11. febrúar 2013

Meira um Eldvitnið!

Það er sjaldan sem við Druslubókadömur birtum fleiri en einn dóm um sömu bókina og það skrifast ekki endilega á óbærilega snilld Eldvitnisins að tvær færslur birtist um hana. Frekar er um að kenna slælegu minni mínu - því þegar Eldvitnið kom út á íslensku las ég hana og skrifaði í pistil í góðri trú - algjörlega búin að gleyma því að Guðrún skrifaði um bókina glóðheita þegar hún kom út á frummálinu...skemmtlega færslu Guðrúnar má lesa hér. Það er þó fjarri okkur drusludömunum að láta pistla - skrifaða með blóði og tárum (eða einhverju svoleiðis) fara til spillis - svo ég læt bara varnaðarorð duga: ef þið þolið ekki endurtekningu - snúið við hér!

Þótt nú sé meira en mánuður síðan að ég las Eldvitnið eftir Lars Kepler þá líður mér ennþá pínu illa þegar ég hugsa um hana. Mögulega var ég eitthvað voða meyr þegar ég las hana eða kannski að hátíð ljóss og friðar hafi haft svona mikil áhrif á mig en þó finnst mér líklegra að bókin sé einfaldlega hryllileg lesning. Þarna er vissulega að finna misnotaðar konur og misnotuð börn og gerandinn er einhver útgáfa af raðmorðingja en það eitt og sér ætti (merkilegt nokk) ekki að duga til að láta hrollinn hríslast niður hrygglengjuna. Það veit guð að það er auðveldara að finna nál í heystakki en samtíma glæpasögu sem ekki snýst um raðmorðingja, mansal og/eða barnaníð – stundum finn ég mig hreinlega knúna til að grafa fram Agatha Christie eða jafnvel Sherlock Holmes og minna mig á að það er hægt að skrifa spennandi glæpasögu án þess að ganga gjörsamlega fram af lesandanum með viðbjóði…en jájájá áður en ég verð farin að mæra Morse og Barnaby og missi allt kredit er best að halda áfram að fjalla um Eldvitnið sem er ansi hreint fín þótt hún geri einmitt þetta – gangi fram af mér. Kannski er það einmitt lágmarkskrafa neytanda nútímans – að afþreyingin sem gengur fram af manni geri það þó alla vega vel!
Þau eru dulúðug - Coelho hjónin...

Höfundur Eldvitnisins er Lars Keplar – en Keplar er höfundarnafn sænsku hjónanna Alexander og Alexandra Coelho Ahndroil. Nú skil ég vel að rithöfundar skuli hika við að nota eftirnafnið Coelho en ástæðan fyrir nafnleyndinni var víst sú að hjónin höfðu skapað sér nafn sem höfundar annars konar efnis en reyfara og vildu að þau að fólk gæti lesið bækurnar án nokkurra væntinga. Þau vildu sjá hvort Kepler gæti spjarað sig án þeirrar hjálpar – og það gat hann svo sannarlega – bækurnar um finnsk-ættaða sænska lögreglumanninn Joona Linna hafa slegið í geng á fjölmörgum tungumálum. Eldvitnið er þriðja bókin í flokknum (hinar eru Dávaldurinn og Paganinisamningurinn) og mér finnst afskaplega líklegt að sú fjórða (sem kom út 2012 í Svíþjóð) verði líka þýdd. (Annars finnst mér magnað að heita Alexandra og giftast manni sem heitir Alexander! Hverjar eru líkurnar?) Íslenskur þýðandi herlegheitanna er Jón Daníelsson og tekst honum bara vel til.

Nema hvað – Eldvitnið fjallar um málefni sem óneitanlega brenna á landsmönnum þessa dagana – nefnilega misnotkun á börnum - og - haldið ykkur fast – inná stofnunum! Stofnunum sem leggja til grunvallar að annast og reynast skjólstæðingum sínum (sem eru yfirleitt brotnir fyrir) haldreipi og hjálp í lífinu. Sagan hefst með ofsafengnu morði á yfirmanni á heimili fyrir vandræðastúlkur og ljóst þykir að ein stúlkan hafi framið verknaðinn. Næstu fimmhundruð síður svipta hins vegar hulunni af hryllilegum og marglaga glæpum sem spanna áratugi og skilja mann eftir fullan af beiskju, reiði og djúpri sorg fyrir hönd allra misnotaðra barna veraldar. Misnotkun tekur á sig margar myndir og afleiðingar þeirra eru mismunandi. Eitt af því sem bókin gerir nokkuð sannfærandi er myndin sem hún dregur upp af stúlkunum á hælinu. Þær eru hreint ekki sérlega viðkunnanlegar - enda hafa þær kannski litla ástæðu til. Misnotkun eyðileggur og fólk snýr baki við fórnarlömbunum - þau eru óþægileg - þar með verða þau enn meira einmana og einangruð og enn auðveldari bráð fyrir sjúka huga. Þetta er skelfilegur vítahringur sem Eldvitnið snertir á þótt hún fari kannski ekki djúpt í málefnið.

Þetta hljómar kannski ekki eins og notaleg bók til að grípa í – og það er hún heldur ekki en hins vegar er hún langt frá því að vera táradalur. Hún er meira að segja ekki laus við húmor (sem er annars voða lítið tekinn í skandinavískum samtíma glæpasögum sem eru yfirleitt mjög uppteknar við að afhjúpa „velferðarkerfið“ og stinga á hvers kyns kýlum samfélagsins). Bókin er líka hroðalega spennandi og jafnvel er stíllinn nokkuð góður þótt það hafi því miður farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér því mér lá svo afskaplega á að tæta í gegnum frásögnina og sjá hvað gerðist næst…perlur fyrir svín er ég hrædd um…

Eldvitnið sver sig í ætt við aðrar skandinavískar glæpasögur – hún stingur á samfélagsmeinum, lögreglumaðurinn Joona Linna þarf að eyða jafn miklu púðri í að berjast á móti „kerfinu“ (skilningslausum yfirmönnum) og hættulegum glæpamönnum og auðvitað á hann í erfiðleikum í einkalífinu. Linna er (eins og Guðrún Lára nefndi í sinni færslu) nánast gallalaus persóna sem gerir hann minna áhugaverðan en ella - en ég má þó til með að taka fram að hann er ekki drykkfelldur og er hér því nánast brotið blað hvað varðar persónuleika skandinavískra lögreglumanna. Hins vegar ber maðurinn svo gríðarlega þungar pjönkur úr foríðinni að segja má að alkhólismi hefði engu breytt til né frá. Persónuleg saga Linna þróast áfram í gegnum bækurnar og er óhætt að segja að höfundar yfirgefi hann á ögurstundu í bókarlok – svo lesandinn er tilneyddur að útvega sér næstu bók ef honum stendur ekki fullkomlega á sama um manninn.

Vitund sögunnar flyst á milli ólíkra einstaklinga sem við fyrstu sýn eiga ekkert sameiginlegt en líf þeirra fléttast þó sífellt meira saman meðan sögunni fleytir fram. Þetta form getur verið mjög þreytandi ef ekki er vel haldið á spöðunum og í glæpasögum er hæpið að maður nenni að vera að fletta mikið fram og til baka til að rifja upp hver er hvað og hvaða forsögu hver og einn hefur. Hér tekst þó prýðilega til – persónurnar eru alveg sérstaklega skýrar og ólíkar og lifna við á síðunum. Við fylgjumst m.a. með áðurnefndum Joona Linna, stúlku af hælinu, auðugri stjórnmálakonu, ekkli hins myrta starfsmanns og kúguðum falsmiðli – öll standa þau í skugga fortíðar á einn eða annan hátt. 

Bókin er að sjálfsögðu ekki gallalaus, hún er (þrátt fyrir allt) helst til löng, dálítið yfirgengileg og ég er enn að reyna að átta mig á hvað höfundur var að fara með hugmyndum um karlkyns hórur (í bókinni má finna nokkurs konar öfugt Pretty Woman plot) – en það er aftur efni í annan pistil. En að þessu slepptu er hún hörkuspennandi, ófyrirsjáanleg, prýðilega skrifuð og endirinn er ekki vonbrigði (sem er annars oft helsti galli glæpasagna). Eldvitnið kom út á mér tárum á köflum en oftar sat ég sveitt og ruddist í gegnum blaðsíðurnar – heltekin af spennu. Það eru meðmæli – ekki satt?

2 ummæli:

  1. Þetta er rosalega góð bók, alveg sammála því. Ég las einmitt fyrstu bókina þegar hún kom út á Íslensku (Dávaldurinn minnir mig) og spændi hana í mig á sólarhring. En var samt ekki nógu spennt til þess að lesa bók númer 2. Svo las ég - eftir góðan dóm hér - Eldvitnið og svei mér þá ... ég rauk út og keypti Paganinisamninginn og nú bíð ég vandræðalega spennt eftir fjórðu bókinni sem vonandi verður þýdd (því að ég kann ekki annað en íslensku og ensku).

    Takk fyrir mig!

    SvaraEyða
  2. en gaman! Já - ég held að ég næli í einhverja af hinum og lesi við fyrsta tækifæri!

    SvaraEyða