9. desember 2012

Málari málar sig út í horn

Málarinn eftir Ólaf Gunnarsson gerist í Reykjavík veturinn 1984 og segir af misskilna listmálaranum Davíð Þorvaldssyni. Misskilna segi ég en Davíð er þó einn vinsælasti málari landsins og „selur“ afskaplega vel en myndlistarelíta landsins hefur hins vegar lítið álit á honum. Þegar hann barn að aldri fór með móður sinni á myndlistasýningu hjá Kjarval gaf meistarinn honum málverk og sagði að hann ætti eftir að verða meiri málari en hann sjálfur þegar fram liðu stundir. Þessi spádómur hefur verið Davíð bæði innblástur og byrði og það að hann er vinsæll fremur en virtur nagar hann að innan. Hann grípur því til afdrífaríks ráðs til að sýna listaheimi Íslands í tvo heimana - hann málar nýtt verk – eftir Kjarval - og kemur því alla leið á Kjarvalstaði áður en yfir lýkur.



Það er óhætt að segja að Kjarval sé miðlægur í atburðarásinni þótt ekki komi hann beint við sögu nema í blábyrjun. Hann er ástæða þess að Davíð málar en kannski líka ástæða þess að hann er ósáttur við eigin status í listheiminum – hann ber sig sífellt saman við meistarann sem var bæði vinsæll og virtur. Þá eru Kjarval-málverkin tvö (hið falsaða og hið ósvikna) burðarbitar í framvindu sögunnar sem og húsið sem Kjarval var gefið á efri árum (og hafnaði). Jafnvel mætti halda því fram að Kjarval sé málarinn sem titillinn vísar í þar sem Davíð sjálfur lifir nánast í skugga hans.

Þetta er ekki fyrstu persónu frásögn en sagan er sögð svo gjörsamlega út frá sjónarhóli málarans að hún virkar að mörgu leyti þannig – og málarinn reynist ekki alveg áreiðanlegur sögumaður (án þess að ég kjafti frá nokkru) og afskaplega sjálfhverfur. Aðrar persónur verða sumar dálítið bragðdaufar og helgast það kannski af sjálfhverfu hans. Inn í þessa sögu af uppgjöri listmálarans við sjálfan sig fléttast svo atburðarás úr Hafskips- og Eimskipsmálinu frá níunda áratugnum enda gerist sagan þá. Þannig fáum við að kynnast nokkrum stórlöxum sem rekur á fjörur Davíðs sem og yfirvöldum á Kjarvalsstöðum, föður hans og tengdaföður og gagnrýnendum, málurum og fastagestum á Mokka að ógleymdum eftirminnilegum leigubílsstjóra. Einu konurnar eru eiginkona og dóttir Davíðs sem eru báðar afskaplega fallegar. Eitt það eftirminnilegasta við þær eru þó sennilega ótrúlega tíðar lýsingar á hári þeirra sem Ólafur leggur þvílíka rækt við að eiginlega er óhætt að tala um minni í bókinni.

Málarinn er að sumu leyti spennusaga – hröð og ófyrirsjáanleg atburðarás þar sem allt kemur saman, glæpir, ástríður, svik, fals og morð. Að öðru leyti er hún epísk saga um fall manns og harmleikurinn verður næstum grískur í stórfengleika sínum. En í þriðja lagi örlar á gamansemi, stíllinn dáldið skemmtilegur og á köflum næstum eins og paróderar aðalsöguhetjuna og ofsafengin viðbrögð hennar við atburðum. Davíð er hégómlegur, uppstökkur, ástríðufullur og mögulega hæfileikaríkt sellát en mögulega lélegur alþýðu-málari. Persóna hans er svo stórbrotin að hún verður kómísk.

Helsti galli Málarans er kannski sá að hið átakamikla líf Davíð Þorvaldssonar snerti mig afskaplega lítið. Bókin er, eins og áður sagði, hröð, ófyrirsjáanleg– eiginlega eins og tryllir á köflum og oft skemmtileg í stílnum en hún greip mig ekki heljartökum af því mér stóð nokk á sama um persónurnar. Það getur verið áhrifaríkt og djarft stílbragð að hafa aðalsöguhetju sem er ekki sérlega viðkunnanleg eins og í Útlendingnum eða Ilminum eða jafnvel Madame Bovary (svo ólíkar aðalsöguhetjur séu nefndar) – það getur líka verið bráðfyndið eins og í jah – einhverri bóka Braga Ólafssonar en Málarinn er hvorki meistarastykki um skrímsli eins og fyrst nefndu bækurnar – né er þetta absúrd situation comedy eins og stundum hjá Braga (kjöldragið mig endilega fyrir einfaldanir hér). En Málarinn er hins vegar tragísk spennusaga með kómískum undirtón!

1 ummæli:

  1. Ertu ekki til í að gefa sýnishorn af lýsingunum á hárinu?

    SvaraEyða