7. apríl 2013

Í leit að fegurð - The Line of Beauty eftir Hollinghurst

Á dögunum fór ég í langferð, í tvennum skilningi, fór bæði langt og dvaldist þar lengi. Í svoleiðis ferðum gefst manni gjarnan góður tími til að lesa og mér tókst að sporðrenna heilum níu bókum á meðan á ferðalaginu stóð. Bækurnar reyndust flestar góðir ferðafélagar og fyrir konu sem hefur vanrækt blogg þetta í ógurlega langan tíma er ekki úr vegi að dúndra inn færslum um nokkrar vel valdar.

Fyrstan skal telja doðrantinn The Line of Beauty eftir Alan Hollinghurst, sem ég tók með mér einmitt vegna þess að bókin er upp á fimmhundruð síður og var þar af leiðandi líkleg til að endast dágóða hríð. Fyrir bókina hlaut Hollinghurst Booker-verðlaunin árið 2004 og henni hefur verið haldið á lofti sem einni merkustu ensku skáldsögunni frá aldamótum. Í myndaleit fyrir þessa bloggfærslu komst ég að því að árið 2006 var gerð þáttaröð á BBC eftir bókinni, sem hljómar dálítið undarlega þar eð styrkur skáldsögunnar liggur í tungumálinu og því hvernig höfundurinn sýnir okkur inn í sálarlíf Nicks Guest, en Nick er aðalpersónan og sjónarhornið bundið við hann. Mig langar að sjá þessa þáttaröð til þess aðallega að komast að því hvernig unnið var með þetta allt saman og hvort það gengur upp í sjónvarpsformi. Skáldsagan segir frá stuttu tímabili á sitt hverju árinu; fyrsti kaflinn heitir "The Love-Chord" og gerist árið 1983 skömmu eftir gríðarlegan kosningasigur breska íhaldsflokksins, "To Whom Do You Beautifully Belong?" gerist þremur árum síðar og lokakaflinn "The End of the Street" árið 1987 skömmu fyrir þingkosningar. Þegar sagan hefst er Nick tiltölulega nýorðinn gestur á heimili Fedden-fjölskyldunnar í Notting Hill-hverfinu í London. Hann hefur nýlokið námi við Oxford-háskóla ásamt dáðadrengnum Toby Fedden sem kemur úr virtri íhaldsfjölskyldu; faðirinn Gerald er þingmaður íhaldsflokksins og harður stuðningsmaður forsætisráðherrans Margaret Thatcher. Á heimilinu eru einnig Rachel Fedden, kona Geralds, sem er af gamalgróinni enskri lávarðaætt, og dóttirin Catherine sem hefur átt við geðræna erfiðleika að stríða og prófar sig áfram með ýmiss konar uppreisnir við almennt áhugaleysi foreldranna. Nick er sjálfur úr miðstéttarfjölskyldu - faðir hans er antíksali sem hefur unnið mikið fyrir efristéttarfólk - og er þannig utanaðkomandi í þessu samfélagi forréttindafólks, ríkidæmis og valds. Eftirnafnið Guest vísar greinilega til stöðu hans í Thatcher-kreðsunum á 9. áratugnum. Það er þó ekki aðeins uppruninn sem gerir það að verkum að Nick er utanveltu heldur er hann einnig samkynhneigður og er þegar sagan hefst hálfvegis kominn út úr skápnum, svona eins og í boði var árið 1983 í Bretlandi, einungis 15 árum eftir að afnumin voru lög sem gerðu kynlíf samkynhneigðra refsivert.


Hollinghurst teflir þessum aðkomumanni inn í ensku valdastéttina til að skoða hana með augum gestsins. Níundi áratugurinn var afar áhugaverður og átakamikill tími í bresku samfélagi og um hann hefur margt og mikið verið skrifað. Ég hef lesið nokkuð margar bækur sem segja frá þessum tíma út frá verkamannastéttinni, fátækt, atvinnuleysi, stéttabaráttu o.s.frv. en þetta er merkilegt nokk fyrsta skáldsagan sem ég hef lesið þar sem sagan er sögð innan úr íhaldsdeiglunni. Eins og fyrr sagði er sjónarhornið alfarið bundið Nick og upplifunum hans þótt frásögnin sé í þriðju persónu. Uppbygging sögunnar er vel heppnuð og athyglisverð en þrátt fyrir að sagan öll spanni fjögur ár er fókusinn í hverjum kafla afar þéttur og þar sagt frá afmörkuðum tíma, nokkrum dögum eða vikum.

"Nick chose a moment before dinner to pay the rent. It was always awkward. "Oh ... my dear ..." said Rachel, as if the two ten-pound notes were a form of mild extravagance, like a box of chocolates, or like flowers brought by a dinner guest, which we're also a bit of a nuisance." (bls. 118)

Nick, gesturinn sem borgar, þráir að tilheyra stétt Fedden-fjölskyldunnar, fylgist með þeim vökulum augum, stúderar þau öllum stundum og sér í þeim fegurðina sem hann sækist svo mjög eftir, en nafn skáldsögunnar vísar til kenninga málarans Williams Hogarth um sjónræna fegurð og s-laga bogans (the ogee). Samband Nicks við fjölskylduna er þráhyggjukennt, nánast mætti tala um blæti. Hann þráir að komast nálægt þeim og þeirra líkum, renna saman við fjölskylduna, en er týndur inni í stanslausum leikþætti; Nick er nefnilega fullkomlega ófær um að vera hann sjálfur, hann leikur hlutverk, er meðvitaður um hverja einustu hreyfingu og hvert einasta orð. Það er skelfileg óhamingjuára yfir honum, taugaveiklun - hann gerir alltaf of mikið, leikur hlutverkið um of. Allt sem hann segir er ofhugsað, hvort sem er í samskiptum við Fedden-fólkið, fyrsta kærastann sem er borgarstarfsmaður af karabískum ættum eða unga auðkýfinginn sem hann seinna leggur lag sitt við. Það sorglega er að lesandinn skynjar að enginn rýnir jafn grannt í Nick og hann gerir ráð fyrir, enginn fylgist með honum eins og hann fylgist með öðrum. Leikritið sem hann er fastur í kemur honum ekki til góða heldur skaðar hann, flysjar stöðugt utan af kjarnanum.

"Sometimes his memory of books he pretended to have read became almost as vivid as that of books he had read and half-forgotten, by some fertile process of auto-suggestion. He pressed the volume back into place and closed the gilded cage. He had a sense, which was perhaps only hiw own self-consciousness, of some formal bit of business, new to him but deeply familiar to his host, being carried out in a sociable disguise." (bls. 53)

The Line of Beauty er nokkuð hrollvekjandi spegill á 9. áratuginn; burtséð frá hinu pólitíska ástandi á Bretlandi á þessum árum er það ömurleg staða samkynhneigðra sem stendur upp úr, sem samtvinnast aftur alnæmisvofunni sem skildi eftir sig hroðalega slóð í samfélagi samkynhneigðra á þessum árum. Því er auðvelt að gleyma hvernig viðhorfið var til HIV-smitaðra á níunda áratugnum og leyndin sem hvíldi yfir ástandinu endurspeglar leyndina í kringum samkynhneigð á þessum tíma; allt er hvíslað, sagt í hálfum hljóðum, undir rós, svo heilu lífin grotna í sundur.

Alan Hollinghurst
Booker-verðlaunahafi
Meðan á lestrinum stóð sló það mig hvað eftir annað hve margar hliðstæður voru með andrúmslofti níunda áratugarins og hinu alræmda "góðæri" fyrir bankahrun. Kókaínið sáldrast úr nösum gulldrengja sem slá um sig og er sama um allt og alla svo lengi sem þeir sjálfir græða. Hugsjónir eru hvergi sjáanlegar og einstaklingshyggjan ríður röftum. Allir eru á fullu, allir eru að meika það, strákarnir eru í stuði. Ég hugsaði meira að segja "ah, djöfull er þetta snjallt hjá honum, að skrifa bók um 2007-stemninguna en nota til þess níunda áratuginn," en fletti svo fremst í bókina og áttaði mig á því að bókin kom faktískt út árið 2004 og er þar af leiðandi ekki einhvers konar eftir-hruns-uppgjör heldur annað hvort glúrinn eða ómeðvitaður spegill á síðasta rugltímabil (og það næsta? Ó, vei mér, aumri önd!).

Bókin er ekki bara löng heldur er textinn einhvern veginn þykkur, flókinn, það sem maður myndi kalla "dense" væri maður í stuði til að sletta. Stíllinn er afskaplega enskur og hefur á sér einhvern klassískan blæ sem minnir á eldri höfunda. Hver einasta setning er vel smíðuð, stundum þannig að ég hugsaði bara "æ, Alan, nostraðu nú aðeins minna við þetta og komdu þér áfram", en þegar upp er staðið þykir mér heildin afskaplega sterk. Ég var fáránlega lengi að komast í gegnum fyrstu fimmtíu blaðsíðurnar og þurfti hvað eftir annað að spóla aðeins til baka þegar ég áttaði mig á því að ég var hætt að meðtaka og farin að lesa án þess að skilja, en síðurnar fjögurhundruð og fimmtíu sem á eftir fylgdu gengu nokkuð hratt og sagan ríghélt mér. Það eru mörg lög í henni; pælingar um fagurfræði, samfélagsádeila, persónuleg þroskasaga/harmsaga, hugmyndin um aðkomumenn og þá "réttbornu", og svo mætti lengi telja. Til að byrja með bjóst ég ekki við að hún myndi snerta mig sérlega djúpt, til þess var ég of meðvituð um stílinn og vandvirkni höfundarins, en þurfti að éta það ofan í mig. Fjandi góð bók.

4 ummæli:

  1. Vá okei, djöss djús í gangi hér Salka! Er búin að horfa á þessa bók í hillunni núna þá í níu ár. Set hana í bókaröðina mína!

    SvaraEyða
  2. Fíla það! Mundu bara að láta ekki deigan síga þótt fyrstu fimmtíu séu tyrfnar ...

    SvaraEyða
  3. Mikið er ég oft búin að gefast upp á þessum fyrstu 50 og skammast mín fyrir það hvað ég sé ómenntaður barbari :$

    SvaraEyða
  4. Þú sérð að þú ert ekki ein, kæra Arndís - en þraukaðu, þraukaðu, það er þess virði!

    SvaraEyða