8. nóvember 2012

Strandir Gerðar

Nýr gestabloggari lætur á sér kræla: Vera Knútsdóttir bókmenntafræðingur skrifar hér um Strandir eftir Gerði Kristnýju.
Ég held að ég hafi verið um fjórtán ára þegar ég bað um smásagnasafnið Eitruð epli eftir Gerði Kristnýju í jólagjöf frá foreldrum mínum. Ég þekkti ekki höfundinn en fannst eitthvað mjög spennandi við titilinn og myndina af höfundi sem fylgdi auglýsingu bókarinnar í Bókatíðindum það árið. Og ekki brást yfirborðsmennskan í sjálfri mér, því eitruðu eplin smökkuðust vel og ég las sögurnar aftur og aftur. Hversdagslegur tónn, en í senn hnyttinn, kaldhæðinn, ásamt svörtum húmor sem ólgaði undir yfirborði textans og skaust upp af og til, heillaði unglingahjartað. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Gerður Kristný orðið margverðlaunað skáld og margþýtt. Hún hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabók sína Blóðhófnir árið 2010 og ég man eftir viðtali við hana (eða kannski var það bara status á feisbók) þar sem hún hafði fengið í hendurnar nýjustu þýðinguna á ljóðum sínum og letrið minnti hana helst á „þvott á snúru“ sem er reyndar mjög góð lýsing á tælenskum stöfum. Þá þykist ég vera löngu hætt að velja bækur eftir ljósmyndum höfunda á bókakápum, eða við skulum að minnsta kosti vona það – myndi sennilega aldrei koma til með að lesa menn eins og Sartre eða Flaubert ef sá væri hátturinn. Gerður hefur einnig látið að sér kveða í skrifum fyrir börn og hlaut Vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrir unglingasöguna Garðurinn árið 2010.



Eins og á svo oft við um ljóðabækur lætur Strandir ekki mikið yfir sér. Titillinn, bókakápa og ljóðið „Indland“ aftan á bókakápu, gefa þá hugmynd að um ferðaljóðabók sé að ræða og á það vel við svona um það bil fram í hálfleik. Ljóðunum er skipt í nokkra kafla sem eru afmarkaðir með myndskreytingum Alexöndru Buhl og kemur það vel út. Köflótt áferð bókakápunnar og fléttuð munstrin vísa ef til vill í ljóðagerðina sjálfa, í textann sem er fléttaður saman og ofinn í köflótt efni. Hér verður ekki nánar farið út í tengls skáldskapar, vefnaðar og handavinnu, en þó skal tekið fram að útsaumur er þekkt stef í ljóðum Gerðar og kemur einnig við sögu hér.

Fyrstu ljóðin lýsa ferðalögum innanlands, senum í íslenskri náttúru eða myndum sem tengjast íslenskum menningararfi. Ljóðmælandi er ýmist staddur á ströndunum fyrir vestan, á Snæfellsnesi, í Skerjafirðinum eða á Austurvelli í Reykjavík. Þá fylgja ferðalög erlendis, til Indlands, Japan og ljóðið „skór Marie Antoinette“ gæti verið ljóð um menningartúrisma, hvað það er að vera túristi, ferðast og skoða söguleg verðmæti hvers lands fyrir sig. Þriðji kaflinn geymir æskuljóð. Hlýjan, sorgin og átökin sem fylgja þeim ljóðum höfða vel til mín, ef til vill vegna þess að ég og sennilega aðrir lesendur geta tengt ljóðin við eigin æsku, eigin ömmu og eigin veiku frænku. Ljóðið „Kleinur“ finnst mér einkar fallegt og ljúfsárt:

Kleinur  
Daginn sem
amma mín frétti
að yngsta dóttirin
hefði stytt sér aldur
með lófafylli
af lyfjum
tók hún til við
að steikja kleinur

Löngu síðar
þegar amma
var orðin háöldruð
og utan við sig
var henni sagt
að sonur hennar
væri látinn

Og hún spurði:
„Er búið að segja
mömmu hans það?“

Henni varð hugsað
til konunnar
sem steikti kleinurnar
hér um árið
og óskaði þess þá
af öllu hjarta
að vera einhver önnur 

Strandir enda á ljóðabálkinum „Skautaferð“ en þar kveður við annan tón en áður. Húmorinn og hlýjan sem einkenndi ferða og æskuljóðin eru á undanhaldi, hér er myndmálið allsráðandi og kveikur að skapandi lestri og ólíkum túlkunum. Dregin er mynd af vetrarlandi, kulda og frosthörkum þar sem vatn í klakaböndum skilur tvær manneskjur að og ljóðmælandi skautar ofan á ísnum. Áhrifamikið ljóð og eftirminnilegt, minnir jafnvel á sum ljóð Snorra Hjartarsonar, skáldsins sem upphaflega ætlaði að verða listmálari.

Í stuttu máli sagt eru Strandir einstaklega fjölbreytt ljóðabók – allt í senn skemmtileg og sorgleg, hlý og kaldhæðin, hversdagsleg og dramatísk. Ljóðin eru meitluð og knöpp og verða áhrifamikil fyrir vikið. En í því liggur einmitt styrkur ljóðsins almennt; að koma til skila áhrifamiklum (hug)myndum í fáum orðum. Strandir bera þess vitni að Gerður Kristný er einkar lagin við að nýta sér ljóðaformið til þess.

VERA KNÚTSDÓTTIR

Engin ummæli:

Skrifa ummæli