13. desember 2012

Spádómur sem grípur og gleður

Eins og lesendur þessa bloggs vita vonandi þá hafa nokkrar af okkur sem hér skrifum sent frá sér allskonar bækur. Við höfum jafnframt einsett okkur að fjalla um allar fagurbókmenntir sem koma út eftir íslenskar konur 2012–2014 en ákváðum að útvista umfjöllun um Spádóminn eftir Hildi til óháðs aðila: Elínar Bjarkar Jóhannsdóttur, meistaranema í bókmenntafræði.

***

Ég var svolítið spennt að fá Spádóminn eftir Hildi Knútsdóttur í hendurnar en lesendur þessarar síðu þekkja hana eflaust því hún bloggar hér að staðaldri. Hildur hefur áður gefið út skáldsöguna Slátt. Spádómurinn er samkvæmt aldursmerkingu á kápunni fyrir fólk frá 11 ára aldri og fellur í hóp þeirra fantasía sem höfða bæði til barna/unglinga og svo ungs fólks en eiga það til að rata bara til fyrri hópsins. Vissulega er mjög jákvætt að það séu að koma út íslenskar skáldsögur fyrir eldri börn en Spádómurinn á einnig skilið að ná til fantasíualesenda á fullorðinsaldri. Bókin kallast á við ýmsa aðra texta úr fantasíugreininni, við lesturinn komu m.a. upp í kollinn á mér nýlegar bækur einsog Hungurleikarnir og Harry Potter bækurnar. Á einhverjum tímapunkti varð mér hugsað til Hringadrottinssögu og einnig Aliens þó að tengingarnar við þá texta væru ekki jafn augljósar og við þá fyrrnefndu. Önnur textatengsl eru við Bakkabræður og vandræði þeirra við að bera birtu inní húsið en í fantasíuheimi Spádómsins er ljós flutt í skjóðu á milli hnatta.


Spádómurinn er virkilega spennandi bók, sérstaklega framan af. Daginn eftir að ég fékk hana í hendurnar ákvað ég að byrja rétt aðeins að glugga í hana. Í stuttu máli sagt þá datt ég alveg inní söguna og var virkilega spennt og æst í að lesa áfram. Aðalpersónan, Kolfinna, er vel heppnuð og sannfærandi unglingur sem auðvelt er að tengja við og söguþráðurinn er nokkuð vel heppnaður. Í verkinu er unnið á skemmtilegan hátt með hugmyndina um að „örlög [séu] ekki óumflýjanleg“ (bls. 80). Mér þykir einnig mikill kostur við verkið hvernig sá heimur sem er settur fram þar kallast á við raunveruleikann sem við þekkjum án þess þó að falla í þreyttar klisjur, til dæmis þegar kemur að því hvernig kynin eru sett fram. Fyrir utan hið augljósa, sem er að Spádómurinn hefur kvenkyns-hetju í hlutverki, sem er oftar tekið frá fyrir karlkyns persónu, þá er móðir Kolfinnu færasti járnsmiður bæjarins og hún og faðir Kolfinnu sinna starfi sínu saman á jafningjagrundvelli. Þetta er mikilvægt fyrir unga lesendur og tengist einnig þeirri nauðsyn að í boði séu íslensk verk sem kallast á við okkar samtíma.

Heimur Spádómsins er fantasíuheimur en þó að íbúar bæjarins hennar Kolfinnu séu venjulegt mennskt fólk þá er þegar til staðar í þorpinu fantasískt fyrirbæri: allir þorpsbúar eiga vængjapar sem er töfrum líkast en jafnframt bannað að nota samkvæmt fornum reglum. Vængirnir birtast við fæðingu hvers barns og hverfa þegar fólk deyr án þess að fólk viti hvernig það gerist. Það eru bara hinir fullorðnu sem fá að vita til hvers vængirnir eru ætlaðir. Spádómurinn, einsog margar bækur fyrir börn sem nálgast unglingsárin, fjallar meðal annars um inngöngu í fullorðinsheiminn. Kolfinna þarf fljótt að standa á eigin fótum og taka ábyrgð á hlutum sem unglingar ættu ekki að þurfa að taka ábyrgð á. Hið táknræna ferðalag frá bernsku til þroska kallast einnig á við ferðalag hennar í rúmi. Kolfinna ferðast frá þorpinu inná svæði þar sem fantasían ríkir með hjálp fantasískrar persónu sem hún kynnist við jaðar þorpsins. Þessi persóna er tunglfiskur sem flaug niður í þorpið til þess að gefa nýfæddu barni vængi. Tunglfiskurinn er fyrsti fyrirborðinn um það ferðalag sem bíður Kolfinnu og hann er nokkurs konar leiðsögumaður hennar og hjálpari í gegnum söguna en hann á reyndar einnig sinn þátt í upphafi atburðarásarinnar.

Ég var hrifin af húmornum í verkinu, enda er afar mikilvægt að hafa þann þátt til staðar, sérstaklega í verkum sem eru einnig fyrir börn. Mér finnst húmorinn vera þess eðlis að hann höfði bæði til yngra fólksins og fullorðinna, ég hló til dæmis dátt þegar tunglfiskurinn er kynntur til sögunnar. Þessi vera er töfrum líkust, flýgur um himingeiminn og hefur glitrandi roð sem verður ósýnilegt þegar hann hreyfir sig. Persónurnar í þorpinu heita flestar sérstökum nöfnum einsog Ísgerður, Fríður, Mýrún, Ormar og Hróbjartur. Hin ævintýralega persóna, tunglfiskurinn sjálfur, heitir hinsvegar hinu algenga og jafnframt hversdagslega nafni Jón. Þetta er kannski ekki besta dæmið um húmor í bókinni en af einhverjum ástæðum höfðaði þetta litla atriði mjög til mín.

Það er gott tempó í verkinu og örar kaflaskiptingar framanaf keyra söguna áfram og mér fannst ég alltaf eiginlega verða að lesa einn stuttan kafla í viðbót. Svo þegar sagan er komin á virkilegt skrið verða kaflarnir lengri. Undir lok bókarinnar, í hápunkti atburðarásarinnar, fannst mér höfundur afgreiða atburði full fljótt og sagan verða slakari uppfrá því. Þó er unnið á ágætan hátt með afleiðingar þeirra atburða sem gerast í verkinu og þær breytingar sem verða, ekki bara á lífi Kolfinnu heldur þorpsbúa allra. Ég hefði viljað lesa meira um þennan heim sem birtist í Spádómnum en um leið er ákveðin opnun í lok bókarinnar sem gefur til kynna að ævintýrum Kolfinnu sé ekki lokið, jafnvel þó að þau birtist kannski ekki á prenti.

Elín Björk Jóhannsdóttir

Engin ummæli:

Skrifa ummæli