hljóðlátum
ástarleik.“ (bls. 18)

Annað dæmi:
„Og það er alveg rétt
hjá þér.“ (bls. 42)

Hér hefði mér þótt fara betur á að sameina þrjár síðustu línurnar í fyrra dæminu, og þessar tvær í því seinna – eins og er finnst mér skiptingin slíta hrynjandina óþarflega í sundur og sé í raun ekki að hún þjóni neinum tilgangi. Kann að vera smekksatriði; kannski að einhverjir sjái einhverja fagurfræði í svona skiptingu, en eins óljóðrænt og það kann að hljóma finnst mér þetta á vissan hátt einfaldlega snúast um setningafræði. Þetta eru bara ekki setningar af því tagi að henti að slíta þær í sundur – sem mér finnst koma berlega í ljós þegar þær eru lesnar upphátt. Línuskiptingar geta vissulega í einhverjum tilfellum skilað sér í einhverskonar ljóðrænu hiki, en hér þykja mér áhrifin frekar höktkennd. Í sjálfu sér finnst mér þetta samt enginn stórgalli á viðkomandi ljóðum þótt ég hafi hnotið dálítið um það og fyrri tilvitnunin er reyndar úr uppáhaldsljóðinu mínu í bókinni, sem heitir „Von“ og er síðasta ljóð fyrsta hlutans (og jafnframt lengsta ljóð bókarinnar). Nokkur önnur finnast mér sömuleiðis ágæt, en önnur síðri. Ég kann nota bene vel að meta góðan skáldskap um hversdaginn, ljóð um grámuskulegustu málefni geta hitt beint á hinar óvæntustu taugar – en þótt hér sé ýmislegt sniðuglega gert fannst mér ekki alveg nógu mikið um myndir eða hughrif sem hittu beint í mark. Þó má halda því til haga að tónninn er einlægur út í gegn. Þetta er viðkunnanleg bók sem samsvarar sér vel, þótt skáldskapurinn hafi mér þótt helst til rislítill.

4 ummæli:

  1. Seinni hluti þessarar gagnrýni er alveg eitthvað.

    "eins óljóðrænt og það kann að hljóma finnst mér þetta á vissan hátt einfaldlega snúast um setningafræði. Þetta eru bara ekki setningar af því tagi að henti að slíta þær í sundur"

    Væri áhugavert að sjá undirritaða tæta í sig ljóðlist 20. og 21. aldar út frá þessari speki.

    SvaraEyða
  2. Bíddu eru ljóðin bara 4 línur og 2 línur. Voðalega er það stutt eitthvað.

    SvaraEyða
  3. Nafnlaust 2:
    Afsakið ef það var ekki nógu skýrt, en þetta eru semsagt dæmi úr ljóðum en ekki ljóð í heild sinni...

    Nafnlaust 1:
    Ég er síður en svo neitt að "tæta í mig" hérna heldur, mér finnast bara sérviskulegar línuskiptingar off ef mér þykja þær raska hljómfalli ljóðanna án þess að gefa þeim neitt annað í staðinn. Og finnst það persónulega frekar borðleggjandi að ljóðlist snúist um hljómfall, og að hljómfallið búi að miklu leyti í setningaskipaninni.

    SvaraEyða
  4. Altsvo að hún snúist um hljómfall "upp að einhverju marki", hefði mátt bæta við hjá mér þarna... ef það var ekki skýrt.

    SvaraEyða